Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 júlí 2005

Punktar dagsins
Gerhard Schröder og Angela Merkel

Þýska ríkisstjórnin féll í morgun í vantraustskosningu. Meirihluti þingmanna á sambandsþinginu í Berlín greiddi atkvæði gegn traustsyfirlýsingu á stjórnina. Það var Gerhard Schröder kanslari, sjálfur sem bað um kosninguna og lagði fram tillöguna. Með því knýr hann í gegn slit kjörtímabilsins og nýjar þingkosningar með haustinu. Fóru miklar umræður fram um tillöguna og að henni lokinni var gengið til atkvæða. 296 þingmenn samþykktu vantraustið, 151 studdi tillöguna og 148 sátu hjá. Ljóst var orðið seinustu vikur að umboð stjórnarinnar var farið eftir úrslit í héraðskosningum og vill kanslarinn fá úr því skorið í þingkosningum hvort stefna hans til efnahagsumbóta njóti stuðnings þjóðarinnar. Var Schröder tilneyddur til að rjúfa þing og boða kosningar eftir sögulegan ósigur jafnaðarmanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen í maí. Með tapinu þar lauk fjögurra áratuga samfelldri valdasetu jafnaðarmanna í héraðinu. Ósigurinn þar var gríðarlegt pólitískt áfall fyrir Schröder. Voru fáir kostir góðir í stöðunni fyrir hann og hið eina rökrétta fyrir hann í stöðunni að biðja um þessa kosningu.

Í seinustu þingkosningum, í september 2002, hélt vinstristjórnin í landinu, undir forsæti Schröder naumlega völdum. Jafnaðarmannaflokkurinn missti mikið fylgi en stjórnin hélt velli vegna fylgisaukningar samstarfsflokksins, græningja. Munaði mjög litlu að kosningabandalag hægrimanna, undir forystu Edmund Stoiber forsætisráðherra Bæjaralands og leiðtoga CSU, næði þá völdum. Hefur stjórn Schröders allt frá því verið veik í sessi og staðið höllum fæti gegn öflugri stjórnarandstöðu í þinginu og eftir sem liðið hefur á tímabilið hefur stjórnin veðrast upp. Ferli málsins nú eftir samþykkt þessarar vantraustsyfirlýsingar í þýska þinginu er nú í höndum Horst Köhler forseta Þýskalands. Hann er fulltrúi hægriaflanna í landinu og því auðvitað svarinn andstæðingur ríkisstjórnarinnar. Eftir samþykkt tillögunnar gekk Schröder á fund forsetans og bað hann um að rjúfa formlega þingið. Þó tillagan hafi verið samþykkt er framhaldið í höndum forsetans. Hefur hann þrjár vikur til að meta stöðuna sem nú er upp komin. Hann getur efnt til kosninga og einnig vísað málinu til stjórnarskrárdómstóls Þýskalands. Fyrri kosturinn er þó mun líklegri.

Angela Merkel leiðtogi stjórnarandstöðunnar, réðst harkalega að kanslaranum og stjórn hans í umræðunum í þinginu í morgun. Hún sagði þar að honum og vinstristjórninni hefði mistekist verk sitt og þyrfti að koma frá sem fyrst. Hún væri komin af leið fyrir löngu og ánægjulegt væri að kanslarinn hefði séð sjálfur að hann væri búinn að missa umboð almennings. Merkel mun leiða hægriblokkina í þessum kosningum. Er hún fyrsta þýska konan sem leiðir kosningabaráttu annars af stóru flokkunum í Þýskalandi. Eins og staðan er núna stefnir allt í öruggan sigur hægriblokkarinnar í haust, allar skoðanakannanir benda til afgerandi sigur hægriblokkarinnar. Flest bendir því til þess að Merkel verði fyrsta konan sem verður kanslari Þýskalands. Ætlast hægrimenn til þess að hún vinni - eins og staðan hefur verið seinustu ár er markið ekki sett á neitt annað. Vinstristjórnin hefur ekki staðið undir væntingum almennings í landinu: staðan hefur ekki batnað þar þrátt fyrir fögur fyrirheit kratanna. En það eru mjög spennandi tímar framundan í þýskum stjórnmálum. Það blasir alveg við.

Sandra Day O'Connor

Sandra Day O'Connor hefur beðist lausnar úr hæstarétti Bandaríkjanna, eftir að hafa setið þar í 24 ár. Sandra varð fyrsta konan sem kjörin var til setu í hæstarétti Bandaríkjanna. Var hún skipuð í réttinn af Ronald Reagan þáv. forseta Bandaríkjanna. Tilnefning hennar í réttinn á sínum tíma markaði mikil þáttaskil og breytti ásýnd réttarins, enda höfðu þar áður nær einvörðungu valdist karlmenn yfir sextugt til setu. Sandra Day O'Connor var því viss ferskur andblær inn í réttinn. Hinsvegar hefur hún oftar en ekki kosið með íhaldssamari hluta réttarins og haft úrslitaatkvæðið í mikilvægum málum undanfarin ár gegn frjálslyndari armi réttarins, sem skipaður hefur verið af forsetum demókrata. Ennfremur hafði hún oddaatkvæðið í frægu máli fyrir réttinum vegna forsetakosninganna árið 2000 sem tryggði endanlega sigur Bush forseta í Flórída-fylki og þar með í forsetakosningunum 2000. Búast má við enn frekari breytingum á hæstarétti á komandi mánuðum. Þegar er ljóst að stutt er í að forseti réttarins, hinn áttræði William Rehnquist, láti af störfum, enda hefur hann greinst með krabbamein og er orðinn nokkuð veiklulegur. Hann hefur verið í réttinum frá forsetatíð Nixons. Einnig blasir við að John Paul Stevens, sem er 85 ára, hætti brátt í réttinum. Það eru því miklar breytingar í sjónmáli þarna.

Humphrey Bogart og Ingrid Bergman í Casablanca

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina Casablanca sem hlotið hefur sæmdartitilinn besta kvikmynd 20. aldarinnar. Í henni er sögð sagan af kaffihúsaeigandanum Rick Blaine í Casablanca í Marokkó í seinni heimsstyrjöldinni og ævintýrum hans. Af öllum búllum í öllum heiminum verður gamla kærastan hans endilega að stíga fæti sínum inn á staðinn hans með ástvini sínum, foringja í frönsku andspyrnuhreyfingunni sem er á flótta undan nasistum, og þá hefst óvænt og stórskemmtileg atburðarás. Humphrey Bogart er hér í sínu frægasta hlutverki og Ingrid Bergman fer einnig á kostum í hlutverki Ilsu. Claude Rains á stórleik í hlutverki Louis Renault og fléttar húmor vel saman við alvöruna og Paul Henreid skilar sínu vel á lágstemmdum nótum. Casablanca er sú kvikmynd sem ég met mest. Hún verður alltaf meira heillandi eftir því sem árin líða og atriðin í henni þess þá meira heillandi. Mörg þeirra eru og verða alla tíð klassísk. Ég hvet alla sem ekki hafa séð þessa úrvalsmynd að drífa í því hið snarasta. Allir verða nefnilega að sjá þetta meistarastykki kvikmyndasögunnar a.m.k. einu sinni. Gæti orðið "upphafið að fallegri og einstakri vináttu". Það var það svo sannarlega í mínu tilfelli.

Bubbi Morthens

Um daginn keypti ég mér nýjustu plötur Bubba Morthens: Ást og ...Í 6 skrefa fjarlægð frá paradís. Eru þetta virkilega góðar plötur, fullar af sál og tilfinningu. Mér finnst hreinlega að Bubbi hafi aldrei verið eins persónulegur. Það er hægt að lesa margt út úr plötunum og textunum og maður fær athyglisverða innsýn inn í visst uppgjör meistarans við liðinn tíma sem hann bæði klárar og gerir upp á þessum plötum að því er virðist. Eru þetta hiklaust með betri verkum Bubba. Plöturnar voru unnar saman sem eitt verk af hálfu Bubba og Barða Jóhannssonar í Bang Gang. Hvor plata um sig inniheldur 11 ný lög. Bubbi hefur lengi verið einn af mínum uppáhaldstónlistarmönnum. Það fer ekki framhjá neinum að hann er einn af fremstu tónlistarmönnum landsins seinustu áratugina. Hefur hann seinustu árin samið hvern smellinn á eftir öðrum og náð að toppa sig sem tónlistarmann með hverri plötunni. Fjöldi góðra laga er þarna og margar nýjar perlur komnar til sögunnar í safn annarra meistaraverka Bubba. Ég tel að Bubbi sé eiginlega að toppa sig með samstarfinu við Barða. Flott lög á þessum nýju plötum. Hvet alla til að fá sér plöturnar.

Live 8 frá fyndnu sjónarhorni :)

Á morgun verða Live 8 tónleikarnir haldnir. Það eru rokkararnir Bono og Bob Geldof sem standa fyrir tónleikunum ásamt fjölda tónlistarmanna sem gefa vinnu sína til að þrýsta á leiðtoga ríkustu landanna, átta helstu iðnríkja heims, að koma þeim fátækustu í Afríku til hjálpar. Með Live8 er því þrýst á um að gefa eftir skuldir fátækustu ríkjanna, brjóta niður viðskiptahindranir svo Afríka geti selt vörur sínar og að tvöfalda þróunaraðstoð. Þetta er gott málefni og verður gaman að fylgjast með tónleikunum sem eru í takt við hina frægu Live Aid í júlí 1985. Bresku skopmyndateiknararnir hjá Guardian sjá auðvitað skondnu hliðina á þessu máli sem öðrum, eins og sjá má hér að ofan. :)

Saga dagsins
1986 Guðrún Erlendsdóttir formlega skipuð í embætti hæstaréttardómara, fyrst kvenna á Íslandi.
1994 Yasser Arafat snýr aftur heim til Palestínu, eftir 27 ár í útlegð þaðan - hann var pólitískur leiðtogi Palestínu í fjóra áratugi og kjörinn forseti Palestínu 1996. Hann lést 11. nóvember 2004.
1997 Kína tekur formlega við yfirráðum í Hong Kong, eftir tæpra 150 ára stjórn Englands í landinu.
2000 Kristnihátíð hefst á Þingvöllum - með hátíðinni var 1000 ára afmæli kristni á Íslandi minnst.
2000 Óskarsverðlaunaleikarinn Walter Matthau deyr, áttræður að aldri, í Santa Monica í Kaliforníu.

Snjallyrðið
Út til annarra landa
fer árlega fjöldi manns,
sem gerði lítið úr gróðri
síns gamla heimalands.

En svo koma fley úr förum
með ferðamennina heim,
og ættjörðin speglast aftur
í augunum á þeim.

Því lengri för sem er farin,
því fegra er heim að sjá,
og blómið við bæjarvegginn
er blómið sem allir þrá.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Blómið)