George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í Hvíta húsinu í morgun að hann hefði skipað John G. Roberts sem forseta hæstaréttar Bandaríkjanna í stað William H. Rehnquist sem lést á laugardag. Rehnquist hafði verið í hæstarétti frá árinu 1972 og verið forseti hans í 19 ár, eða frá árinu 1986. Ef Roberts verður staðfestur af þinginu verður hann 17. forseti hæstaréttar Bandaríkjanna. Fyrr í sumar skipaði Bush forseti, Roberts sem dómara við hæstarétt Bandaríkjanna í stað Söndru Day O'Connor sem setið hafði í réttinum allt frá árinu 1981. Nú hefur sú tilnefning verið dregin til baka og mun forsetinn brátt tilkynna annað dómaraefni sem kemur í stað Söndru. Með þessu er tryggt að allir níu dómarar réttarins verði við störf er hann kemur saman að loknu sumarleyfi í október. Það er auðvitað að því gefnu að öldungadeildin muni staðfesta skipan Roberts sem forseta. Sandra Day O'Connor mun gegna störfum sínum þar til eftirmaður hennar hefur tekið sæti í réttinum. Eru allar líkur á því að staðfestingarferli vegna þessara tveggja lausu sæta í réttinum fari fyrir þingið á sama tíma. Mun Roberts koma fyrir þingnefnd fyrir vikulok og svara þar spurningum um lögfræðileg álitaefni og tengd málefni. Nefndin mun í kjölfarið kjósa um tilnefninguna og fer málið svo fyrir öldungadeildina í heild sinni. Hljóti Roberts meirihluta atkvæða (fleiri en 50 atkvæði) er hann réttkjörinn til setu.
Bendir allt til þess að Roberts muni hljóta fljótvirka afgreiðslu og verði tekinn við starfinu fyrir mánaðarlok. Val forsetans á honum sem forseta réttarins kemur engum á óvart. Það var ljóst að hann hafði traust forsetans til setu í réttinum og hann var fyrsta dómaraefni hans. Enginn vafi lék á því að hann var sá sem Bush treysti best fyrir embættinu. Rætt var um það eftir lát Rehnquist að möguleiki væri á því að Bush forseti myndi skipa einn af núverandi dómurum við réttinn til forsetasetu en flestir töldu það ólíklegt, enda myndi Bush vilja skipa forseta beint til setu í réttinn fyrst tækifærið gafst við andlát William Rehnquist. Að mati sérfræðinga vestanhafs þótti ljóst að best færi á því að Roberts yrði skipaður í embættið, enda hefði hann hlotið góða kynningu frá því tilkynnt var um skipun hans í réttinn í júlí og verið kynntur ennfremur fyrir þingmönnum og þeim áhrifamönnum sem munu leiða staðfestingarferlið og sitja í öldungadeildinni sem greiða mun að lokum atkvæði um skipun hans. Telja flestir hinsvegar að nú muni Bush forseti skipa konu í stað Söndru og viðhalda með því kynjahlutfallinu sem verið hefur í réttinum, en eins og flestir vita er þar aðeins ein önnur kona fyrir - Ruth Bader Ginsburg sem skipuð var af Clinton árið 1993.
John G. Roberts er fæddur 27. janúar 1955 í Buffalo í New York-fylki. Eiginkona hans er Jane Sullivan Roberts og eiga þau tvö börn, Josephine og Jack. Roberts útskrifaðist frá Harvard árið 1979 og átti glæsilegan námsferil að baki þar. Hann var um tíma aðstoðarmaður forvera síns á forsetastóli hæstaréttar, William H. Rehnquist. Er hann enda almennt talinn lærisveinn hans. Roberts starfaði um tíma í bandaríska dómsmálaráðuneytinu og Hvíta húsinu en hefur verið dómari við áfrýjunardómstólinn í Washington frá 2003. Ferill hans er glæsilegur og hann kemur víða nærri og verður seint hægt að finna að fræðimannsferli hans og starfsferli sem dómara og lagasérfræðings. Það er hægt að slá því föstu að hann muni viðhalda þeim hægristimpli sem var á réttinum í forsetatíð Rehnquist. Búast má við einhverjum átökum í staðfestingarferlinu, en við blasir að hann muni samt sem áður hljóta afgerandi staðfestingu þingsins. Segja má að viðbrögðin við tilnefningu Roberts í forsetaembætti hæstaréttar hafi verið mjög flokkaskipt, rétt eins og var í júlí. Repúblikanar fögnuðu mjög tilnefningu hans og hrósuðu forsetanum fyrir valið. Demókratar voru sumir jákvæðir en flestir þeirra frekar neikvæðir og sögðu harðvítugt staðfestingarferli framundan. Roberts þykir vera íhaldssamur og því hætt við einhverjum átökum í staðfestingarferlinu.
Þetta hefur oft gerst en ekki alltaf tekist. Besta dæmið um misheppnaðar skipanir í réttinn var þegar að Lewis Powell tilkynnti um starfslok sín sumarið 1987. Reagan forseti tilnefndi Robert Bork til embættisins en öldungadeildin hafnaði honum, 58-42. Þá tilnefndi Reagan í staðinn Douglas H. Ginsburg en hann varð að draga sig til baka vegna orðróms um dópneyslu hans fyrr á árum. Þá var í þriðju tilraun tilnefndur Anthony Kennedy og tók hann loks við embætti, nokkru eftir formleg starfslok Powell. Hvað varðar Roberts nú má búast við mikilli hörku frá báðum hliðum ef út í átök fer. Frjálslyndir telja hann ekki viðeigandi forsetaefni, hann hafi að þeirra mati lagst gegn mál- og trúfrelsi og gæti þrengt lagaramma þess sem dómari. Þá segir hópur, sem berst fyrir frjálsum fóstureyðingum, að Roberts hafi skrifað lögfræðiálit árið 1990 þar sem færð voru rök fyrir því að hæstiréttur ætti að breyta afstöðu sinni til fóstureyðinga. Frægt er málið, Roe v. Wade árið 1973, þar sem réttur kvenna til fóstureyðinga var staðfestur. Nýir dómarar gætu snúið þeim tímamótadómi og hert lagarammann. Þó hefur Roberts ekki sagst telja rétt að gera það. En nú tekur við merkilegt ferli málsins. Staðfestingarferlið mun verða gegnumskrifuð pólitík. Alveg einfalt!
Eins og fyrr segir blasa fleiri breytingar við. Skipa þarf eftirmann Söndru Day O'Connor í réttinum, nú er Roberts hefur verið skipaður í stað Rehnquist. Er mest rætt um að í stað Söndru komi til greina þær konur sem mest voru í umræðunni í sumar er hún baðst lausnar. Þá var mikið rætt um að alríkisdómararnir Priscilla Owen, Edith Jones og Edith Clement yrðu fyrir valinu. Flestir telja að Edith Clement standi vel að vígi, en fullyrt var í júlí að Clement hefði orðið fyrir valinu, en það var svo auðvitað dregið til baka. Það blasir svo við að aldursforseti réttarins, John Paul Stevens, sem er 85 ára, hætti brátt í réttinum. Hann hefur verið dómari frá 1975 (í forsetatíð Fords). Er hann nú í raun starfandi forseti réttarins, enda sá sem lengst hefur setið. Bush forseti, skipaði fljótt nýjan forseta, enda vildi hann ekki að Stevens, sem þykir frekar liberal, stjórni ákvörðunum réttarins eða leiði vinnuferli hans. Því hefur hann nú afstýrt með skipun Roberts. Það er ljóst að með skipun John G. Roberts í forsetastól hæstaréttar Bandaríkjanna hefur Bush forseti markað sér sess í sögunni, enda er nýskipaður forseti aðeins fimmtugur og gæti setið í marga áratugi og mun hann leiða réttinn í stórum og vandasömum málum á komandi árum.
Saga dagsins
1942 Þýskar sprengjuflugvélar gerðu loftárás á Seyðisfjörð - nokkrar skemmdir urðu á húsum þar.
1972 Varðskip beitti togvíraklippum á breskan togara í fyrsta skipti - það varð mjög árangursríkt.
1979 Mountbatten lávarður, jarðsunginn í Westminster Abbey í London - lést í sprengjuárás IRA.
1987 Háskólinn á Akureyri var settur formlega í fyrsta skipti við hátíðlega athöfn í Akureyrarkirkju.
1997 Móðir Teresa handhafi friðarverðlauna Nóbels, sem eyddi ævi sinni í að sinna hinum þurfandi, einkum sjúkum og fátækum, deyr í Kalkútta á Indlandi. Móðir Teresa var 87 ára gömul er hún lést.
Snjallyrðið
Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða. -
Hin dýpsta speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,
í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Sjá dagar koma)
<< Heim