Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 nóvember 2005

Tony Blair

Það er alveg óhætt að fullyrða það að mikil þáttaskil hafi orðið á stjórnmálaferli Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, í gær. Eftir að hafa setið nær ósigraður á forsætisráðherraferli í rúm átta ár kom að því sem margir höfðu beðið eftir að gerast myndi á kjörtímabilinu en fáir höfðu talið að myndi gerast svo skömmu eftir þingkosningarnar í vor þar sem þingmeirihluti Verkamannaflokksins rýrnaði verulega. Hann beið þá í fyrsta skipti á valdaferlinum ósigur í atkvæðagreiðslu í breska þinginu. Tekist var í atkvæðagreiðslu þar á um lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar um hryðjuverkavarnir. Var einkum deilt þar um ákvæði þess efnis að halda mætti mönnum í allt að 90 daga í stað 14 í gæsluvarðhaldi án formlegrar ákæru væru þeir grunaðir um hryðjuverkastarfsemi. Svo fór að 322 þingmenn greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en 291 með því. Munurinn varð mun meiri en mörgum óraði fyrir. Blair ákvað fyrr í vikunni að semja ekki við uppreisnarliðið í Verkamannaflokknum sem hefur verið órólegast vegna forystu forsætisráðherrans frá því í deilunum vegna Íraksstríðsins og ákvað að kosið skyldi um 90 dagana.

Í ítarlegum pistli á vef SUS í dag fer ég yfir málið. Fer yfir helstu punktana. Eins og gefur að skilja lagði forsætisráðherrann nokkuð undir og ákvað að kjósa skyldi um tillöguna eins og hann vildi að hún væri. Allt var dregið fram til að verjast í stöðunni. Blair kallaði heim ráðherrana Jack Straw og Gordon Brown úr starfsferðum sínum til Moskvu og Tel Aviv. Brown var nýkominn til Ísraels og hélt um leið heim með flugi og mætti með hraða í þingsalinn í London. Sama gerðist í tilfelli Straw. Einn þingmaður Verkamannaflokksins sem var að jafna sig eftir hjartaaðgerð nýlega var kallaður til atkvæðagreiðslunnar. Allt kom fyrir ekki. Niðurstaðan er sláandi fyrir forsætisráðherrann - hann lagði mikið undir og setti málið í dóm þingmanna. Hann tapaði - að því er sumir segja ægivaldinu sínu. Í þau átta ár sem Blair hefur verið forsætisráðherra gat hann lengst af farið sínu fram í ljósi gríðarlega öflugs þingmeirihluta og þurfti ekki í raun að taka tillit til vinstrisinnaðasta arms flokksins. Það breyttist með úrslitum þingkosninganna í maí, þegar að þingmeirihluti flokksins rýrnaði, fór úr 160 niður í tæp 70.

Tony Blair

Hann hefur síðan orðið að spila fleiri millileiki og venjast því að vera með brothættari meirihluta sem gæti leitt til þess að vissir þingmenn verði honum óþægur ljár í þúfu og leiki meiri sóló - staðan verði óútreiknanlegri og um leið auðvitað erfiðari viðfangs. Hann hefur hinsvegar ekki farið alltaf eftir þessum óútreiknanlega hópi sem hefur nú í raun örlög hans í gíslingu og getur sett hann í klemmu hvenær sem er. Blair er að margra mati leiðtogi með hugsunarhátt ljónsins. Hann hefur lagt í vana sinn að gefast ekki upp og berjast meðan hann getur staðið í lappirnar. Í þessu tilfelli var lagt nokkuð undir - og tapið er áberandi. Það er mjög merkilegt að nærvera Brown, sem litið er á sem hinn sjálfgefna eftirmann Blair, í þinginu hafði ekkert að segja fyrir forsætisráðherrann. Tapið varð ekki umflúið. Það blasir við flestum sem þekkja til breskra stjórnmála og hafa kynnt sér litríkan stjórnmálaferil Tony Blair, sem ríkt hefur nú í tæpan áratug, að sæludagar hans sem öflugs leiðtoga flokks og þjóðar séu taldir.

Það var merkilegt að sjá viðbrögð forsætisráðherrans við tapinu þar sem hann var í þingsalnum. Hann leit með alvörusvip til hliðar og hristi höfuðið með ákveðnum hætti. Sennilega hefur hann hugleitt þá hvert hann er kominn á valdaferlinum - hvernig hann gæti haldið áfram með trúverðugum hætti eftir fyrsta tap sitt í þinginu. Tapið er mjög niðurlægjandi og skaðandi fyrir pólitíska forystu hans. Niðurstaðan var jú beisk - einkum og sér í lagi í ljósi þess að 49 þingmenn Verkamannaflokksins kusu gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það er því varla undrunarefni að Blair hafi hugleitt þetta áberandi tap sitt - en eins og fyrr segir studdu 20% þingmanna flokksins ekki frumvarp eigin flokks. Niðurstaðan er ósköp einföld. Umboð Tony Blair sem forsætisráðherra og leiðtoga Verkamannaflokksins er stórlega skaddað - ægivald hans á breskum stjórnmálum og umfram allt eigin flokki hefur beðið verulegan hnekki.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, mælti fyrir fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2006 við fyrri umræðu í bæjarstjórn Akureyrar á þriðjudag. Var þetta nítjánda fjárhagsáætlunin sem Kristján Þór leggur fram á ferli sínum sem forystumaður sveitarfélags. Kristján Þór var bæjarstjóri á Dalvík í 8 ár, á Ísafirði í 3 ár og hefur verið bæjarstjóri á Akureyri í rúmlega 7 ár. Hans reynsla er því mikil í sveitarstjórnarmálum og nítjánda fjárhagsáætlunin á ferli hans blasir við. Það er ánægjulegt að kynna sér stöðu Akureyrarbæjar og athyglisvert að sjá hversu litlar umræður voru um áætlunina í bæjarstjórn á þriðjudag. Fáir tóku þar til máls. Væntanlega verða umræður líflegri við seinni umræðu, en það er mjög merkilegt að sjá hversu bæjarstjórnarminnihlutinn hér í bæ hefur lítið um málin að segja. Enda er það vart óeðlilegt sé litið á grunntölur fjárhagsáætlunarinnar. Heildartekjur Akureyrarbæjar verða tæpir 10,7 milljarðar króna en heildargjöld rétt um 10,3 milljarðar skv. samstæðureikningi og rekstarafgangur því tæpar 400 milljónir króna. Veltufjárhlutfall samstæðureiknings er 1,03 og eiginfjárhlutfall er 0,36 %. Fjárhagsstaða bæjarins verður því að teljast mjög sterk.

Fjárhagsáætlun ársins 2006 gerir áfram ráð fyrir miklum fjárfestingum í grunngerð samfélagsins og er það í samræmi við málefnasamning meirihlutaflokkanna. Samkvæmt framkvæmdayfirliti Akureyrarbæjar eru framkvæmdir A-hluta tæpir 1,2 milljarðar. Þar af eru 208 milljónir vegna félags og öldrunar-þjónustu, 264 milljónir vegna fræðslu- og uppeldismála, 184 milljónir vegna menningarmála og 234 milljónir vegna æskulýðs- og íþróttamála. Í B-hluta eru 445 milljónir áætlaðar til framkvæmda og munar þar mestu um framkvæmdir á vegum Norðurorku fyrir 155 milljónir og Fráveitu Akureyrar-bæjar fyrir 171 milljónir og Hafnarsamlags Norðurlands fyrir 82 milljónir króna. Skatttekjur aðalsjóðs eru áætlaðar um 5 milljarðar króna og aðrar tekjur Akureyrarbæjar eru tæpir 5,8 milljarðar skv. samstæðureikningi. Þannig að við blasir góð staða - sterk staða sem við í meirihlutanum getum verið stolt af, nú þegar styttist í kosningar. Ég hvet alla lesendur til að kynna sér fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2006.

John Lennon

Horfði á upptöku af stuttum bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi. Að því loknu horfði ég á kvikmyndina Gandhi. Sannkallaður kvikmyndarisi sem greinir frá lífi og starfi Mahatma Gandhi og stjórnmálaþróuninni á Indlandi fyrir og eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna 1948. Rakinn er ferill þessarar frelsishetju Indverja allt frá því að hann byrjar stjórnmálaþáttöku sína, fátækur lögfræðingur í Afríku, og allt þar til að hann verður alþjóðleg friðarhetja fyrir mannúðarskoðanir sínar og friðsamar mótmælaaðferðir allt þar til fullnaðarsigur vinnst. Ben Kingsley fer á kostum í hlutverki frelsishetjunnar og er ótrúlega líkur fyrirmyndinni og er einstaklega heillandi í persónusköpun sinni, hann fékk enda óskarsverðlaunin fyrir sannkallaðan leiksigur sinn, hann hefur aldrei leikið betur á ferli sínum.

Kvikmyndin hreppti alls níu óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmyndin og einnig fyrir einstaklega góða óskarsverðlaunaleikstjórn breska leikstjórans Richards Attenborough, fyrir hið stórkostlega handrit sem vakti mikla athygli, fyrir einstaklega vandaða búninga og stórkostlega myndatöku. Þetta er íburðarmikil og einstaklega vönduð kvikmyndaframleiðsla með mörgum mjög stórbrotnum hópsenum sem veita mikla og heillandi innsýn í merkilega tíma í lífi indversku þjóðarinnar, en líka smærri, ljóðrænni myndir sem gefa ekki síst dýrmæta og fágæta innsýn í líf hins stórmerkilega indverska kennimanns sem féll fyrir morðingjahendi 30. janúar 1948, skömmu áður en draumur hans um sjálfstætt Indland rættist loks. Stórbrotin mynd, verðið endilega að sjá hana ef þið hafið ekki gert það nú þegar.

Skopmynd Martin Rowson af Tony Blair

Í dag er endað á því sama og byrjað var á, aldrei þessu vant. Allir sjá eftir atburði gærdagsins að pólitísk staða Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, hefur veikst verulega. Alltaf er hægt að sjá spaugilegar hliðar á pólitíkinni - fyrir okkur hægrimenn er allavega auðvelt að sjá grínið í vandræðum Blair Að mínu mati eru skopmyndateiknarar Guardian, þeir Steve Bell og Martin Rowson, algjörir snillingar. Í vikunni birti Guardian flotta og táknræna mynd eftir Rowson sem sýnir hinn fyrrum sigursæla leiðtoga breskra krata í skondnu ljósi - nú þegar pólitískt veldi hans er tekið að veslast mjög upp - eftir tæplega áratug við völd.

Saga gærdagsins
1932 Gúttóslagurinn - átök urðu í Reykjavík þegar bæjarstjórnin hélt fund í Góðtemplarahúsinu og fjallaði um lækkun launa í atvinnubótavinnu. Útkoman varð eftirminnilegasta vinnudeila hérlendis.
1960 John Fitzgerald Kennedy kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann vann nauman sigur á Richard Nixon varaforseta, einungis munaði 0,2% á þeim en munurinn í kjörmannasamkundunni varð meira afgerandi. Kennedy varð yngsti forseti landsins, aðeins 43 ára, og fyrsti kaþólikkinn sem settist á forsetastól - Kennedy var forseti í rúmlega 1000 daga. Hann var myrtur í Texas 22. nóvember 1963.
1988 George H. W. Bush kjörinn forseti Bandaríkjanna - vann yfirburðasigur á Michael Dukakis ríkisstjóra í Massachusetts. Bush hafði verið varaforseti Ronald Reagan í átta ár. Bush varð fyrsti varaforseti landsins frá 1836 til að vinna forsetakosningar í Bandaríkjunum. Hann leiddi Bandamenn í gegnum Persaflóastríðið árið 1991. Bush forseti, tapaði í forsetakosningunum árið 1992, fyrir Bill Clinton. Sonur Bush forseta, George Walker Bush yngri, var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2000.
1989 Berlínarmúrinn fellur - stjórnvöld í A-Þýskalandi leyfa þá íbúum landsins að ferðast yfir til V-Þýskalands í fyrsta skipti í þau 28 ár sem múrinn hafði staðið. Þessi ákvörðun táknaði í raun endalok múrsins og almenningur fór með sleggjur og hamra og byrjuðu að brjóta múrinn niður. Síðar var komið með stórvirkar vinnuvélar og múrinn, sem haldið hafði íbúum A-Þýskalands í gíslingu og örbirgð í fjölda ára, var loksins felldur. Atburðarásin leiddi til þess að A- og V-Þýskaland voru sameinuð 1990.
2004 Þórólfur Árnason biðst lausnar frá embætti borgarstjóra, vegna þátttöku sinnar í samráðsmáli olíufélaganna - Þórólfur sem verið hafði markaðsstjóri ESSO 1993-1996 flæktist inn í miðpunkt þess í skýrslu Samkeppnisstofnunar. Hann missti trúnað og traust samherja sinna innan meirihluta R-listans í borgarstjórn og varð að segja af sér. Hann hafði þá gegnt embætti borgarstjóra í tæpa 22 mánuði.

Saga dagsins
1949 Þjórsárbrú vígð - brúin þótti mikið samgöngumannvirki og marka þáttaskil í samgöngumálum.
1967 Strákagöng voru formlega tekin í notkun - þau voru þá lengstu veggöngin, um 800 metrar. Göngin voru mikil samgöngubót, endu komust íbúar Siglufjarðar þá loks í vegasamband allt árið.
1970 Charles De Gaulle fyrrum forseti Frakklands, lést á heimili sínu í Colombey-les-deux-Églises,
79 ára að aldri. De Gaulle var einn af helstu stjórnmálamönnum Frakka á 20. öld, og forystumaður landsins í seinna stríðinu. Hann var forsætisráðherra landsins 1958-1959 og loks forseti 1959-1969.
1982 Leonid Brezhnev Sovétleiðtogi, deyr, 76 ára að aldri - hann hafði lengi barist við veikindi.
1996 Sighvatur Björgvinsson kjörinn formaður Alþýðuflokksins í stað Jóns Baldvins Hannibalssonar. Sighvatur sigraði Guðmund Árna Stefánsson þáverandi varaformann flokksins, í formannskjörinu. Alþýðuflokkurinn varð hluti af nýjum flokki, Samfylkingunni, 2000. Flokkurinn er þó enn formlega til.

Snjallyrðið
Never look down to test the ground before taking your next step; only he who keeps his eye fixed on the far horizon will find the right road.
Dag Hammarskjöld framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (1905-1961)