Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 október 2005

Dr. Angela Merkel

Stjórnarkreppunni í Þýskalandi er lokið. Jafnaðarmannaflokkurinn og Kristilegi demókrataflokkurinn hafa samið um stjórnarmyndun sín á milli. Seinustu vikurnar hafði blasað við að ekkert annað stjórnarmynstur gat gengið eða fúnkerað við breyttar aðstæður í þýskum stjórnmálum eftir kosningarnar 18. september þar sem hvorug valdablokkin náði starfhæfum meirihluta. Niðurstaðan er því með þeim hætti sem margir höfðu spáð bæði fyrir og eftir kosningar. Mynduð er hin svokallaða stóra samsteypa (grosse koalition), samstjórn krata og íhaldsmanna. Hefur slík stjórn ekki verið mynduð síðan á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, og sat sú stjórn árin 1966-1969.

Það eru því óneitanlega þáttaskil nú þegar samkomulag milli stóru flokkanna blasir við. Samkomulag hefur nú náðst eftir mikið þrátefli flokkanna um að dr. Angela Merkel verði kanslari Þýskalands. Markar það enn ein þáttaskilin í sögu þýskra stjórnmála, en Merkel verður fyrsta konan á kanslarastóli og er ennfremur fyrsti stjórnmálamaðurinn frá A-Þýskalandi sem verður kanslari Þýskalands eftir sameiningu austurs og vesturs fyrir einum og hálfum áratug. Eins og við blasir við þessi tíðindi verður Gerhard Schröder kanslari, að láta af embætti við valdatöku Merkel. Hann varð undir í kapphlaupinu um völdin við Merkel og víkur nú úr miðpunkti þýskra stjórnmála.

Schröder hefur ekki í hyggju að taka sæti í stjórn Merkel. Hann hefur verið kanslari í rúm sjö ár, en hann varð kanslari eftir kosningasigur vinstriaflanna í þingkosningunum í september 1998. Með tapi í þeim kosningum lauk merkum stjórnmálaferli Helmut Kohl. Er búist við að ný stjórn taki formlega við völdum um miðjan nóvember. En framundan eru erfið verkefni fyrir Merkel og nýja stjórn hennar. Viðbúið er að erfitt verði að berja saman starfhæfa stjórn og markvissan stjórnarsáttmála. Kratar og íhaldsmenn tókust á eins og ljón í kosningaslagnum. Merkel sótti af krafti gegn Schröder og stjórn hans og gagnrýndi harkalega efnahagsstjórn þeirra og forystu í lykilmálum.

Nú verður Merkel að hefja samstarf með krötunum, að vísu undir annarri stjórn, en samt sem áður verður hún að taka tillit til stefnu þeirra og skoðana. Það gæti orðið erfitt, mjög svo. En vissulega er það stórpólitískur sigur fyrir Merkel að hafa náð því að hljóta kanslarastólinn og taki við forystu í þýskum stjórnmálum. Á því leikur enginn vafi. Var það reyndar dýrkeypt, enda urðu íhaldsmenn að samþykkja að veita krötum átta ráðherrastóla en hljóta sex sjálfir til ráðstöfunar. En Merkel mun leiða stjórnina og verður í forsvari hennar. Það eru jákvæð þáttaskil, fyrir konur þegar að kona verður æðsti stjórnmálamaður í þýskri pólitík, tekur við sjálfu kanslaraembættinu.

Kanslaraembættið í Þýskalandi er ein áhrifamesta stjórnmálastaða í heiminum í dag, allavega í Evrópu, lykilspilari á pólitísku sviði. Það að kona verði kanslari í Þýskalandi eru stórfréttir, ánægjulegar fréttir í jafnréttisbaráttu kvenna. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í hinum verðandi kanslara og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum, er hún varð leiðtogi Íhaldsflokksins og fyrst kvenna forsætisráðherra Bretlands, árið 1979. Merkel er töffari í þýskri pólitík. Hún komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, 1982-1998, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans.

Angela Merkel er fimmtug, tvífráskilin, nýlega gift í þriðja skiptið og barnlaus og því langt í frá lík t.d. Edmund Stoiber sem þótti vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir. Schröder og Merkel eiga það sameiginlegt að hafa gifst oftar en einu sinni og vera allskrautlegar týpur sem hika ekki við að taka vinnuna framyfir einkalífið - vera miklir vinnuhestar. Jafnframt þykja þau bæði nokkuð frjálsleg í fasi og ófeimin að sýna skap sitt og ákveðni í pólitík. Nú mun reyna á Merkel sem stjórnmálamann er hún tekur við forystu þýskra stjórnmála - hún tekur á sig mikla ábyrgð og bundnar eru miklar vonir við þennan fyrsta kvenkanslara Þýskalands.

Harriet Miers

Deilur hafa sprottið upp um skipan George W. Bush forseta Bandaríkjanna, á Harriet Miers sem dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Heldur koma þó deilurnar upp á skondnum stað að margra mati. Jú, það eru einmitt íhaldssömustu stuðningsmenn forsetans sem skora nú á hann að draga skipun Miers til baka og velja annað dómaraefni. Margir spyrja sig eflaust af hverju þeir láti til skarar skríða gegn Miers og vali hennar í réttinn. Jú, þeir eru hræddir um að hún verði andstæða þess sem menn telja að hún sé er hún er komin í réttinn. Miers á ekki neina dómarasetu að baki og er óskrifað blað í mörgum helstu lykilmálum seinustu ára: t.d. hvað varðar samkynhneigð, fóstureyðingar og fleira.

Íhaldssamir eru mjög í vafa um að hún sé sá íhaldssami lagasérfræðingur sem Bush forseti, segir að hún sé. Er andstaðan svo langt gengin að Bush hefur orðið að verja valið. Það hefur hann gert bæði í vikulegu ávarpi sínu til landsmanna og með blaðamannafundum. Ennfremur hafa nánir samstarfsmenn forsetans þurft að hringja persónulega í þingmenn í öldungadeildinni og forystumenn samtaka íhaldssinnaðra repúblikana til að tryggja að stuðningur þeirra við Miers haldist. Það sjá enda allir að ef sá grunnstuðningur myndi bregðast yrði Miers ekki staðfest til setu í réttinn. Það er því mikilvægt að tryggja grunnstuðning úr röðum repúblikana - án hans strandar staðfestingarferlið hratt.

Það er enda svo merkilegt að þeir sem helst verja Miers í þessum átökum í fjölmiðlum á seinustu dögum eru demókratar og forystumenn hófsamra í fyrrnefndum lykilmálum. Flestir geta þeir sætt sig við Miers og hafa a.m.k. ekki talað gegn henni. Það er þó auðvitað ljóst að bregðist stuðningur repúblikana muni demókratar ekki styðja hana og myndu gera forsetanum lífið leitt í málinu. Það eru þó sífellt minni líkur á að þessi læti íhaldssinnanna verði eitthvað meira en stormur í vatnsglasi. Hefur Miers svarað fyrir sig af krafti og reynt að verja stöðu sína og bæta álit íhaldsmanna á henni. Forsetinn hefur ennfremur talað af miklum ákafa og barið niður helstu andstöðuna.

Þrátt fyrir þessi átök sjá flestir að Miers verður væntanlega staðfest. Það er reyndar merkilegt hversu skeptískir íhaldsmenn eru á Miers. Lykillinn að farsælli niðurstöðu varðandi valið á Miers er auðvitað það að hún er kona og ekki síður ekki með reynslu sem dómari. Það er því algjörlega ljóst að hún hefur litlar sem engar beinagrindur í skápnum sem hægt verður að slengja á hana í staðfestingarferlinu. Niðurstaðan er því miðaldra og settleg kona, afburðalögfræðingur, með mikla reynslu af lögum og lagabókstaf en með enga dómarasetu að baki. En hinsvegar blasir við að hægrisinnuðustu lykilmenn í liði Bush eru hræddir um að þeir fái köttinn í sekknum með Miers.

Hæstiréttur

Í gær féll dómur Hæstaréttar í hinu svonefnda Baugsmáli. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði vísað málinu frá dómi í síðasta mánuði en málinu var áfrýjað til Hæstaréttar. Samkvæmt dómnum á héraðsdómur að taka átta liði ákæru efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra til efnislegrar meðferðar. 32 ákæruliðum var hinsvegar vísað frá dómi. Það er ekki ofmælt að segja að um áfellisdóm sé að ræða yfir embætti Ríkislögreglustjóra og vinnubrögðum á þeim bænum. Það er óneitanlega reiðarslag fyrir ákæruvaldið að svo umfangsmiklu máli, sem hefur verið í umræðunni til fjölda ára, sé einfaldlega vísað frá dómi vegna þess að það sé ekki dómtækt.

Er vissulega leitt að málið hafi ekki fengið efnislega meðferð. Það verður hinsvegar alfarið að dæmast á embætti Ríkislögreglustjóra hvernig fór fyrir málinu. Eins og við blasir nú er aðeins lítill angi málsins enn dómtækur fyrir héraðsdómi. Það sjá allir menn sem líta á ákæruliðina sem eftir standa að þeir standa ekkert undir öllum þunga málsins sem til var stofnað í upphafi. Ég get ekki annað en sagt hreint út að þessi dómur hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir ákæruvaldið. Um er að ræða mikinn áfellisdóm yfir því embætti og þeim sem héldu á málinu á þessu langvinna ferli í rannsókn og fyrir dómi.

Málið þótti stórt í sniðum. Farið var með valdi inn í fyrirtæki og stofnað var til mikilla umræðna um sakargiftir í samfélaginu. Niðurstaðan er með þeim hætti að það hvarflar að manni hvernig mönnum tókst að klúðra efnislegri meðferð málsins með þessum hætti. Allir sem lesa dóm Hæstaréttar sjá mikinn áfellisdóm yfir embætti þessu og forystumönnum rannsóknarinnar og þeim sem héldu á málinu fyrir dómi. Það er bara algjörlega einfalt mál. Öllum veigamestu ákæruatriðunum er vísað frá. Er þar einkum litið til ákæranna um fjárdrátt, umboðssvik og brot á lögum um hlutafélög.

Það er reyndar svo að af þeim átta liðum sem þó standa eftir gerir rétturinn athugasemdir við fjóra þeirra. Þannig að eftir standa fjórir liðir alls málsins sem algjörlega heilir og dómtækir að öllu leyti að mati réttarins. Þetta er merkilegur dómur og eins og Eiríkur Tómasson hefur sagt áfellisdómur yfir þeim sem stóðu í forsvari rannsóknarinnar. Nú hefur verið ákveðið að ríkissaksóknari taki sjálfur við forsjá þeirra 32 ákæruatriða sem Hæstiréttur sló út með dómi sínum. Verður fróðlegt að fylgjast með framhaldi þessa máls eftir þessa útreið fyrir ákæruvaldið.

Sir Malcolm Rifkind

Sir Malcolm Rifkind þingmaður breska Íhaldsflokksins og fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag að hann hefði dregið framboð sitt til leiðtogastöðunnar í flokknum til baka. Hefur hann í hyggju að styðja nú framboð Kenneth Clarke í leiðtogaslagnum. Rifkind tilkynnti um framboð sitt í sumar og hafði sótt fram af krafti í leiðtogaslagnum. Auk hans voru fjórir í slagnum. Fluttu allir frambjóðendurnir ræðu á flokksþingi Íhaldsflokksins í Blackpool í síðustu viku og kynntu sig og framtíðarsýn sína fyrir flokkinn og bresk stjórnmál almennt. Rifkind þótti flytja öfluga ræðu á flokksþinginu. Hinsvegar var hann talinn eiga sífellt minni möguleika á að hreppa hnossið.

Rifkind er einn af síðustu lykilspilurum Thatcher- og Major-valdatímans og var ráðherra samfellt árin 1986-1997 er flokkurinn missti völdin. Rifkind var ráðherra málefna Skotlands, en hann er Skoti, 1986-1990, samgönguráðherra 1990-1992, varnarmálaráðherra 1992-1995 og að lokum utanríkisráðherra 1995-1997. Hann var einn þeirra sem misstu þingsæti sitt í kosningunum 1997. Sat hann á þingi fyrir Skotland árin 1974-1997 en flokkurinn þurrkaðist út í Wales og Skotlandi í kosningunum 1997. Rifkind var svo aftur kjörinn á þing í kosningunum í maí og situr á þingi fyrir Kensington og Chelsea. Er nú almennt talið að slagurinn standi milli David Cameron og Kenneth Clarke.

KastljósKastljós

Í gærkvöldi hóf göngu sína í Sjónvarpinu nýr dægurmálaþáttur, Kastljós. Ritstjóri hans er Þórhallur Gunnarsson en með honum vinna að þættinum þau: Eyrún Magnúsdóttir, Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Jónatan Garðarsson, Kristján Kristjánsson, Sigmar Guðmundsson, Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Þóra Tómasdóttir. Kemur þátturinn í stað Kastljóssins, sem hefur verið á dagskrá Sjónvarpsins í tæp sex ár. Að baki eru vel á annað þúsund þættir þar og mörg ógleymanleg atriði, sem var gaman að rifja upp að kvöldi sunnudags í lokaþætti Kastljóssins. En Kastljós hið nýja er ferskur og öflugur þáttur, mjög fjölbreyttur. Leist virkilega vel á hann. Þetta er flottur pottur áhugaverðs efnis og flott uppstokkun frá því sem áður hefur verið gert í dægurmálaþáttum hjá RÚV. Í fyrsta þættinum var t.d. áhugavert viðtal við Jónínu Benediktsdóttur og flott umfjöllun um Baugsmálið frá ólíkum hliðum. Það mun verða mjög áhugavert að fylgjast með þessum þætti í vetur. Hlakka til að fylgjast með funheitu Kastljósi í vetur.


Í blálokin hér í dag vil ég þakka einstaklega góðar viðtökur við nýrri heimasíðu minni. Metfjöldi heimsókna hefur verið þar seinustu dagana. Frá opnun á sunnudagsmorgun hafa vel á fjórða þúsund heimsóknir verið á nýjan vef einvörðungu. Hér líta ennfremur margir við á hverjum degi, fleiri hundruð manns og heimsóknir aukast sífellt. Það er ekki annað hægt en að þakka af heilum hug fyrir þennan áhuga á skrifum mínum og því sem ég set frá mér um þjóðmálin. Vonandi eigum við samleið áfram.

Saga dagsins
1256 Þórður kakali Sighvatsson, andaðist í Noregi, 46 ára að aldri - Þórður var á sinni tíð, um miðja þrettándu öld, einn valdamesti maður á Íslandi. Hann bjó að Grund í Eyjafirði og var goðorðsmaður.
1986 Leiðtogafundur risaveldanna í Höfða hófst - Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Gorbachev leiðtogi Sovétríkjanna, ræddu um afvopnunarmál. Leiðtogafundurinn varð allsögulegur.
1988 Guðrún Helgadóttir kjörin forseti Alþingis, fyrst kvenna í rúmlega 1000 ára sögu þjóðþingsins.
2000 Donald Dewar leiðtogi skosku stjórnarinnar, deyr af völdum heilablóðfalls, 63 ára gamall.
2001 Öldungadeild bandaríska þingsins samþykkir fræg Patriot Act-lög George W. Bush forseta BNA.

Snjallyrðið
Yfir hvítum ísabreiðum,
yfir gömlum, frosnum leiðum
flýgur hann og flýgur hann.
Villtur fugl, sem enginn ann
og aldrei sína gleði fann.

Um loftið, blandið bölvi og seiðum,
brýst hann einn og flugið knýr,
útlægur frá himni heiðum,
hræðist menn og dýr.
Bannfærð sál sem böl sitt flýr.

Örvænting að brjósti og baki,
bæn í hverju vængjataki.
Vetur, vetur, veðragnýr,
og jörðin kaldur klaki.

Flugið lamast. Fuglinn hnígur,
flýgur upp með sáru kvaki,
og dauðadansinn stígur -

flýgur og flýgur.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Villti fuglinn)

Fallegt og táknrænt ljóð eftir Davíð frá Fagraskógi - tært snilldarverk.