Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 september 2005

Punktar dagsins
Páll Magnússon útvarpsstjóri

Páll Magnússon tók í morgun við embætti útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins af Markúsi Erni Antonssyni. Á þessum tímamótum hjá RÚV samhliða því að Markús Örn hættir og heldur til starfa í utanríkisþjónustunni blasir nýtt starfsumhverfi í harðnandi samkeppni á fjölmiðlamarkaði við eftirmanni hans. Er ég einn þeirra sem fagna því að Páll Magnússon var skipaður í embætti útvarpsstjóra. Hann þekkir fjölmiðlalandslagið eftir áratugastörf að fréttamennsku og í kastljósi fjölmiðla. Hann var blaðamaður á Vísi 1980-1981 og fréttastjóri á Tímanum 1981-1982. Páll var fréttamaður og þingfréttamaður hjá Sjónvarpinu 1982-1985 og varafréttastjóri Sjónvarpsins 1985-1986 (var fréttastjóri um tíma). Árið 1986 var Páll ráðinn fyrsti fréttastjóri Stöðvar 2 og gegndi því starfi til ársins 1990. Páll var framkvæmdastjóri dagskrár- og framleiðslusviðs Stöðvar 2 1990-1991 og forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins 1991-1994. Hann var ritstjóri Morgunpóstsins 1994-1995, sjónvarpsstjóri Sýnar 1995-1996, fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar 1996-2000 og framkvæmdastjóri samskipta- og upplýsingasviðs Íslenskrar erfðagreiningar 2000-2004. Hann kom aftur á sinn gamla vinnustað eftir störf utan fjölmiðla árið 2004 og var á rúmu ári þar framkvæmdastjóri dagskrársviðs ÍÚ og varð svo að lokum bæði sjónvarps- og fréttastjóri Stöðvar 2 þar til í júlí 2005.

Það hefur alla tíð verið skoðun mín að útvarpsstjóri eigi að vera þaulreyndur fjölmiðlamaður. Páll hefur það sem til þarf í þetta embætti. Hann hefur unnið víða að fjölmiðlum, það sem mest er vert að hann þekkir fjölmiðlaheiminn bæði innan og utan veggja Ríkisútvarpsins í Efstaleiti og hefur því unnið á löngum ferli sínum á ólíkum fjölmiðlum. Páll verður ferskur blær breytinga inn í hið staðnaða Ríkisútvarp. Páll hefur ákveðnar skoðanir á fjölmiðlum og það hefur gustað af honum sem litríkum fjölmiðlamanni. Þannig útvarpsstjóra þurftum við að eignast við þær breytingar sem eru að eiga sér stað á fjölmiðlamarkaði. Greinilegt er að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, taldi störf Páls Magnússonar að fjölmiðlum skipta sköpum er kom að valinu á eftirmanni Markúsar Arnar. Páll Magnússon hefur verið fréttastjórnandi, ennfremur rekstrarlegur stjórnandi fyrirtækis sem forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins og sjónvarpsstjóri Stöðvar 2. Jafnframt hefur hann unnið á fréttastofu Ríkissjónvarpsins og var um tíma varafréttastjóri þar. Þessi reynsla verður honum öflugt veganesti á þeirri vegferð sem framundan er. Líst mér vel á hugmyndir hans og taldi hann besta kostinn í þessa stöðu. Sannfærðist ég enda um það að hann væri kominn í starfið til að hafa áhrif til betri vegar og færa stofnunina áfram í átt til nauðsynlegra breytinga.

Þetta er reyndar í síðasta sinn væntanlega sem menntamálaráðherra mun skipa útvarpsstjóra. Með samþykkt nýrra útvarpslaga næsta vetur mun það vald færast í hendur rekstrarstjórnar RÚV sem kemur í stað útvarpsráðs sem lagt verður þá niður. Þá verður rekstrarstjórn ábyrg fyrir rekstrinum en hefur ekki ritstjórnarlegt vald eða mun skipta sér af mannaráðningum, utan auðvitað vali á yfirmanninum, útvarpsstjóranum. Seinustu tvo áratugi, eða frá setningu útvarpslaga 1985 sem breyttu landslagi ljósvakamiðla, hefur útvarpsráð haft það hlutverk að fara yfir umsóknir í stöður hjá fyrirtækinu og hefur yfir dagskrármálum að segja. Sú skipan mála mun loks heyra sögunni til. Eins og öllum varð ljóst í deilunum um ráðningu fréttastjóra útvarpsins fyrr á þessu ári er útvarpsráð barn síns tíma. Sú skipan mála sem það er byggt á (að fara yfir umsóknir og meta þær) er gengin sér til húðar. Það getur ekki gengið lengur að pólitískt skipað ráð með slíkt hlutverk sé þar til í sömu mynd. Þetta vald fer með fyrrnefndum breytingum beint í hendur útvarpsstjórans. Það kom enda skýrt fram í máli Markúsar Arnar í Kastljósviðtali hinn 21. ágúst sl. er hann fór yfir útvarpsstjóraferil sinn að honum fannst RÚV orðin stöðnuð og nefndi sérstaklega skipunarvald á millistjórnendum og þann galla að pólitískt skipað útvarpsráð væri með puttana í því ferli.

Ég og nýr útvarpsstjóri erum sammála um það að mikilvægt er að RÚV fari af auglýsingamarkaði og verði ekki í samkeppni við einkaframtakið um efni. Við í stjórn SUS vorum fljót til að fagna ummælum hins nýja útvarpsstjóra og sendum frá okkur ályktun um málið. Það eru vissulega mikil þáttaskil að útvarpsstjóri hafi þessa skoðun. Til fjölda ára höfum við í SUS og þau sem tölum fyrir breytingum á RÚV og hlutverki þess beðið eftir að einhver í forystusveit RÚV tæki undir skoðanir okkar. Eitt þeirra helstu mála er auðvitað að ríkið eigi ekki að vera í samkeppni við einkaframtakið á auglýsingamarkaði. Því ber að sjálfsögðu að fagna að þau þáttaskil hafi átt sér stað að skoðanabróðir okkar (talsmaður skynseminnar) í því máli verði útvarpsstjóri. Það á svo eftir að koma í ljós hvort Páll Magnússon muni sem útvarpsstjóri ná að leiða til raunhæfra breytinga í þessum efnum í útvarpsstjóratíð hans. Auðvitað væri svo rökréttast að skrefið yrði stigið einfaldlega til fulls. Hví þurfum við ríkisfjölmiðla á okkar tímum? Það er rökréttast að einkavæða fjölmiðla ríkisins og stíga skrefið til fulls. Ríkið á að fara af fjölmiðlamarkaði - einfaldara verður það ekki. Það verður merkilegt að sjá til verka Páls Magnússonar á útvarpsstjórastóli nú fyrstu mánuðina og hvaða áþreifanlegar breytingar, ef nokkrar, muni koma með nýjum húsbónda.

Í ítarlegum pistli mínum á vef SUS í gær fór ég yfir skoðanir mínar á stöðu og hlutverki Ríkisútvarpsins á þeim tímamótum að Páll Magnússon tekur við embætti útvarpsstjóra. Taldi ég bæði þarft og hið eina rétta að fara enn einu sinni yfir það. Flestum ætti þó að vera löngu ljósar hugmyndir mínar og skoðanir á Ríkisútvarpinu og fjölmiðlun á vegum ríkisins. Bendi ég lesendum á að líta á þennan pistil til að fara yfir skoðun mína á RÚV.

Guðmundur Árni Stefánsson

Guðmundur Árni Stefánsson leiðtogi Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, hefur látið af þingmennsku og tók til starfa í dag í utanríkisráðuneytinu. Hann tekur við sendiherraembætti í Svíþjóð þann 1. nóvember nk. Greinilegt var að Guðmundur Árni taldi fullreynt með pólitíska framtíð sína og sá sæng sína útbreidda innan Samfylkingarinnar í kjölfar þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kjörin formaður Samfylkingarinnar í maímánuði. Guðmundur Árni studdi fyrrum formann flokksins í kosningunni og hefur gagnrýnt harkalega vinnubrögð Ingibjargar Sólrúnar í framtíðarnefndinni. Hann telur því fullreynt með pólitíska stöðu sína þar og leitar annað og fer til Svíaríkis til að nema þar lönd í nafni okkar allra. Þetta er ekki ósvipað og kommahöfðinginn Svavar Gestsson gerði þegar hann missti frá sér leiðandi stöðu sína á vinstrivængnum í Reykjavík við stofnun Samfylkingarinnar. Guðmundur Árni var lengi vel ein skærasta stjarna íslenskra jafnaðarmanna og framan af talinn einn helsti vonarpeningur þeirra. Hann varð bæjarstjóri í Hafnarfirði eftir kosningasigur krata árið 1986 og varð það áfram eftir kosningarnar 1990 er flokkurinn vann hreinan meirihluta. Hann lét af bæjarstjórastarfi árið 1993 er hann tók sæti á Alþingi er Jón Sigurðsson varð seðlabankastjóri. Samhliða því tók hann við embætti heilbrigðisráðherra.

Við afsögn Jóhönnu Sigurðardóttur árið 1994 varð hann félagsmálaráðherra. Í kjölfar hneykslismála neyddist hann til að segja af sér ráðherrastólnum í nóvember 1994. Guðmundur Árni varð varaformaður Alþýðuflokksins árið 1994 en tapaði svo í formannskjöri í flokknum árið 1996 fyrir Sighvati Björgvinssyni. Við brotthvarf Guðmundar Árna úr stjórnmálum verður Rannveig Guðmundsdóttir aftur leiðtogi Samfylkingarinnar á kragasvæðinu. Rannveig tapaði leiðtogastöðunni á þessum slóðum til Guðmundar Árna fyrir seinustu kosningar í prófkjöri. Þótt ótrúlegt megi virðast var það í fyrsta skiptið sem Guðmundur Árni leiddi framboðslista fyrir þingkosningar. Rannveig og Guðmundur Árni hafa um langt skeið eldað grátt silfur, fyrst hjá Alþýðuflokknum og svo hjá Samfylkingunni. Eftir að hafa sagt af sér ráðherrastólnum í nóvember 1994 tók Rannveig við embætti félagsmálaráðherra af Guðmundi Árna. Þau buðu sig bæði fram í kjölfarið í prófkjör Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi, sem haldið var í janúar 1995 og einnig tókust þau á um leiðtogastól Samfylkingarinnar í kjördæminu fyrir kosningarnar 1999; í bæði skiptin hafði Rannveig sigur. Töp Guðmundar Árna í þessum tveim prófkjörum veiktu mjög stöðu hans. Sigur hans síðast styrkti hann til muna og flest benti til að hann yrði ráðherraefni fyrir Samfylkinguna.

En nú er hann hættur og farinn úr stjórnmálunum eftir litríkan og allt að því brokkgengan feril. Eins og fyrr segir tekur Rannveig við leiðtogahlutverki flokksins í kjördæminu en í þingsæti Guðmundar Árna sest Valdimar Leó Friðriksson framkvæmdastjóri í Mosfellsbæ. Hann hefur áður tekið sæti á þingi, t.d. í veikindaforföllum Katrínar Júlíusdóttur. Guðmundur Árni er enn formaður Alþýðuflokksins, sem enn er til á pappírunum. Væntanlega tekur enginn við því hlutskipti og því má telja líklegt að Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra, sé síðasti maðurinn sem gegnir því sögulega hlutverki að leiða Alþýðuflokkinn, hinn gamla Jafnaðarmannaflokk sem oft setti svip sinn á stjórnmálasögu landsins. Í reynd var Guðmundur Árni einn af síðustu alvöru krötunum sem sat á þingi fyrir Samfylkinguna, en flokkurinn hefur sífellt vinstrilitast í pólitísku átökum seinustu ára og sést það eiginlega einna best af utanríkisstefnu flokksins.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Það er óhætt að segja að okkur landsbyggðarfólki hafi brugðið nokkuð við það að sjá þann mæta mann Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson leiðtoga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, segja í viðtali í dægurmálaþættinum Íslandi í dag á þriðjudagskvöldið að það væri stefna sín að flugvöllurinn ætti að fara úr Vatnsmýrinni strax á næsta kjörtímabili. Er nokkuð nema furða að maður spyrji hvort þessi borgarfulltrúi sé að fara á taugum í prófkjörsslag sjálfstæðismanna í borginni. Eins og kunnugt er hefur hann nú fengið mótframboð til leiðtogastöðunnar frá Gísla Marteini Baldurssyni og ef marka má háværar raddir fjölmiðlanna ætla Guðlaugur Þór Þórðarson og Júlíus Vífill Ingvarsson í leiðtogaslaginn ennfremur. Það virðist því engin sátt vera um forystu Vilhjálms Þ. En ég verð að viðurkenna að mér brá nokkuð að sjá þennan þaulreynda sveitarstjórnarmann gjörsamlega farinn á taugum í þessu viðtali og sendandi yfirboð á það sem Gísli Marteinn hefur sagt. Gísli Marteinn hefur reyndar sagt svipaða hluti en þó komið með raunhæfa stefnu á hvað eigi að taka við, t.d. flugvallarkost á Lönguskerjum. Það er nú bara þannig að við úti á landi sem notum innanlandsflugið viljum gjarnan heyra, þó við séum ekki kjósendur í Reykjavík, hvað eigi að taka við fari völlurinn úr Vatnsmýrinni.

Ég vil annars benda mætum félögum mínum í borginni á það að völlurinn hefur verið festur í sessi í borginni nokkurn tíma enn og stórum fjárhæðum varið í það verkefni að efla völlinn og aðstæður hans. Spurningin vaknar óneitanlega um það hvort þeim peningum var hent út um gluggann? Þetta er stór spurning. Ég hef hitt marga seinustu tvo dagana, sem búa hér fyrir norðan, flokksmenn sem pólitíska andstæðinga og allir eru nokkuð undrandi á ummælum Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar sem hingað til hefur verið rödd hófsemi og skynsemi umfram allt í flugvallarmálunum í Vatnsmýrinni. Nú keppist hann við að toppa tal annarra frambjóðenda í prófkjörsslagnum og býður bara hærra. Minnir mann satt best að segja á pókerspilara við spilaborðið sem dobblar spilamanninn sem gaf á undan. Er þetta það sem koma skal? Spurt er: ætla sjálfstæðismenn í Reykjavík að bjóða okkur landsbyggðarsjálfstæðismönnum virkilega upp á það að boða brotthvarf vallarins úr Vatnsmýrinni en koma ekki með neitt í staðinn? Ég ætlast til þess, sérstaklega af formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, þó flokksbróðir minn sé, að hann tali skýrar og nefni kosti í stöðunni.

Dr. Angela Merkel

Það styttist óðum í þýsku þingkosningarnar. Rúmur hálfur mánuður er þar til að Þjóðverjar ganga að kjörborðinu. Kanslaraefnin Angela Merkel og Gerhard Schröder eru á ferð og flugi um landið og kynna sig og stefnu sína. Schröder rær algjöran lífróður fyrir stöðu sinni. Nú þegar að átján dagar eru til kosninga blasir við að nær útilokað sé að hann haldi völdum. Fylgismunur CDU og SPD hefur vissulega minnkað örlítið en fjarri því nóg til að hann eigi möguleika á að halda völdum. Schröder notar enda hvert tækifæri þessa dagana til að ráðast að Merkel og stefnumálum CDU en talar ekkert um grunnpunkta baráttu þeirra, t.d. slaka stjórn SPD og græningja í landsstjórninni seinustu sjö árin. Stjórnmálaskýrendur spá allir því að Schröder takist ekki að snúa stöðunni við nú, líkt og honum tókst árið 2002 í kosningabaráttunni þá. Þá mistókst hægrimönnum að halda dampi til enda. Minnugir þess berjast þeir af krafti nú og minna á að hvert atkvæði skiptir máli. En svo benda sérfræðingar á að svo gæti farið að grosse koalition yrði niðurstaða mála eftir kosninga, ef hvorug blokkin nær öflugum meirihluta. Það leiðir auðvitað til samstjórnar erkifjendanna CDU og SPD (þá væntanlega án Schröders). Það er því engin furða að spenna sé komin upp í slagnum.

Oktavía Jóhannesdóttir

Þær fréttir bárust í fréttum hér norðan heiða í gær að vinstriflokkarnir í Eyjafirði væru að íhuga sameiginlegt framboð ef sameining sveitarfélaga í Eyjafirði yrði að veruleika. Var vitnað í Oktavíu Jóhannesdóttur leiðtoga Samfylkingarinnar hér á Akureyri, sem sagðist vera hlynnt slíku framboði að því gefnu að sameining yrði. Er ekki annað hægt fyrir okkur andstæðinga vinstrimanna í Eyjafirði en að lýsa ánægju okkar yfir slíku tali. Allir sem muna eftir bæjarstjórnarkosningunum hér á Akureyri fyrir sjö árum, árið 1998, hljóta að vonast eftir samkrullsframboði vinstrimanna. Þá biðu vinstrimenn hér sögulegt afhroð: hlutu aðeins tvo bæjarfulltrúa af ellefu, sem var langt undir væntingum. Unnu þeir reyndar eftir það með okkur sjálfstæðismönnum í meirihluta. Reynsla vinstrimanna hér er því ekki góð af samkrullsframboði. Það er ánægjuefni að menn ljái aftur máls á slíku framboði, enda hafa kannski vinstrimenn hér góðar minningar af því samstarfi.

Saga dagsins
1939 Seinni heimsstyrjöldin hefst - Hitler fyrirskipar herum sínum að ráðast með hervaldi í Pólland.
1972 Fiskveiðilögsagan færð út í 50 sjómílur - Bretar féllust ekki á þessa útfærslu fyrr en árið 1973.
1972 Bobby Fischer verður heimsmeistari í skák, er hann sigrar Boris Spassky þáv. heimsmeistara,
í einvígi aldarinnar í skák í Reykjavík sem stóð í rúmar sjö vikur - Fischer missti titil sinn árið 1975.
1978 Önnur ríkisstjórnin undir forsæti Ólafs Jóhannessonar tekur við völdum á Bessastöðum. Hún sat í rúmt ár, en féll svo með hvelli í byrjun október 1979 er Alþýðuflokkurinn hætti stuðningi sínum.
1988 Berglind Ásgeirsdóttir tekur formlega við embætti sem ráðuneytisstjóri, fyrst íslenskra kvenna.

Snjallyrðið
Þó fjúki í fornar slóðir
og fenni í gömul skjól
geta ekki fönnin og frostið
falið Álfahól.

Yfir hann skeflir aldrei
þó allt sé af gaddi hvítt,
því eldur brennur þar inni,
sem ísinn getur þítt.

Þar á ég höfði að halla,
þó hríðin byrgi sól,
fjúki í fornar slóðir
og fenni í gömul skjól.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Álfahóll)