Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 ágúst 2005

Hanna Stefánsdóttir
85 ára


Hanna Stefánsdóttir

Í dag er amma mín, Hanna Stefánsdóttir, 85 ára gömul. Ennfremur er 85 ára í dag tvíburabróðir hennar, Kristján Stefánsson. Foreldrar þeirra systkina voru Stefán Jónasson skipstjóri og útgerðarmaður (13. september 1881 - 22. janúar 1982) og Gíslína Friðriksdóttir húsmóðir (29. júlí 1881 - 8. janúar 1980). Systkini ömmu og Kidda voru Hugrún Stefánsdóttir (10. júní 1917 - 7. apríl 2005) og Jónas Stefánsson (3. janúar 1919 - 8. apríl 1937). Hanna amma bjó allt frá fæðingu að Strandgötu 43 en Stefán langafi og Gíslína langamma stofnuðu heimili þar og byggðu húsið á öðrum áratug 20. aldarinnar. Langafi rak til fjölda ára umfangsmikla útgerð á Akureyri og var áberandi í bænum. Vann amma ýmis verslunar- og þjónustustörf á Akureyri á unglingsárum og fram á fullorðinsár. Jafnframt var hún til skamms tíma ráðskona að Laugum í Reykjadal. 2. ágúst 1944 giftist amma, Guðmundi Sigurbirni Guðmundssyni frá Siglufirði (1. maí 1920). Eignuðust þau þrjá syni: faðir minn, Stefán Jónas, er þeirra elstur en hann fæddist árið 1945, Guðmundur Ómar fæddist árið 1946, og Haraldur Huginn fæddist árið 1949. Amma og afi skildu árið 1960.

Hanna amma giftist Antoni Kristjánssyni (3. júní 1911 - 25. febrúar 1989) rafvirkjameistara og kaupmanni á Akureyri, 21. mars 1967. Anton afi stofnaði nokkru áður en hann og amma giftust verslunina Véla- og raftækjasalan. Til fjölda ára ráku amma og afi verslunina að jarðhæð að Brekkugötu 9, en bjuggu á annarri hæð hússins. Í mínum huga koma upp margar minningar er hugsað er aftur til áranna að Brekkugötu 9. Verslunin og verkefnin sem tengdust henni voru líf og yndi þeirra til fjölda ára, en þau höfðu ennfremur gaman af að ferðast og ófá voru þau löndin sem þau fóru saman til. Jafnan var gaman að heyra svo ferðasögurnar er heim var komið og alltaf voru gjafirnar höfðinglegar og glæsilegar sem voru færðar okkur krökkunum við heimkomuna. Alla tíð var Anton eins og minn eigin afi, þó hann væri það auðvitað teknískt ekki. Hann varð fósturfaðir pabba og bræðranna og varð um leið afi okkar barna þeirra. Kærleikinn og ástúðin sem kom frá honum var einstakur og honum gleymi ég aldrei. Amma og afi hættu verslunarrekstrinum árið 1983 og hófu að njóta lífsins saman eftir annir við rekstur verslunarinnar.

Síðsumars 1988 ákváðu amma og Anton afi að selja Brekkugötu 9 og ákváðu að kaupa íbúð í fjölbýlishúsi fyrir aldraða að Víðilundi 24 sem þá var í byggingu. Gleymi ég aldrei því er við pabbi fórum saman haustið 1988 ásamt Antoni afa að skoða íbúðina sem þau höfðu keypt í blokkinni, sem þá var nýsteypt og framkvæmdir á fullu. Það var stoltur maður sem sýndi okkur íbúðina, stefnan var sett á gleðiríka tilveru í ellinni í nýjum vistarverum. Því miður fór það svo um veturinn að hann veiktist snögglega og lést hann eftir erfitt veikindastríð undir lok febrúar 1989. Í maí 1989 kom að því að Hanna amma fluttist ein í íbúðina í Víðilundinum. Alla tíð hefur amma verið öflug í félagsstarfi, hefur unnið allt frá bernskuárum að trúarlegum málefnum og verið virk í trúarstarfi, bæði á vegum KFUM og K og þjóðkirkjunnar. Þessu sinnti hún af enn meiri krafti eftir að hún hætti að vinna og flutti uppeftir í Víðilund, þar sem er tómstundamiðstöð fyrir eldri borgara. Ennfremur gekk hún við stofnun árið 1988 í Kór aldraðra og hefur sungið þar alla tíð síðan og var um nokkurn tíma formaður kórsins.

Er Hanna amma flutti í Víðilund naut hún félagsskapar af mörgum vinum sínum þar og ennfremur fluttust vorið 1989 í húsið systir hennar, Hugrún, og eiginmaður hennar Benedikt Benediktsson málarameistari, en fram að því höfðu þau búið í æskuheimili ömmu að Strandgötu 43. Eftir að Benni lést árið 1993 má segja að amma og Huja frænka hafi í raun haldið sama heimilið, þær elduðu saman og sinntu tómstundastarfi saman. Alltaf var ánægjulegt að fara í heimsókn til þeirra systra. Huja, amma og Kiddi frændi voru alla tíð mjög náin og fylgdust saman að í gegnum lífið. Þau bönd sem milli þeirra voru rofnuðu aldrei og hafa haldist í gegnum þykkt og þunnt. Huja frænka bjó í Víðilundinum meðan heilsan leyfði, en þurfti undir lokin að fara á elliheimili, þar sem hún lést vorið 2005. Er Huja frænka seldi íbúð sína í Víðilundi fluttust þangað Kiddi frændi og eiginkona hans, Kristín Jensdóttir. Stína lést vorið 2004. Amma og Kiddi frændi búa því nú bæði í blokkinni í Víðilundi. Nú á afmælinu er Kiddi frændi staddur hjá dóttur sinni Gullý og fjölskyldu hennar á Spáni.

Alla mína ævi hefur Hanna amma skipt mig miklu máli. Ástúð, umhyggja, trygglyndi og kærleiki verður aldrei metinn til fjár. Fjölskyldubönd skipta alltaf máli að mínu mati. Þeir sem næst manni standa eiga að njóta virðingar og ástúðar fyrir jákvætt framlag þess til ævi manns, bæði í gleði og sorg. Þau bönd eru ómetanleg. Það sem mest er um vert er hversu heilsuhraust amma og Kiddi eru miðað við aldur. Til marks um þetta er að enn aka Kiddi og amma bílum sínum. Amma fer allra sinna ferða sjálf, verslar og sinnir sínum verkum út um bæinn. Dag hvern sinnir hún sínu félagsstarfi og hefur t.d. í hyggju að halda í utanlandsferð með vinkonum sínum til Spánar í haust. Ekki hafa þau systkin langt að sækja góða heilsu. Langamma og langafi fóru ekki á elliheimili fyrr en þau voru komin á tíræðisaldurinn og náði langafi að verða tíræður og var um tíma elsti íbúi Akureyrarbæjar. Við þessi tímamót vil ég óska ömmu og Kidda innilega til hamingju með afmælið.


Velheppnuð fjölskylduhátíð á Akureyri

Akureyri

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu var haldin hér á Akureyri um verslunarmannahelgina. Hefur hátíðin farið mjög vel fram - fólk hefur streymt til bæjarins og fólk á öllum aldri skemmti sér vel saman á hinum ýmsu viðburðum um allan bæ. Talið er að rúm 12.000 manns hafi komið til bæjarins um helgina, er allt er talið saman. Mjög gott veður hefur verið hér um helgina. Er heldur annar bragur á þessari hátíð nú en fyrir ári síðan. Nú hefur verið tekið á helsta ágalla hátíðarinnar, tjaldsvæðamálunum við Þórunnarstræti. Það var heldur hvimleitt fyrir okkur Akureyringa að horfa upp á það seinustu ár að fyrsta frétt í fjölmiðlum um Akureyri þegar fjölskylduhátíðin bar á góma skyldi vera drasl, almenn óregla og óþrif á tjaldsvæðinu hér í Þórunnarstrætinu. Fór þetta yfir öll eðlileg mörk á síðasta ári og bæjarbúum var nóg boðið. Helst þeim sem bjó í Norðurbyggð og hér í Þórunnarstrætinu. Taka varð á stöðu mála.

Það var gert í sumarbyrjun með því að settar voru reglur um svæðið og það var loks girt af. Með því var náð tökum á vandanum og hægt að laga þennan mikla og slæma ágalla á annars góðri hátíð. Það er auðvitað alltaf svo þar sem margir koma saman til að skemmta sér að áfengi er haft um hönd og fólk skvettir í sig. Það er hluti skemmtunar að fólk drekki og eftir sé rusl. En það sem gerðist á tjaldsvæðinu hér við Þórunnarstræti var svo yfirgengilega mikið stjórnleysi, óregla og óhirða að allir fengu nóg af. En nú þegar hátíðinni er lokið þetta árið blasir við allt annað ástand. Tekið hefur verið á vandanum og eftir stendur mjög vel heppnuð fjölskylduhátíð sem stendur undir nafni. Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti var enda nú eingöngu opið fjölskyldufólki með fellihýsi, hjólhýsi og tjaldvagna um verslunarmannahelgina. Samhliða þessu var svo gæsla efld og aðgengi breytt.

Akureyri

Útihátíð hér um verslunarmannahelgi er hið besta mál. Það var hinsvegar ólíðandi að meginfrétt helgarinnar æ ofan í æ hafi verið óregla á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti og ómenningin sem þar hefur verið. En þetta er nú að baki, þökk sé breyttum vinnubrögðum hvað varðar tjaldsvæðið hér í hjarta bæjarins. Fyrr á þessu ári stigu ungmenni bæjarins fram og réttu ásamt öðrum bæjarbúum upp rauða spjaldið. Því var beint gegn fíkniefnaneyslu og ómenningarbrag sem sett hafði svip sinn á bæinn. Það framtak unga fólksins var lofsvert og hefur borið árangur. Íbúar bæjarins höfðu fengið nóg af stöðunni. Íbúar vildu ekki að fjölskyldubærinn Akureyri yrði vettvangur ólifnaðar og atburða af því tagi sem fylgdi áður en ungmennin gripu til sinna ráða. Akureyri á að vera þekkt fyrir að vera fjölskylduvænt sveitarfélag: fjölskyldu- og skólabær. Það er sú stefna sem við höfum markað og við getum því ekki setið þegjandi hjá og horft upp á þessa þróun að misyndismenn vegi að rótum bæjarins og okkar mannlífsbrag. Því var framtak unga fólksins mjög mikilvægt.

Ég var hér heima á Akureyri alla verslunarmannahelgina. Fór ég alla dagana niður í miðbæ, sleikti sólina, hitti fólk og átti mjög notalega stund. Það var mikill mannfjöldi í bænum og fór allt vel fram, svo ég tók eftir. Hef ég ekki alltaf verið heima um verslunarmannahelgar en þetta er annað árið í röð sem ég er staddur hér heima og skemmti mér, bæði að deginum og kvöldinu hér í bænum. Munurinn var mikill á þessum tveim skiptum. Nú fór allt vel fram og ágallarnir voru að baki. Þá, eins og í fyrra, var góð stemmning í bænum og gott veður. Því þótti okkur auðvitað leitt að sjá neikvæða punktinn fremst í fréttum eftir helgina. En nú er það að baki og hátíðin gekk vel að þessu sinni. Ástæða er til að óska forsvarsmönnum "Einnar með öllu" til hamingju með góða og velheppnaða fjölskylduhátíð. Vonandi verður hún haldin aftur að ári – okkur öllum hér í bænum til sóma!

(Grein birt á Íslendingi mánudaginn 1. ágúst 2005)

Saga dagsins
1874 Þjóðhátíð var haldin í Reykjavík og víðar. Við guðsþjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík var í fyrsta sinn sunginn Lofsöngur, sem hefst á orðunum Ó Guðs vors lands! Ljóðið er eftir sr. Matthías Jochumsson en lagið eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Lofsöngur varð formlega þjóðsöngur árið 1918.
1897 Þjóðmenningardagur var haldinn í fyrsta skipti hátíðlegur í Reykjavík af hálfu Stúdentafélagsins.
1924 Flogið var í fyrsta skipti yfir Atlantshaf til Íslands - sænskur flugmaður, Eirik H. Nelson, flaug frá Orkneyjum til Hornafjarðar. Minnismerki um þetta sögufræga flug var vígt á Hornafirði í ágúst 1954.
1988 Kanadísk flugvél fórst í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli við Hringbraut - þrír menn létust í slysinu.
1990 Írak hertekur Kuwait - leiddi til innrásar Bandaríkjanna í landið í janúar 1991 eftir að Íraksstjórn voru settir úrslitakostir. Kuwait var frelsað á ný í febrúar 1991. Einræðisstjórn Baath-flokksins í Írak, undir forystu Saddam Hussein, var felld í apríl 2003. Saddam var loks handtekinn í desember 2003.

Snjallyrðið
Megi dagur hver fegurð þér færa,
megi forsjónin vaka yfir þér,
sérhver von er þú vonar þér veitist,
veiti unað og gleði með þér.

Megi dagur hver fegurð þér færa,
sérhver mannvera reynast þér góð,
megi velvilji þeirra og vinsemd,
verða að perlum í minningasjóð.

Og dagur hver líður það lögmálið er,
hann í vikur og mánuð og ár breytir sér,
en eitt mun ég hrópa í himininn inn,
að hver dagur þinn líði sem draumurinn þinn.
Jóhanna G. Erlingsson kennari (Megi dagur hver fegurð þér færa)