Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 ágúst 2005

Punktar dagsins
Hillary Rodham Clinton

Þó svo að enn séu rúm þrjú ár til næstu forsetakosninga í Bandaríkjunum eru fréttamiðlar vestanhafs þegar farnir að spá í þeim kosningum. Ekki síst er þar talað um hverjir séu möguleg forsetaefni af hálfu repúblikana og demókrata. Enginn vafi leikur á að kapphlaupið innan beggja flokka séu nær galopin og allt geti þar svosem gerst. Næstu forsetakosningar verða reyndar sögulegar, enda er ljóst að þær verða hinar fyrstu frá 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti Bandaríkjanna verða í kjöri. George W. Bush forseti, situr sitt seinna kjörtímabil og má skv. lögum ekki bjóða sig fram aftur og mun því halda heim til Texas er hann lætur af embætti þann 20. janúar 2009. Dick Cheney varaforseti, hefur lýst því yfir að hann hafi engan áhuga á forsetaframboði og ætli að sinna sínum verkefnum út kjörtímabilið og njóta að því loknu lífsins með konu sinni og fjölskyldu, fjarri Washington, eins og hann hefur orðað það sjálfur. Innan Repúblikanaflokksins má segja að umræðan um frambjóðanda flokksins árið 2008 hafi vaknað um leið og fyrir lá að Bush hefði náð endurkjöri. Við blasir að margir séu farnir að undirbúa framboð. Nægir þar að nefna George Pataki ríkisstjóra New York, Rudolph Giuliani fyrrum borgarstjóra í New York og öldungadeildarþingmennina Bill Frist, John McCain og Elizabeth Dole. Margir fleiri eru nefndir.

Nýleg skoðanakönnun meðal demókrata gefur sterklega til kynna að gefi miðaldra kona með lögheimili í borg háhýsanna, New York, formlega kost á sér sé útnefning flokksins næstum gulltryggð fyrir hana. Það er ekkert hernaðarleyndarmál að Hillary Rodham Clinton harmaði ekki ósigur John Kerry í síðustu forsetakosningum. Hún hefur um nokkurn tíma haft áhuga á embættinu. Aðeins eru fjögur og hálft ár síðan hún flutti úr Hvíta húsinu, en hún hafði fylgt eiginmanni sínum, Bill Clinton 42. forseta Bandaríkjanna, í gegnum þykkt og þunnt á átta ára forsetaferli hans. Hún hefur síðan markað sér sinn eigin stjórnmálaferil. Hún var kjörin öldungadeildarþingmaður í New York í kosningunum árið 2000 og var bæði forsetafrú og þingmaður í öldungadeildinni í 17 daga í ársbyrjun 2001. Hillary er að flestra mati manneskjan á bakvið sigur eiginmanns síns í forsetakjörinu 1992 - hefur aukinheldur lengi verið útsjónarsamur stjórnmálaplottari með mikla yfirsýn yfir pólitískt landslag og stöðumat hinnar réttu strategíu. Hún sá að forsetaframboð á árinu 2004 hefði skaðað sig, enda lofaði hún New York-búum að vinna fyrir þá í sex ár samfellt í öldungadeildinni ef þeir treystu sér fyrir þingsæti hins vinsæla Daniel Patrick Moynihan. Hún vann og það með yfirburðum, hún heillaði New York-búa þrátt fyrir að hafa haft lögheimili þar aðeins í innan við ár.

Bill Clinton og Hillary Rodham Clinton

En nú líður að lokum kjörtímabilsins og Hillary er viss vandi á höndum. Henni langar í forsetaembættið og hefur áhuga á því að komast á spjöld sögunnar sem fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna - á því leikur enginn vafi. En farartálmi er á leið hennar, þó að allar skoðanakannanir sýni að hún myndi nú vinna útnefningu flokksins í næstu kosningum með nokkuð auðveldum hætti. Hún þarf nefnilega að hljóta endurkjör í öldungadeildarþingkosningunum í New York í nóvember á næsta ári til að eiga raunhæfan séns á að starta alvöru forsetaframboði. Tap í New York myndi gera út af við ambisjónir hennar um Hvíta húsið. Um þessar mundir eru Clinton-hjónin í sumarleyfi einhversstaðar í Evrópu - öldungadeildin er í mánaðarlöngu sumarfríi sínu, venju samkvæmt. Það er alveg ljóst að þau hjón ræða fátt meira en þingframboðið á næsta ári. Það er alveg ljóst að ljón gætu orðið á veginum þótt hún hlyti endurkjör. Þær raddir verða sífellt háværari að Al Gore fyrrum varaforseti, sem beið ósigur fyrir Bush í hinum æsispennandi forsetakosningum árið 2000, sé að íhuga framboð. Svo má auðvitað ekki gleyma John Edwards sem var varaforsetaefni Kerrys í kosningabaráttunni á síðasta ári. Þeir einir gætu veitt Hillary einhverja keppni um hnossið mikla. Aðrir verða ekki bógar í það.

Í aðdraganda öldungadeildarþingkosninganna í New York hefur Hillary ekkert viljað tala um hvort hún sækist eftir kjöri til sex ára í borginni. Loforðið sem hún gaf borgarbúum er hún sóttist fyrst eftir þingsætinu nær ekki til næsta kjörtímabils. Hún talar með óljósari hættu um næsta tímabil sitt. Nýlega gaf Jeanine Pirro, klár og flott kona - lögfræðingur í New York, kost á sér sem þingkandidat repúblikana. Hún sló í gegn er hún kom með það slagorð að Hillary ætlaði að nota kjósendur í borginni sem stökkpall á æðri svið og ætlaði ekki að þjóna þeim út tímabilið. Henni tókst að fá athygli á kommentið - svo var Jay Leno, grallarinn sá, flottur þegar hann sagði með bros á vör að Hillary væri eins og allir aðkomumenn í New York að reyna að komast þaðan burt. Skiljanlegt er að Hillary vilji engu lofa nú - sé litið á skoðanakannanir sem gefa til kynna að útnefningin sé nærri pöntuð fyrir hana. Það vita enda allir sem þekkja pólitíska loftið vestanhafs að stjörnur flokksins eru Clinton-hjónin. Á flokksþinginu í fyrra, þar sem Kerry var útnefndur í heimaborginni Boston, voru þau aðalleikarar - stálu sviðsljósinu með stæl. Það er enginn vafi að rauði dregillinn verður til taks fyrir Hillary á næsta flokksþingi haldi hún þingsætinu. Hún hefur allavega stjörnuljómann sem tveim fyrri frambjóðendum flokksins hefur skort svo áþreifanlega.

Robin Cook

Robin Cook fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, verður jarðsunginn á morgun í Edinborg, borginni sem hann unni svo mjög - hinni einu sönnu höfuðborg Skotlands, en Cook var Skoti fram í fingurgóma. Hann varð bráðkvaddur í hálöndum Skotlands á fjallgöngu á laugardag. Þótti það af mörgum vera merkileg staðreynd að hann skyldi kveðja þar, í miðpunkti náttúrufegurðar Skotlands. Hefur nú komið í ljós að hann lést af hjartasjúkdómi, en um tíma var jafnvel talið að hann hefði látist af fallinu í hlíðum fjallsins við áfallið. Sl. laugardag skrifaði ég um Cook og fór yfir feril hans og ævi. Mörgum fannst það merkilegt hef ég heyrt, vitandi af því að við vorum ósammála um margt í pólitíkinni og í vissum lykilmálum undanfarin ár. Þó að ég hafi oft verið ósammála Cook í stjórnmálum dáðist ég í senn bæði af karakternum og ræðusnilld hans. Hún var vissulega rómuð, enginn vafi leikur á því að Cook var einn mesti ræðusnillingur sinnar kynslóðar í breskum stjórnmálum. Mun Gordon Brown fjármálaráðherra, flytja ræðu við útför Cook. Þykir það merkilegt í ljósi deilna þeirra á árum áður, en báðir eru þeir Skotar og þekktir fyrir meting sinn á bakvið tjöldin en þeir unnu þó til fjölda ára saman í pólitík. Höfðu þeir tekið upp nánara samstarf í seinni tíð.

Athygli hefur svo vakið að Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, hefur ákveðið að vera ekki viðstaddur jarðarför Cook á morgun. Fór hann í sumarfrí á föstudag, en sendi frá sér yfirlýsingu vegna andláts Cook á laugardeginum, eftir að tilkynnt var um fráfall hans opinberlega. Ekki hefur farið leynt að þeir deildu harkalega fyrir og eftir upphaf Íraksstríðsins. Lét Cook sannfæringuna ráða og sagði sig úr ríkisstjórninni vegna þátttöku Breta í stríðsátökunum. Eftir það ríkti kalt stríð milli þeirra innan flokksins. Athygli vakti að Blair sagði í yfirlýsingu sinni á laugardag að Cook hefði verið framúrskarandi stjórnmálamaður með mikla hæfileika. Mörgum kom yfirlýsingin spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að Blair setti hann af sem utanríkisráðherra og lækkaði hann í tign og hafði ráðist harkalega að honum eftir afsögnina fyrir tveim árum. Það eru vissulega stórtíðindi að Blair haldi áfram fríinu eins og ekkert hafi gerst og fari ekki einu sinni dagpart til Skotlands og fylgi Cook hinsta spölinn, einum af lykilmönnum hans í kosningasigrinum fyrir áratug. John McCririck, vinur Cooks, sagði reyndar með hvössum hætti að það væri merkilegt að Blair gæti ekki farið til Edinborgar, en að Margaret Thatcher hefði fylgt Sir Edward Heath til grafar í síðasta mánuði, þó þau hefðu verið svarnir óvinir til fjölda ára. Já það er greinilega ólga með ákvörðun Blairs.

Barbara Bel Geddes (1922-2005) í hlutverki Miss Ellie

Bandaríska leikkonan Barbara Bel Geddes lést á mánudag úr krabbameini, 82 ára að aldri. Barbara var mikilsvirt leikkona og átti að baki langan feril, einkum á sviði og í kvikmyndum. Þekktust varð Barbara þó án nokkurs vafa fyrir algjörlega ógleymanlega túlkun sína á ættmóðurinni Ellie Ewing í sjónvarpsþáttaflokknum Dallas á níunda áratug síðustu aldar. Barbara fæddist í New York, 31. október 1922. Hún varð heimsfræg fyrir stórfenglega túlkun sína á Katrin Hudson í kvikmyndinni I Remember Mama árið 1948. Fyrir leik sinn í myndinni hlaut hún tilnefningu til óskarsverðlauna. Ennfremur er hún eftirminnileg kvikmyndaaðdáendum fyrir leik sinn í myndunum Panic in the Streets og Caught. Barbara öðlaðist frægð fyrir að túlka fyrst allra hlutverk Maggie í Cat on a Hot Tin Roof, er leikritið var fært upp í fyrsta skipti á Broadway árið 1956, og fór ennfremur á kostum í sviðsútgáfu leikritsins Mary, Mary árið 1961. Árið 1958 sló hún aftur í gegn, þá fyrir túlkun sína á Midge Wood í kvikmyndinni Vertigo, stórfenglegu meistaraverki leikstjórans Sir Alfred Hitchcock. Barbara hvarf að mestu úr sviðsljósinu í upphafi sjöunda áratugarins, til að annast eiginmann sinn Windsor Lewis, er hann veiktist af krabbameini. Skömmu fyrir lát hans, árið 1972, greindist hún með brjóstakrabbamein, sem hún sigraðist á.

Barböru bauðst árið 1978 hlutverk ættmóðurinnar Ellie Ewing í þættinum Dallas - sem varð hennar þekktasta hlutverk á ferlinum. Hún öðlaðist sess í huga og hjarta fólks um allan heim fyrir túlkun sína á þessari einbeittu og viljasterku konu sem var höfðingi öflugs fjölskylduveldis í olíubransanum og hélt ættinni saman í gegnum áföll og innri átök. Hún var í senn sál og hjarta þáttarins. Ógleymanleg er túlkun hennar á raunum Miss Ellie er hún greinist með krabbamein og missir sviplega eiginmanninn Jock. Hún öðlaðist sess í sögu leikinna þátta í sjónvarpi er hún hlaut bæði Emmy og Golden Globe-verðlaunin fyrir túlkun sína á Ellie árið 1981, fyrir túlkun í fyrrnefndum atriðum. Er hún eina sápuóperuleikkonan sem hefur hlotið bæði verðlaunin. Hún þurfti að taka frí frá hlutverkinu vegna hjartaáfalls árið 1984, en sneri aftur eftir að hafa náð sér af veikindunum. Barbara lék Ellie í 12 ár og hætti í þáttunum árið 1990, ári áður en þeir hættu, og hvarf með því úr sviðsljósi leiklistarinnar. Í mörg ár var Dallas stór hluti af tilveru Íslendinga - hver man ekki eftir miðvikudagskvöldunum í eldgamla daga yfir þessum þætti? Þetta er einfaldlega bara þáttur sem maður ólst upp með - þeir voru aðalþátturinn í fjöldamörg ár. Allir sem muna eftir gullaldardögum Dallas minnast Barböru Bel Geddes með hlýjum hug er hún nú kveður.

Er áhættan þess virði?Er áhættan þess virði?
Er áhættan þess virði?Er áhættan þess virði?

Eins og vel kom fram í pistli mínum um umferðarmál í júnímánuði hef ég ekki verið allskostar ánægður með nýlegustu auglýsingaherferðir Umferðarstofu. Þær voru of aggressívar og ónærgætnar og misstu marks. Hef ég farið yfir þetta áður og bendi þeim á að lesa pistilinn sem ekki vita hvað ég meina og hver gagnrýnin var - það kemur þar allt mjög vel fram. Nú sé ég hinsvegar ástæðu til að tjá mig um nýjustu auglýsingaherfð Umferðarstofu, sem hófst fyrir tæpum mánuði. Þar er kominn sá tónn sem ég vil að verði ráðandi af þeirra hálfu. Það er nærgætin framsetning en samt sem áður ákveðin og vel fókuseruð á það sem barist er fyrir - umferðaröryggi og því að reyna að fækka umferðarslysum. Það er best gert með einbeittri en mannlegri framsetningu. Það tekst þeim með miklum glæsibrag í þessari auglýsingaherferð. Hef ég séð allar auglýsingarnar inni á vef Umferðarstofu og hvet aðra til að líta á þær. Ég get ekki annað en hrósað þeim sem unnu þessar auglýsingar fyrir að hafa haft þær með þeim brag sem þær eiga að vera. Þetta er að mínu mati gott dæmi um auglýsingaherferð sem heppnast - látlaus en þó mjög áhrifamikil og kemur gríðarlega mikilvægum boðskap til skila.

Áhættan er aldrei þess virði! - allar auglýsingarnar

Akureyri

Óhætt er að segja að flóran af eyfirskum fréttavefum hér í firðinum sé orðin mjög blómleg í þessum mánuði. Eins og fram hefur komið hér hjá mér opnaði fyrir viku fréttavefurinn Dagur, sem fjallar um fréttir á svæðinu og færir okkur ferska umfjöllun um málin út með firði og býður upp á góð skrif um málin. Í gær opnaði svo nýr og glæsilegur fréttavefur sem fókuserar að mestu á Akureyri og færir okkur fréttir hér úr bænum og heldur uppi góðri þjóðmálaumræðu af svæðinu og tekur einnig fyrir marga mikilvæga þætti. Þessi vefur lofar mjög góðu. Ritstjóri hans er gamalkunnur Akureyringur, Helgi Már Barðason, og verður ánægjulegt að fylgjast með þessum vef vaxa og dafna og fjalla um bæjarmálin, vonandi um ókomin ár. Óska eigendum og starfsmönnum vefsins til hamingju með framtakið - það verður gaman að fylgjast með honum og Degi á næstunni.

Saga dagsins
1794 Sveinn Pálsson, 32 ára læknir, gekk á Öræfajökul - það var í fyrsta skiptið sem það var gert.
1938 Baden-Powell, upphafsmaður skátahreyfingarinnar, kom til Reykjavíkur á heimsfund skáta.
1956 Bandaríski málarinn Jackson Pollock ferst í bílslysi, 44 ára að aldri - var einn af umtöluðustu listmálurum í listasögu Bandaríkjanna. Fjallað var um æviferil hans í kvikmyndinni Pollock árið 2000.
1973 Austurstræti í Reykjavík var gert að göngugötu - gatan var svo opnuð aftur að hluta árið 1991.
1991 Brasilíski knattspyrnusnillingurinn Pelé kom til landsins og hitti unga íslenska fótboltamenn.

Snjallyrðið
Snert hörpu mína himinborna dís
svo hlusti englar Guðs í paradís.
Við götu mína fann ég fjalarstúf
og festi á hann streng og rauðan skúf.

Úr furutré sem fann ég út við sjó
ég fugla skar og líka úr smiðjumó.
Í huganum til himins oft ég svíf
og hlýt að geta sungið í þá líf.

Ég heyri í fjarska villtan vængjaþyt
um varpann leikur draumsins perluglit.
Snert hörpu mína himinborna dís
og hlustið englar Guðs í paradís.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Kvæðið um fuglana)