Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 ágúst 2005

Punktar dagsins
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Í morgun svaraði Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, spurningum Oktavíu Jóhannesdóttur og Valgerðar Hjördísar Bjarnadóttur leiðtoga Samfylkingar og VG í bæjarstjórn Akureyrar, sem þær lögðu fram vegna lífskjarakönnunar Gallups fyrr á árinu. Lagði Kristján Þór fram svar sitt á fundi bæjarráðs í Ráðhúsinu við Geislagötu í morgun og fór þar fram umræða um svörin. Í ítarlegu svari bæjarstjóra við spurningum Oktavíu og Valgerðar er svarað þeim sex spurningum sem þær lögðu fyrir hann. Í lok svarsins kemur viðauki við svörin frá bæjarstjóra. Í svarinu kemur fram að það hafi verið ákvörðun IMG Gallup að spyrja eftir viðhorfum þeirra sem lentu í úrtakinu til framboðanna í bæjarstjórn Akureyrar. Nú hefur IMG Gallup svo sent frá sér yfirlýsingu þar sem tekið er undir svar bæjarstjórans á Akureyri og sagt að tillaga að því að nota fylgi við stjórnmálaflokka hér í bæ sem greiningarbreytu hafi komið frá ráðgjöfum IMG Gallup. Við undirbúning þessarar könnunar mun, að sögn IMG Gallup, hafa verið höfð til hliðsjónar spurningalisti sem Gallup í Noregi mun hafa notað við bæjarfélagsrannsóknir þarlendis, sem gerðar hafa verið frá 1992 í rúmlega 70 sveitarfélögum.

Í lok svarsins segir bæjarstjóri svo: "Rétt er að undirstrika að allt frá því að Akureyrarbær lét framkvæma fyrstu lífskjarakönnunina hefur verið mikil samstaða um nauðsyn og gagnsemi þessa verkefnis meðal bæjarfulltrúa og þeirra starfsmanna sem um þessi mál fjalla. Niðurstöður þeirra lífskjarakannana sem Akureyrarbær gerði á árunum 2000 og 2002 hafa reynst afar mikilvægar sem upplýsingagjafar og stjórntæki fyrir bæjarstjórn, nefndir, starfsmenn og stofnanir bæjarfélagsins. Þær hafa verið nýttar með jákvæðum hætti til að bæta þjónustu bæjarins og auka lífsgæði bæjarbúa. Umræða undangenginna vikna hefur hins vegar að mínu mati skaðað þennan kjarna málsins og gefið afar villandi mynd af markmiðum bæjarfélagsins með gerð slíkrar rannsóknar á búsetuskilyrðum á Akureyri. Þetta verkefni hefur verið gert tortryggilegt á allra handa máta með makalausri umræðu um að fjármunir skattborgaranna væru nýttir í þröngum pólitískum tilgangi. Ég tel þetta verkefni til muna mikilvægara fyrir bæjarfélagið en svo að það eigi að týnast í slíkri pólitískri sýndarmennsku. Í því ljósi og einnig þegar þess er gætt í hvaða farveg umræðan fór er eflaust farsælla að láta ógert að nota fylgi við stjórnmálaflokka sem bakgrunnsbreytu við úrvinnslu lífkjararrannsókna fyrir Akureyrarbæ."

Lífskjararannsóknin mun liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar við Geislagötu og á Amtsbókasafninu - bæjarbúar geta farið þangað og séð niðurstöður hennar. Merkilegt var svo að heyra fullyrðingu Oktavíu Jóhannesdóttur í svæðisfréttum í dag þar sem hún segir að það hafi komið úr innsta hring Sjálfstæðisflokksins að upplýsingunum hafi verið haldið leyndum. Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir hjá þessum bæjarfulltrúa. Þó að Oktavía hafi verið í meirihlutasamstarfi við Kristján Þór og okkur sjálfstæðismenn á síðasta kjörtímabili hef ég enga trú á að hún hafi sambönd inn í innsta hring Sjálfstæðisflokksins og viti hvað gerist á fundum okkar. Það verður bara alveg að segjast eins og er að ég tel Oktavíu ekki vera marktæka að segja frá þeim fundum. Þetta er einfaldlega bara einn liður í pólitískri baráttu hennar þessa dagana. Reyndar væri það heiðarlegast fyrir þennan bæjarfulltrúa að tala hreint út og segja hvaðan hún hafi þessar upplýsingar. Ég veit að Oktavía er komin í harðan slag á heimavelli sínum við samherja sína, en hún þarf ekki að blanda okkur sjálfstæðismönnum í hann!

Reyðarfjörður

Það hefur varla farið framhjá neinum að undanfarnar vikur hafa umhverfissinnaðir atvinnumótmælendur verið við Kárahnjúka og mótmælt þar væntanlegri virkjun og álveri á Austurlandi. Framan af voru þessi mótmæli mjög friðsamleg og gengu eðlilega fyrir sig. Svo fór að mótmælendurnir beittu afli gegn framkvæmdunum: hlekkjuðu sig við vinnuvélar, máluðu ókvæðisorð á vélar, skilti og á ýmsa hluti á svæðinu og voru einnig með óásættanlega framkomu við starfsfólk á svæðinu. Lögreglan greip til sinna ráða og þeim var úthýst þaðan eftir að Prestssetrarsjóður felldi úr gildi leyfi fyrir tjaldbúðunum. Með því fór fólkið - en ekki langt, það hélt í staðinn í Skriðdal með tjaldbúðirnar. Það hefur greinilega ekki farið þeim að fara úr sviðsljósinu og þau hafa þurft að minna á sig enn á ný. Í dag skriðu þrettán einstaklingar (meðal þeirra einn íslendingur), sem dvalist hafa í tjaldbúðunum í Skriðdal, undir girðingu sem er í kringum vinnusvæði álvers Alcoa í Reyðarfirði og komust óséðir að þremur 40 metra háum byggingakrönum. Þrír klifruðu upp í kranana og á einn þeirra var festur borði með áletruninni, "Alcoa græðir - Íslandi blæðir".

Eins og við er að búast greip lögregla til sinna ráða og handtók mótmælendurna. Tók reyndar nokkurn tíma að ná þeim mótmælendum sem voru í krananum en þeir síðustu komu niður um fimmleytið, eftir að lögregla hafði sótt þá upp með valdi. Það er mjög hvimleitt að fylgjast með þessum mótmælum þessara bresku atvinnumótmælenda. Það er mjög mikilvægt að lögreglan taki til sinna ráða. Það er algjörlega ótækt að horfa lengur á stöðu mála með þessum hætti og þau vinnubrögð sem atvinnumótmælendurnir beita fyrir austan. Nú verður bara lögreglan að taka á þessu með þeim eina hætti sem fær er. Það getur engan veginn gengið að atvinnumótmælendur sem flakka um heiminn og pikka sér upp fæting hvar sem þeir stinga niður fæti reyni að eyðileggja þá jákvæðu uppbyggingu sem á sér stað fyrir austan. Það á ekki að vera líðandi að eignir fyrirtækja eða mannvirki á Austfjörðum verði fyrir skemmdum, ráðist sé að þeim sem þarna vinna og ráðist að lífsafkomu verktaka sem aðeins eru að vinna sína vinnu. Um er að ræða löglegar framkvæmdir fyrirtækjanna á staðnum og taka verður á því með hörku ef mótmælendurnir fara yfir strikið.

Mary Tyler Moore og Timothy Hutton í Ordinary People

Ein af mínum uppáhaldsmyndum er óskarsverðlaunamyndin Ordinary People. Þar er fjallað með snilldarlegum hætti frá því uppgjöri sem fylgir snögglegu andláti náins ættingja eða ástvinar og ekki síður því umróti sem á sér stað í innri sálarrótum við það uppgjör. Sögð er saga Conrad Jarrett sem lendir í slysi ásamt bróður sínum, Jordan Jarrett, á siglingu á báti í miklu óveðri. Báturinn ferst og Jordan drukknar í slysinu. Eftir situr Conrad með sálarflækjurnar sem allir lenda óhjákvæmilega í, í sömu aðstæðum: afhverju dó hann en ekki ég - hefði ég getað gert eitthvað til að bjarga viðkomandi - og síðast en ekki síst: heldur lífið áfram eftir svona áfall? Conrad reynir eftir slysið að svipta sig lífi, enda hefur hann ekki getað fengið sérfræðiaðstoð við að vinna úr vandanum. Foreldrar hans neita að horfast í augu við vandann sem Conrad á við að glíma. Móðirin, sem dýrkaði Jordan og hefur aldrei átt skap saman við Conrad, kennir honum um dauða hans og milli þeirra ríkir kalt stríð innan veggja heimilisins en faðirinn horfir þögull á, vanur að láta eiginkonuna stjórna heimilinu og sjálfum sér í leiðinni. Að því kemur að Conrad lendir í annarri sálarkreppu og fer það svo að hann hlýtur í gegnum skólann meðferð hjá sálfræðingi til að hjálpa honum að vinna úr vanda hans.

Sálfræðingurinn Tyrone C. Berger sér fljótt að mikill vandi steðjar að Conrad. Hann er í sjálfsmorðshugleiðingum, getur ekki unnið úr innri sálarflækjum og á í stórum vanda með innri fjölskylduaðstæður sínar. Hann sér að kaldur múr er milli hans og móður hans, sem var vondur fyrir en versnaði stórum með láti eldri bróðurins. Hann leggur því til atlögu við vandann og reynir að liðsinna Conrad í baráttu hans við að komast í gegnum áfallið. Þessi mynd er í einu orði sagt stórfengleg. Hún tekur á málefni sem oft hefur verið feimnismál að ræða en margir lenda í að lokum: uppgjöri við dauðsfall. Það getur farið fram með ýmsum hætti. Timothy Hutton á sannkallaðan stjörnuleik í hlutverki Conrads og nær með snilldarbrag að túlka sálarflækjur hans og vandræði við að vinna úr þessum mikla vanda og áfalli sem fylgir dauðsfalli. Hann hlaut óskarsverðlaunin fyrir leik sinn - myndin hlaut fern verðlaun, t.d. sem besta kvikmynd ársins 1980. Einnig fara Mary Tyler Moore og Donald Sutherland á kostum í hlutverkum foreldranna. Besta atriði myndarinnar er þegar að Conrad og móðir hans ná fyrst að tala heilt út um vandann á milli þeirra - svipmynd úr því sést að ofan. Vönduð mynd um lífsins flækjur sem vert er að mæla með. Það er mikil lífslexía að sjá þessa mynd.

Eiríkur S. Jóhannsson

Í dag var kynnt nýtt skipulag Og fjarskipta sem taka mun gildi þann 1. október nk. Verður nýtt nafn móðurfélagsins Dagsbrún hf. Vekur nafnið athygli, enda var í tæpa öld starfrækt verkalýðsfélag í Reykjavík með þessu táknræna nafni. Mun Eiríkur S. Jóhannsson verða forstjóri Dagsbrúnar en Árni Pétur Jónsson verður forstjóri Og Vodafone í stað Eiríks. Gunnar Smári Egilsson mun halda áfram sem forstjóri 365 miðla, dótturfélags Dagsbrúnar. Þótti mér þetta nafnaval skondið og verð ég fúslega að viðurkenna að ég gat ekki varist hlátri þegar ég heyrði að Eiríkur (sem er fyrrum forstjóri Kaldbaks og kaupfélagsstjóri KEA) væri orðinn höfðingi í Dagsbrún (fylgir þar væntanlega í kjölfar ekki ómerkari manna en Eðvarðs Sig og Guðmundar jaka). En að öllu gríni slepptu er rétt að spyrja hvort allir starfsmenn Baugsmiðlanna og Og Vodafone verði á Dagsbrúnartöxtum. :)

Handverkssýning 2004

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, mun setja í kvöld handverkssýninguna á Hrafnagili. Hún verður haldin um helgina og lýkur að kvöldi sunnudags. Sýningin hefur sífellt þróast í gegnum árin og Eyjafjarðarsveit lítur nú svo á að tilgangur með Handverkshátíð sé ekki einungis að endurvekja áhuga þeirra ríku handverkshefðar sem áður var til staðar heldur einnig að skapa handverksfólki vettvang til að sýna og falbjóða vöru sína sem og að standa að ýmiss konar fræðslu tengdri handverki. Þema sýningarinnar er að þessu sinni "hafið" og því auðvitað við hæfi að sjávarútvegsráðherrann setji sýninguna. Umgjörð og dagskrá sýningarinnar ber þess keim að hafið er þema hennar. Hef ég jafnan farið á handverkssýninguna - mun ég að sjálfsögðu fara um helgina og kynna mér það sem þar er boðið upp á. Þessi sýning er ómissandi þáttur í tilveru okkar hér í firðinum.

Saga dagsins
1796 Hannes Finnsson biskup, lést, 57 ára að aldri - Hannes var Skálholtsbiskup í 19 ár, frá 1777.
1875 Danski rithöfundurinn og skáldið Hans Christian Anderson lést, sjötugur að aldri. Anderson var einn þekktasti rithöfundur Norðurlanda og samdi fjölda ógleymanlegra bóka og fjöldamörg góð ljóð.
1900 Elizabeth Bowes-Lyon fæddist - hún giftist Albert Bretaprins árið 1923. Saman eignuðust þau tvær dætur: Elizabeth og Margaret. Albert varð konungur Englands árið 1936 og tók hann sér titilinn George VI. Hann var konungur í 16 ár, eða allt til dauðadags árið 1952. Elísabet, dóttir þeirra, tók við krúnunni. Frá því var drottningin titluð drottningamóðir af hálfu krúnunnar. Á þeim fimm áratugum sem hún lifði eiginmann sinn var Elísabet einn öflugasti fulltrúi krúnunnar og var jafnframt vinsælust af meðlimum konungsfjölskyldunnar. Hún sinnti mörgum verkefnum þá rúmu átta áratugi sem hún var fulltrúi fjölskyldunnar og var alla tíð rómuð fyrir tignarlegan glæsileika. Hún lést í Royal Lodge í Windsor, 30. mars 2002, 101 árs. Elísabet var jarðsett við hlið eiginmanns síns í St. Georgs kapellu.
1907 Ungmennafélag Íslands var stofnað - fyrsti formaður UMFÍ var Jóhannes Jósefsson glímukappi.
1982 Enska knattspyrnuliðið Manchester United lék við Val í vináttuleik á Laugardalsvelli í Reykjavík - United vann leikinn 5:1. Daginn eftir vann United svo KA í leik hér á íþróttavellinum á Akureyri, 7:1.

Snjallyrðið
Who knows how long I've loved you,
You know I love you still,
Will I wait a lonely lifetime,
If you want me to I will.

For if I ever saw you,
I didn't catch your name,
But it never really mattered,
I will always feel the same.

Love you forever and forever,
Love you with all my heart;
Loved you whenever we were together,
Love you when we're apart.

And when at last I find you,
Your song will fill the air,
Sing it loud so I can hear you,
Make it easy to be near you,
For the things you do endear you to me,
you know I will.
I will.
John Lennon tónlistarmaður (1940-1980) (I Will)