Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, flutti stefnuræðu af hálfu ríkisstjórnar sinnar á Alþingi í gærkvöldi. Fór forsætisráðherrann víða yfir í ræðu sinni. Þar sagði hann að ríkisstjórnin hefði ákveðið að hrinda af stað sérstöku átaki undir yfirskriftinni "Einfaldara Ísland". Er gert ráð fyrir að hvert ráðuneyti fari yfir lög og reglur, sem undir það heyra, með það fyrir augum að einfalda regluverkið, minnka skriffinnsku og auka skilvirkni enn frekar. Halldór sagði að íslensk stjórnsýsla væri sú þriðja skilvirkasta í heimi. Samt sem áður mætti margt betur fara og sagðist Halldór hafa látið hefja vinnu, sem miði að því að einfalda stjórnsýsluna og gera hana markvissari og meira í takt við tímann. Það þýði meðal annars endurskoðun á lögum og reglum um Stjórnarráð Íslands. Halldór fjallaði ennfremur um vinnu við endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins og sagði að meiri samstaða þyrfti að vera um stjórnarskrárbreytingar en um lagabreytingar yfirleitt. Rík krafa væri meðal almennings að handhafar ríkisvalds sinntu starfi sínu af ábyrgð með almannaheill að leiðarljósi og vandað væri til verka í stjórnsýslu, við lagasetningu og hjá dómstólunum. Ennfremur væru uppi óskir um að fulltrúalýðræðið yrði endurnýjað þannig að almenningur fengi færi á að taka virkan þátt í ákvörðunartöku um sameiginleg málefni.
Það gæti ekki einungis átt sér stað í þingkosningum á fjögurra ára fresti, heldur einnig þess á milli, t.d. í þjóðaratkvæðagreiðslum. Halldór sagðist í stefnuræðunni vænta mikils af starfi nefndar sem fjallað hefur um stöðu fjölskyldunnar hérlendis. Sagði hann að hérlendis eigi ekki að viðgangast mismunun, hvorki á grundvelli litarháttar, trúarskoðana né kynhneigðar. Þess vegna væri framundan að leggja fram frumvarp um aukin réttindi samkynhneigðra. Halldór tók fram í ræðu sinni að ríkisstjórnin leggði áherslu á stöðugleika í efnahagsmálum og sagði m.a. að fyrir dyrum stæði tugmilljarða uppgreiðsla erlendra skulda ríkissjóðs vegna sölu Símans. Afgangurinn yrði að mestu ávaxtaður í Seðlabanka Íslands þar til honum verður ráðstafað frá og með árinu 2007. Þetta myndi skila ríkissjóði umtalsverðum vaxtatekjum og komi í veg fyrir þensluáhrif á sama tíma og stóriðjuframkvæmdirnar eru í hámarki. Sagði Halldór að menn ættu að fara varlega í að fjármagna neysluútgjöld sín með lántökum eins og borið hefði upp að undanförnu. Sagði hann að alltaf færi best á að menn kynnu sér hóf. Síðar í ræðu sinni varð Halldóri að orði að mikilvægt væri að huga að frekari nýtingu orkulinda okkar, þar sem jafnframt verði tekið fullt tillit til umhverfisþátta. Sagðist hann sannfærður um að sú stefna myndi nú sem áður styrkja stoðir atvinnulífs.
Geir H. Haarde utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, flutti afbragðsgóða ræðu við stefnuræðuna. Hann sagði að að stjórnmálin snerust um grundvallarviðhorf og mismunandi viðhorf einstaklinga til þeirra. Hann fjallaði um brotthvarf Davíðs úr stjórnmálum og fór yfir málefni þingvetrarins. Líflegar umræður urðu um ræðu forsætisráðherra og má segja að formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafi reynt í máli sínu að ala á neikvæðni og svartagallsrausi í takt við það sem venjulegast sést til þeirra. Eins og allir sjá sem kynna sér umræðurnar reyndi andstaðan að mála vegginn eins svartan og mögulegt var meðan að stjórnarsinnar lýstu jákvæðri stöðu mála. Er svosem varla furða að stjórnarandstaðan sé vandræðaleg í upphafi þingvetrar í ljósi nýlegrar skoðanakönnunar Gallups sem sýndi stjórnarflokkana með nokkuð drjúgan meirihluta á bakvið sig. Steingrímur J. virkaði á mig sem æsingamikill öfgapredikari en hann er vissulega ansi fyndinn þegar hann fer í ofsapredikaragírinn sinn. Ræður auk Geirs af hálfu Sjálfstæðisflokksins fluttu Ásta Möller alþingismaður, sem nýverið hefur tekið sæti á þingi að nýju eftir að Davíð Oddsson lét af þingmennsku, og Halldór Blöndal formaður utanríkismálanefndar og fyrrum forseti Alþingis. Halldór fór á kostum og sló niður gagnrýni Ágústs Ólafs og Steingríms J. í kaf með góðum bröndurum.
Í heildina var um að ræða athyglisverðar umræður, gagnlegar þeim sem hafa áhuga á stjórnmálum og málefnum samtímans. Það er alltaf gaman af umræðum um stjórnmál og pólitísk málefni, málefnaleg skoðanaskipti um málin. En mér fannst fjarvera Davíðs Oddssonar eiginlega æpandi. Mikið innilega er stjórnmálalitrófið og pólitíska landslagið breytt við brotthvarf hans. Það er enda ekki fjarri því að það hafi verið áberandi hversu stjórnarandstaðan á erfitt með að fóta sig nú þegar að Davíð er farinn úr stjórnmálum.
Kosið verður um sameiningu níu sveitarfélaga hér í Eyjafirði á laugardaginn. Hefur utankjörfundarkosning staðið nú í nokkrar vikur. Hefur umræða um sameininguna og málefni tengd henni verið áberandi seinustu vikurnar. Fréttavefirnir hér í firðinum hafa fjallað mjög um málin. Fátt hefur meira verið rætt í kaffispjalli Jóns og Gunnu í firðinum en kostir og gallar málsins. Sitt sýnist hverjum - eins og ávallt í stjórnmálaumræðu. Seinustu vikurnar hafa verið kynningarfundir um málið og farið yfir ólíkar hliðar þess. Í gærkvöldi var kynningarfundur í Ketilhúsinu og sameiningarmálefni þar til umræðu - var það seinasti kynningarfundurinn. Heldur þótti mér mæting á hann dræm, enda mikilvægt málefni, en þeir sem mættu fengu góða kynningu á málinu. Ennfremur hefur verið gefinn út ítarlegur kynningarbæklingur um málið. Hef ég kynnt mér vel tillögur vinnuhópanna í þeim fjórum málaflokkum sem lagt var upp með. Er það að mörgu leyti mjög athyglisverð lesning. Hef ég tekið afstöðu til málsins fyrir nokkru - en ætla að halda því fyrir mig hvað ég ætla að gera. Held ég þó að þeir sem þekkja mig viti hvað ég hafi í hyggju. Eftir stendur að þetta er stórt málefni og fróðlegt að sjá hvaða viðtökur málið fær hjá kjósendum á laugardaginn. Merkilegast að sjá hvort þetta sameiningarferli með valdboði verði árangursríkara en það sem var fyrir tólf árum.
Í dag skrifar Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður sameiningarnefndar, um málið. Þar segir Sigrún Björk svo: "Stórt og öflugt sveitarfélag er betur í stakk búið til að taka við auknum verkefnum t.d. rekstur heilsugæslunnar, rekstur flugvallar, málefnum fatlaðra o.s.frv. Í tillögum sem fulltrúar ríkisins setttu fram sl.vetur er lagt til að verkefnaskipting á milli ríkis og sveitarfélaga fari úr því að vera eins og er í dag 70% ríki og 30% sveitarfélög, í mun jafnari skiptingu og að hlutur sveitarfélaganna í þjónustu við þegnanna aukist til muna. Sveitarfélögin geta ekki tekið við þessum verkefnum og annast þessa þjónustu nema stækka og eflast. Þetta er lykilatriði í þessu verkefni og það er tilgangurinn með þessu átaki á landsvísu að við munum horfa á breytingar á þjónustu við þegnana, þ.e. að ákvarðanir færist heim í hérað. Ég lít svo á að þessar kosningar snúist um traust - traust Eyfirðinga til hvers annars í að standa saman til að efla svæðið sem eina heild. Ef það er ekki fyrir hendi þá er betra heima setið en af stað farið." Vel skrifað - góð grein sem er gott sjónarhorn á málið. En ég hvet fyrst og fremst alla til að kjósa. Látum ekki dræma kjörsókn vera aðalfrétt þessarar kosningar - við eigum að kjósa og taka afstöðu - burtséð frá því hvort við segjum já eða nei. Við verðum að taka afstöðu!
Sú ákvörðun George W. Bush forseta Bandaríkjanna, um að skipa hina sextugu Harriet Miers sem dómara við hæstarétt Bandaríkjanna í stað Söndru Day O'Connor, mælist vel fyrir vestanhafs. Pólitískir fréttaskýrendur hafa almennt hrósað forsetanum og segja hann hafa leyst flókið mál óaðfinnanlega. Eru flestir sérfræðingar í málefnum hæstaréttar Bandaríkjanna sammála um það að skipan Miers verði samþykkt nokkuð fljótlega. Eru allavega mjög fáir á þeirri skoðun að vandræði verði í staðfestingarferlinu sem framundan er. Lykillinn að farsælli niðurstöðu varðandi valið á Miers er auðvitað það að hún er kona og ekki síður ekki með reynslu sem dómari. Það er því algjörlega ljóst að hún hefur litlar sem engar beinagrindur í skápnum sem hægt verður að slengja á hana í staðfestingarferlinu. Demókratar sem gírað höfðu sig fyrir hvassyrta og mikla baráttu eru frekar vandræðalegir nú, enda verður lítið um baráttu að óbreyttu. Var greinilegt að leiðtogar flokksins í þinginu höfðu talið að Bush myndi sverfa til stáls og skipa fasttryggan íhaldsmann til setu og manneskju með afgerandi sjónarmið eftir dómarasetu. Svo varð ekki. Niðurstaðan er því miðaldra og settleg kona, afburðalögfræðingur, með mikla reynslu af lögum og lagabókstaf en með enga dómarasetu að baki.
Ef þetta er ekki eitt hið mesta snilldarPR í bandarískri pólitík lengi þá veit ég ekki hvað það er. Allavega hefur Bush leyst vandann við tvær lausar dómarastöður óaðfinnanlega með því að velja Roberts og Miers. Ferill þeirra er þannig að þau eru óumdeild að mestu leyti. Það er allavega ljóst að demókratar munu fá mjög fá hörð skotfæri á þessa skipan mála og valið á Miers. Annars vil ég að auki þakka þeim sem hafa kommentað á skrif mín um hæstarétt Bandaríkjanna. Mjög (og þá meina ég mjög) lengi hef ég haft áhuga á réttinum og frá því ég var unglingur hef ég lesið bækur um sögu hans og kynnt mér vel næstum því öll smáatriði um hann. Við þessar breytingar sem orðið hafa seinustu vikurnar við tvö laus dómarasæti hef ég svo skrifað mikið um málið og farið yfir. Mat ég mikils að heyra í Davíð Stefánssyni fyrrum formanni SUS og einum af forverum mínum á formannsstóli Varðar, er hann hafði samband við mig og sagði að ég væri einn fárra hér á landi sem bæði nennti og hefði áhuga á að skrifa af viti um málefni hæstaréttar Bandaríkjanna. Þakka ég Davíð fyrir kommentið og áhugann á skrifunum. Þau halda áfram af krafti. :)
Horfði í gærkvöldi á eðalmyndina Jackie Brown. Myndin, sem byggð er á einni af sögum Elmore Leonard, segir frá flugfreyjunni Jackie Brown sem drýgt hefur tekjurnar með því að smygla peningum inn í landið fyrir vopnasalann Ordell Robbie. Dag einn er hún staðin að verki á flugvellinum og handtekin. Þeir sem hafa málið á sinni könnu, lögreglumaðurinn Mark Dargus og vopnaeftirlitsmaðurinn Ray Nicolet, bjóða henni tvo kosti: annaðhvort hjálpar hún þeim að fletta ofan af Ordell eða hún fær langtíma gistingu á bak við rimlana. Með aðstoð aðdáanda síns og hjálparhellu, Max Cherry, tekst Jackie að leggja fram tryggingu fyrir frelsi sínu, ákveðin í að velja þriðju leiðina út úr vandræðunum. Hún hefur engan áhuga á að fara í fangelsi og veit hvað verður um þá sem dirfast að svíkja Ordell. Hún tekur því þá ákvörðun að skjóta bæði Ordell og hjálparkokkum hans, þeim Louis og Melanie, og lögreglunni, ref fyrir rass, etja þeim saman á slyngan hátt og stinga síðan sjálf undan með ávinninginn, hálfa milljón dollara í beinhörðum peningum! Myndin skartar úrvalshópi leikara: Robert De Niro, Samuel L. Jackson og Michael Keaton - senuþjófarnir eru Robert Forster í hlutverki Max og Pam Grier, sem fer á kostum í hlutverki ferils síns, hinnar úrræðagóðu Jackie. Frábær spennumynd fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur.
Eins og flestir tóku eftir svaraði ég í síðustu viku áskorun félaga míns, Friðbjörns Orra Ketilssonar. Hann semsagt klukkaði mig - ég svaraði um hæl og benti á þrjá bloggara sem mér datt í hug. Einn þeirra var góðvinur minn og Vestfirðingurinn Gylfi Ólafsson, sem er í háskólanámi hér á Akureyri. Hann er hress og fínn og hefur nú tekið áskoruninni. Bendi lesendum á að líta á svar hans sem er á vefnum hans. Takk fyrir að taka áskoruninni Gylfi.
Punktarnir
- hvað er þetta með frjálslynda? Ég bara spyr. Einn er í kjöri í embætti og þeir finna að því að geta ekki sagt nei. Hvað er málið - annaðhvort segja menn já við þeim sem er einn í kjöri eða menn sitja hjá (skila auðu). Þetta er svo fáránlegt rugl hjá frjálslyndum að menn skilja hvorki upp né niður. Er svosem ekkert nýtt með menn á þeim bænum. Þetta er greinilega enn eitt PR-ið til að komast í fjölmiðla með sama gamla innihaldslausa þvaðrið!
- ennfremur vil ég benda á pistil minn um 38. sambandsþing SUS, sem haldið var í Stykkishólmi um helgina. Fer ég yfir það með mínum hætti - fátt svosem um það að segja. Þið lesið pistilinn sem áhuga hafið. Að auki má þess geta að þetta er hundraðasti pistillinn sem ég rita á árinu 2005 - en það er svosem aukaatriði málsins. Efni pistilsins er mikilvægara.
- lítið endilega á þennan hreint afbragðsgóða pistil Össurar eðalbloggara og kratahöfðingja í RN - þarna ritar hann um kanínupælingar og gambramenningu Frjálslynda flokksins. Gott hjá Össuri - kaldhæðnin skín alveg í gegn og þetta er alveg mergjaður húmor sem þarna sést. Eðalskrif - lítið á þau!
- alveg að blálokum lesendur góðir! Spaugstofan var alveg brilljant á laugardaginn - þvílíkir snillingar fimmmenningarnir eru. Besti þáttur þeirra í mörg herrans ár. Ekki eitt einasta atriði flatt og hlátur tryggður út í gegn. Pjúrasnilld!
Saga dagsins
1946 Alþingi samþykkti Keflavíkursamninginn. Hann fjallaði að mestu um afnot Bandaríkjanna af Keflavíkurflugvelli. Harðar deilur urðu og leiddi hann loks til stjórnarslita í nýsköpunarstjórninni.
1962 Hljómsveitin The Beatles gaf út fyrsta lag sitt, Love Me Do - hljómsveitin starfaði allt til ársins 1970 og markaði mikil þáttaskil í tónlistarmenningu um allan heim með tónlist sinni og nýjum takti.
1974 Fimm látast í sprengjutilræði IRA í Guildford á N-Írlandi - fernt var handtekið vegna málsins og þau dæmd í fangelsi fyrir aðild sína að málinu. 1989 var sakleysi þeirra staðfest og þau látin laus.
1991 Blönduvirkjun var formlega tekin í notkun af Vigdísi Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands.
2000 Víkingaskipið Íslendingur kom til hafnar í New York, en það hafði siglt frá Íslandi í júnímánuði.
Snjallyrðið
Vegir liggja til allra átta
enginn ræður för,
hugur leitar hljóðra nátta
er hlógu orð á vör
og laufsins græna á garðsins trjám
og gleðiþyts í blænum.
Þá voru hjörtun heit og ör
og hamingja í okkar bænum.
Vegir liggja til allra átta
á þeim verða skil,
margra er þrautin þungra nátta
að þjást og finna til
og bíða þess að birti á ný
og bleikur morgunn rísi.
Nú strýkur blærinn stafn og þil
stynjandi í garðsins hrísi.
Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur (1926-2000) (Vegir liggja til allra átta)
Táknrænt og gott ljóð - varð ódauðlegt í undurfögrum búningi Ellýjar Vilhjálms, sem að mínu mati var besta dægurlagasöngkona Íslands á 20. öld. Hiklaust eitt af fallegustu dægurlögum 20. aldarinnar.
<< Heim