Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 október 2005

Geir H. Haarde utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins

Í ítarlegum pistli á heimasíðu minni í dag fjalla ég um 36. landsfund Sjálfstæðisflokksins. Þáttaskil hafa átt sér stað í flokknum. Á landsfundinum sté Davíð Oddsson verðandi seðlabankastjóri, af hinu pólitíska sviði, í orðsins fyllstu merkingu er hann labbaði af aðalsviðinu í Laugardalshöll og hélt út í sal. Hann var ekki lengur forystumaður Sjálfstæðisflokksins, hafði afhent völdin innan flokksins til eftirmanns síns. Geir H. Haarde utanríkisráðherra, hafði þá verið kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins og tekið við forystu flokksins af Davíð. Að baki er merkur ferill – rúmlega þriggja áratuga stjórnmálaferill öflugs leiðtoga sem leitt hefur Sjálfstæðisflokkinn í einn og hálfan áratug, í senn bæði með kraftmiklum og glæsilegum hætti. Þáttaskilin felast í brotthvarfi þessa sterka leiðtoga. Eftirmaðurinn er þó af sömu kynslóð – náinn samstarfsmaður og félagi Davíðs í rúma þrjá áratugi, maður sem þekkir Sjálfstæðisflokkinn og stjórnmálavettvanginn mjög vel. Þáttaskil urðu svo í varaformannskjöri þegar að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var kjörin varaformaður, fyrst kvenna. Þó að kosning hafi verið milli Þorgerðar Katrínar og Kristjáns Þórs um embætti varaformanns var baráttan vinsamleg og drengilega háð að hálfu þeirra beggja.

Geir H. Haarde utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tekur við flokknum heilum og öflugum á bakvið sig. Flokksmenn færðu honum forystuna í flokknum með afgerandi hætti og enginn vafi leikur á því hversu sterkur leiðtogi hann er við þessi þáttaskil. Þegar að sterkir leiðtogar kveðja verður alltaf tómarúm. Við sjálfstæðismenn erum svo heppnir að eiga sterka stjórnmálamenn sem geta tekið við forystunni af krafti við brotthvarf Davíðs. Geir H. Haarde er þekktur fyrir verk sín og störf í þágu Sjálfstæðisflokksins. Honum voru launuð þau störf í kosningunni í gær með þeim hætti sem fyrir liggur. Geir er vel kominn að því að taka við forystu flokksins. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1987 og hefur aðeins Halldór Blöndal setið lengur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Geir var varaformaður flokksins í sex ár, en hann var kjörinn varaformaður með yfirburðum á landsfundi flokksins í aðdraganda þingkosninganna árið 1999, og var fjármálaráðherra, lengur en nokkur annar í íslenskri stjórnmálasögu, eða í rúm sjö ár, og hefur nú tekið sæti sem utanríkisráðherra. Verður merkilegt að fylgjast með Geir í nýju hlutverki í íslenskum stjórnmálum.

Það var aldrei vafi á því í mínum huga fyrir landsfundinn að Geir myndi hljóta glæsilega kosningu sem eftirmaður Davíðs á formannsstóli. Við sameinumst nú öll sem eitt að baki Geir og styðjum hann heilshugar í þeim verkefnum sem blasa við honum og flokknum okkar á komandi árum. Framundan eru tvær mjög spennandi kosningar og áhugavert verður að vinna fyrir flokkinn í þeim átökum sem fylgja kosningunum, og undir forystu Geirs sem formanns okkar. Það hefur verið gæfa Sjálfstæðisflokksins seinustu árin að fylgja formanni sínum heilshugar í því sem gera þarf og þeim verkefnum sem framundan eru á veginum. Lengi var sagt að þegar að Davíð Oddsson myndi láta af formennsku myndu pólitísk átök og ósamstaða einkenna andrúmsloftið við þau þáttaskil. Það varð ekki svo – andstæðingum okkar varð ekki að þeirri ósk sinni að læti yrðu við brotthvarf Davíðs. Við færðum Geir formennskuna með öflugum og samhentum hætti og hann hefur umboð okkar til forystu. Bind ég vonir við að Geir muni leiða brátt ríkisstjórn og taka við forystu í stjórnmálum með sama hætti og Davíð Oddsson gerði.

Rétt eins og ljóst var fyrir landsfundinn að Geir yrði formaður var öllum ljóst að nýr varaformaður yrði kjörinn á landsfundinum. Í framboði voru eins og fyrr segir Kristján Þór og Þorgerður Katrín. Eins og vel kom fram í pistli á vef mínum fyrir tæpum mánuði er framboð þeirra lágu fyrir ákvað ég að styðja Kristján Þór til varaformennsku. Hef ég þekkt Kristján Þór Júlíusson í um tvo áratugi og því engin undur og stórtíðindi að ég hafi stutt hann af krafti í þessu varaformannskjöri. Kristján Þór sannaði fyrir mér og öllum öðrum sem þekkja hann og bakgrunn hans í ræðunni á laugardeginum hvernig hann er – bæði sem stjórnmálamaður og persóna. Hann er kraftmikill, heiðarlegur og ábyrgðarmikill stjórnmálamaður – öflugur maður með mikla reynslu – sem þorir að taka áhættur og vill vinna verkin af krafti. Heyrði ég vel á landsfundinum að fólki líkaði markvissar áherslur hans og metnaður fyrir hönd flokksins í varaformannskjörinu. Kom hann enda fram með markvissa stefnu um að efla innra starf flokksins og sótti fram af krafti – umfram allt með metnað fyrir hönd flokksins að leiðarljósi. Þótti mér honum mælast þar vel og náði hann eflaust til þeirra sem óákveðnir voru, enda heyrði ég almenna ánægju allra með ræðu hans.

Þegar kom að kjörinu var öllum ljóst að mjótt gæti orðið á munum og Kristján hefði unnið mjög á. Fyrir fundinn þótti mörgum sem svo að framboð Kristjáns Þórs væri vonlaust og sótt hefði verið fram af hans hálfu aðeins til að skora keilur í athygli. Þeir sem þekkja Kristján Þór vita að hann er keppnismaður og leggur aldrei af stað nema vera fullkomin alvara. Það sáu allir sem fylgdust með ræðu hans á laugardeginum. Hann er enda keppnismaður. Svo fór að Þorgerður Katrín hlaut kjör sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Markaði hún sér þar sess í sögu flokksins, enda er hún fyrsta konan í sögu hans sem tekur sæti í æðstu forystu hans. Þorgerður Katrín hlaut 728 atkvæði eða 62,3%. Kristján Þór hlaut 424 atkvæði eða 36,3%. Var alveg ljóst á þessum úrslitum að Kristján Þór hafði öflugan stuðning og gott bakland í formannskjörinu. 10 aðrir sjálfstæðismenn fengu samtals 16 atkvæði. Við sem studdum Kristján Þór Júlíusson erum ánægð með góðan árangur hans í kosningunni, sem mun efla hann til komandi verkefna í pólitík, og vinnum af krafti með Þorgerði Katrínu í innra starfinu.

Þáttaskil hafa orðið í íslenskum stjórnmálum. Stjórnmálaferli Davíðs Oddssonar er lokið og flokksmenn hafa á fjölmennum og góðum landsfundi fært Geir H. Haarde forystuna í flokknum. Þetta var mjög góð helgi og ánægjulegur fundur og virkilega gaman að hittast og eiga svo góða stund. Rúmlega þúsund manns greiddu atkvæði í kosningu um formann og varaformann og við finnum á því og kraftinum á fundinum hversu flokkurinn fer öflugur inn í pólitískan vetur. Geir er vel kominn að því að taka við pólitískum völdum Davíðs Oddssonar. Þorgerður Katrín fékk öflugt umboð til varaformennsku og mun vonandi vinna af krafti að innra starfi flokksins og þeim verkefnum sem mikilvæg eru í aðdraganda tveggja kosninga. Að fundinum loknum héldu sjálfstæðismenn sáttir til síns heima. Samstaða okkar er mikil og vinna framundan til að tryggja góða útkomu í kosningunum tveim. Framundan eru skemmtilegir tímar í íslenskum stjórnmálum eftir þessi þáttaskil í Sjálfstæðisflokknum.

Bergur Þorri Benjamínsson

Í aðdraganda landsfundar hafði verið nokkur umræða um þá ákvörðun stjórnvalda að skerða bensínstyrk öryrkja. Var þetta mjög umdeild ákvörðun og vakti óánægju í samfélaginu, sem von er. Svo fór á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að Bergur Þorri Benjamínsson lagði fram breytingatillögu í heilbrigðisnefnd og mælti fyrir því að ákvörðunin skyldi dregin til baka. Var tillaga hans samþykkt. Var það mikið gleðiefni, mjög svo. Bergur Þorri lenti í alvarlegu slysi fyrir nokkrum árum og lamaðist fyrir neðan mitti. Hann er ein af hvunndagshetjunum. Hann lifir sínu lífi og hefur tekið þátt í þeim verkefnum sem hann hefur áhuga á. Hann er nú gjaldkeri stjórnar Varðar, f.u.s. á Akureyri, þess félags sem ég er formaður í. Ég studdi hann af krafti í að leggja fram þessa tillögu og fagna samþykkt hennar. Það kemur ekki til greina að þessi tillaga heilbrigðisráðherra verði samþykkt. Hún er óeðlileg og það var gleðiefni að Bergur Þorri lét landsfund Sjálfstæðisflokksins taka afstöðu til málsins og sló málið burt hvað varðar flokkinn. Nú er málið í höndum heilbrigðisráðherra. Afstaða Sjálfstæðisflokksins er auðvitað algjörlega skýr. Burt með þessa fyrirhuguðu skerðingu bensínstyrksins. Hver getur enda varið þessa þvælu?

Almennur sjálfstæðismaður, sem er lamaður eftir alvarlegt slys, leggur fram tillögu um þetta mál sem er samþykkt af almennum sjálfstæðismönnum á landsfundi, sem er æðsta stofnun flokksins. Stefna okkar í málum er mótuð á þessum fundi og sjálfsagt að ræða þetta. Stefna flokksins í þessu máli er ljós og því alveg ljóst að menn verða að vinna eftir henni. Merkilegt er að heyra nú í framsóknarmönnum þar sem þeir tala um svik og hvað ofan á annað. Síðan hvenær er það að stinga einhvern í bakið að leggja fram tillögu á landsfundi flokksins síns og berjast fyrir sínum hjartans málum? Er það ekki bara besta dæmið um hversu flokksstarfið er opið og hversu mikil áhrif hinn almenni flokksmaður hefur? Það held ég nú. Við sjálfstæðismenn sögðum okkar á landsfundinum. Þetta er gott dæmi um það að almennir flokksmenn geta tekið málin í sínar hendur - komið með breytingatillögur og keyrt málin í gegnum fundinn og aflað breytingatillögunum stuðnings annarra fundarmanna. Hinn almenni flokksmaður hefur raunverulega áhrif - það er svosem gott að aðrir sjá það. En þetta er góð tillaga sem var þarna samþykkt og vonandi er þetta mál Jóns Kristjánssonar með þessu dautt. Gott hjá Bergi Þorra.

David Cameron

Ég hef lengi velt vel fyrir mér breskri pólitík. Nú er komið að því að íhaldsmenn hefja kosningu innan þingflokksins um það hver eigi að leiða flokkinn á næstu árum. Rifkind hefur hætt við og eftir standa Cameron, Clarke, Davis og Fox. Allt eru þetta mætir menn sem vilja vinna vel fyrir íhaldsmenn og koma flokknum til valda. Á morgun ræðst það hver þeirra dettur fyrst út og á fimmtudag dettur annar út. Þingflokkurinn kýs tvo út og svo munu flokksmenn kjósa á milli þeirra tveggja sem komast í gegnum kosningu þingflokksins. 6. desember verður kjöri nýs leiðtoga lýst. Lengi vel hallaðist ég að Davis eða Fox í þessum slag. Hef aldrei verið mjög hrifinn af Clarke sem stjórnmálamanni. Nú þykir mér sem að stjarna David Cameron sé að rísa. Hann flutti alveg glimrandi ræðu á flokksþingi íhaldsmanna fyrr í mánuðinum og sannaði þar kraft sinn og afl. Talaði þar blaðlaust og af styrk um lykilmál og stefnu flokksins. Er ég kominn á þá skoðun nú að hann sé málið - hann eigi að leiða flokkinn inn í nýja tíma. Hann er aðeins 39 ára gamall og hefur það sem ég tel í slaginn. Ætla að vona að hann vinni þetta. Hallast að því að Clarke detti fyrstur og svo fari Davis eða Fox á fimmtudag, hallast að Fox.

Edda Heiðrún Backman

Í síðustu viku var, eins og ég fjallaði um þá, viðtal við Eddu Heiðrúnu Backman leikstjóra og leikkonu, í Kastljósi. Þar talaði Edda Heiðrún með næmum og fallegum hætti um baráttu lífs síns - gegn hrörnunarsjúkdómnum MND, sem nú hefur leitt til þess að hún hefur orðið að hætta leik, langt um aldur fram. Dáðist ég þar að túlkun Eddu Heiðrúnar og því hversu heilsteypt hún horfist í augu við örlög sín. Á sunnudagskvöldið var Edda Heiðrún viðmælandi Jóns Ársæls Þórðarsonar í Sjálfstæðu fólki. Það var svo tilfinninganæmt viðtal að ég komst eiginlega við að fylgjast með henni tala þar um veikindin og lífið. Hreint út sagt að þá dáist ég að Eddu Heiðrúnu - hún er sannkölluð hetja. Þeir sem eru að fjargviðrast yfir smávægilegum erfiðleikum og eru úrillir vegna smáatriða lífsins ættu að horfa á viðtalið við Eddu Heiðrúnu og horfa á þá miklu sómakonu ræða um örlög sín með þeim hætti sem þar kemur fram. Hvet alla til að horfa á þetta viðtal við Eddu Heiðrúnu - það gefur lífinu annan lit að horfa á Eddu tala um örlög sín og hvernig hún horfist í augu við þau.

Davíð Oddsson

Á föstudeginum átti ég notalegt spjall við Davíð Oddsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þakkaði hann mér og stjórn Varðar þar fyrir skeytið sem við sendum honum vegna starfsloka hans í stjórnmálum. Þótti mér vænt um vingjarnleg orð Davíðs í garð okkar og félagsins. Það er vægt til orða tekið að ég hafi dýrkað Davíð og flokkinn á þeim áratug sem ég hef verið flokksbundinn þar. Eiginlega mætti segja að ég hafi gengið í flokkinn vegna aðdáunar minnar á honum sem stjórnmálamanni og vegna þess að ég fann taug milli hugsjóna minna og sjálfstæðisstefnunnar. Annars á ég svosem ættir að rekja til flokksins. Afar mínir voru báðir miklir sjálfstæðismenn og kusu flokkinn alla tíð. Þeir mættu hinsvegar báðir á landsfund og fóru sínar leiðir en flokkinn kusu þeir alltaf og hikuðu ekki við að vaða eld og brennistein fyrir hann. Langafi var bæjarfulltrúi hér á Akureyri, svo tengslin í flokkinn eru til staðar og gott betur en það.

Saga dagsins
1755 Kötlugos hófst með miklum jarðskjálftum, eldingum, stórdynkjum, skruðningum, þoku, þykku sandmistri og eldsgangi. Talið er að þetta eldgos sé eitt mesta öskugos á sögulegum tíma í Kötlu.
1970 Anwar Sadat verður forseti Egyptalands - Sadat sat á valdastóli þar til hann var myrtur 1981.
1979 Móðir Teresa hlýtur friðarverðlaun Nóbels fyrir ævistarf sitt að mannúðarmálum í heiminum.
1989 Jarðskjálfti skekur San Francisco og veldur miklum skemmdum - hann mældist 7 Richter-stig.
1998 Kista Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar, kom til Íslands frá Seattle, þar sem hún hafði látist hinn 12. október. Stutt athöfn var á Keflavíkurflugvelli vegna þessa. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands, minntist forsetafrúarinnar. Við athöfnina fór að snjóa og þótti það mjög táknrænt.

Snjallyrðið
Nú komin er kveðjustund okkar
og kossinn ég síðasta fæ.
En minningin merlar og lokkar
sú minning fer aldrei á glæ.
Innst í hjarta sem gull ég þig geymi
þú ert glóbjarta drottningin mín.
Þó árin til eilífðar streymi
fer aldrei burt minningin þín.
Kristján Ingólfsson (Kveðjustundin)

Undurfagurt ljóð Kristjáns Ingólfssonar við lag móðurbróður míns, Þorvaldar Friðrikssonar á Eskifirði. Valdi var snillingur í tónsmíðum, samdi listilega falleg lög sem geymast mjög vel í hjarta og huga. Kveðjustundin var hans fallegasta lag að mínu mati og vekur það alltaf upp minningar í huga mér. Texti Kristjáns er sannkallað snjallyrði.