Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 nóvember 2005

Ráðhúsið

Ef marka má nýja skoðanakönnun Gallups hlyti Sjálfstæðisflokkurinn 57,5% atkvæða og 9 borgarfulltrúa kjörna ef kosið væri til borgarstjórnar nú. Hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki mælst hærri í skoðanakönnunum í borgarmálum síðan í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra og fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins. Í síðustu könnun Gallups á fylgi flokkanna í borginni mældist flokkurinn í fyrsta skipti í einn og hálfan áratug með meira en 55% fylgi. Ef þetta yrðu úrslit kosninga yrðu þetta fjórðu bestu kosningaúrslit Sjálfstæðisflokksins í sögu hans. Aðeins árin 1958, 1974 og 1990 hefur flokkurinn hlotið meira en 55% fylgi. Stærsti kosningasigur Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum var fyrir fimmtán árum er Davíð Oddsson leiddi flokkinn, sem borgarstjóri í sínum þriðju og síðustu kosningum, til afgerandi sigurs, er hann hlaut rúm 60% atkvæða og tíu borgarfulltrúa kjörna. Það blandast engum hugur um það sem lítur á þessa könnun og hina síðustu að vatnaskil hafa átt sér stað í borgarmálunum. Vinstrimeirihlutinn í borgarstjórn er enda samkvæmt þessum tölum kolfallinn og víðsfjarri því að eiga möguleika á að halda sínu, með sex borgarfulltrúa inni. Reyndar vantar sáralítið á að tíundi maður Sjálfstæðisflokksins sé inni á kostnað fjórða manns Samfylkingarinnar.

Skv. könnuninni hefur Samfylkingin 24,8% og 4 borgarfulltrúa og VG hefur 11,4% og 2 borgarfulltrúa. Lífakkeri hins steindauða R-lista, Framsóknarflokkurinn, er heillum horfinn með fyrrum heillagrip R-listans, Alfreð Þorsteinsson í forystu og mælist með rúm fjögur prósent. Frjálslyndir hafa tæp 2%. Hvorki Framsóknarflokkurinn né Frjálslyndir fengju kjörinn borgarfulltrúa. Reyndar hefur Framsóknarflokkurinn stækkað um tvö prósentustig milli kannana. Þessi könnun er nokkuð öflug - staðan er allavega algjörlega ljós í könnuninni. Sjálfstæðisflokkurinn er í gríðarlegri sókn en vinstriflokkarnir eru í algjörum sárum. Sú augljósa staðreynd kemur fram í könnuninni að borgarbúar eru algjörlega búnir að fá nóg af stjórn vinstriaflanna sem unnu saman í rúman áratug undir merkjum R-listans, sem nú hefur liðið undir lok. Fólk vill breytingar - uppstokkun á stöðu mála. Það er ekkert undrunarefni þegar litið er á "afrek" valdaferils R-listans. Það blandast allavega engum hugur sem sér þessa könnun að borgarbúar eru að kalla á breytingar við stjórn borgarinnar. Þessi könnun og hin seinasta markar þá stöðu að breytingar eru í nánd - kjósendur vilja stokka upp stöðuna og skipta um valdhafa í borginni. Skal heldur engan undra.

Merkilegast af öllu er að heyra komment þeirra sem leitt hafa flokkana sem myndað hafa R-listann. Þau hafa jafnan verið glaðhlakkaleg en eru vandræðaleg nú. Kostulegastur er Alfreð Þorsteinsson sem sagði varðandi könnunina að kosningabaráttan væri ekki hafin að fullu. Þetta er vandræðalegt komment - enda er baráttan um borgina þegar hafin og prófkjör þegar að baki hjá VG og um helgina munu sjálfstæðismenn velja sér leiðtoga í kosningunum og frambjóðendur í efstu sæti framboðslistans. Þeir sem segja að slagurinn sé ekki hafinn eru þeir sem þora ekki að hefja slaginn væntanlega. Verkin eftir R-listann eru nú dæmd eftir tólf ára valdaferil í þessari skoðanakönnun sem mælir stöðuna og landslagið nú alveg afdráttarlaust. Borgarbúar hafa fengið nóg af vinstristjórninni í borginni og vilja skipta um forystu. Það undrast fáir, það þýðir ekki fyrir vinstriöflin að flýja R-listann til að reyna að halda völdum. Það stoðar lítið. Forysta R-listans í þrjú kjörtímabil skilur eftir sig næg verkefni og fjölda úrlausnarefna, sem brýnt er að takast á við. Þeir sem kynna sér lykilmálefni borgarinnar sjá ókláruð verkefni - áskoranir um að gera betur og taka af skarið. Gott dæmi um það eru skipulagsmálin.

En þessi könnun sýnir okkur þáttaskil í borgarmálunum - nýtt landslag. Nú er brýnt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vinna af krafti - og vinna þessar kosningar með miklum glæsibrag. Fyrst er að klára prófkjörið þar - að því loknu hefur leiðtogi framboðslistans beint umboð flokksmanna til að leiða og taka svo við borgarstjórastólnum eftir kosningasigurinn í vor. Verður athyglisvert að sjá úrslitin í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna, en það fer fram á föstudag og laugardag, en fyrstu tölur munu liggja fyrir á sjöunda tímanum að kvöldi laugardags. Spennan er mikil vegna prófkjörsins - enda eftir miklu að keppa. Ef marka má fyrrnefnda könnun eru sjálfstæðismenn í mikilli sókn og mælast með afgerandi meirihluta í seinustu tveim könnunum - með níunda mann vel tryggan inni en þann tíunda í sjónmáli. Af því leiðir að sá sem sigrar prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um helgina verður næsti borgarstjóri í Reykjavík, ef marka má þessar kannanir. Það er varla furða að tekist sé á um þann sess, það er eftir miklu að sækjast ef marka má kannanir og þetta nýja pólitíska landslag sem blasir við í borginni eftir endalok R-listans.

David Blunkett

Pólitísk staða David Blunkett atvinnu- og lífeyrismálaráðherra Bretlands, þykir verulega óljós þessa dagana. Hann hefur blandast í vandræðaleg mál og þykir hafa misst trúverðugleika vegna þeirra. Um er að ræða að hann braut siðareglur ráðherra með því að taka að sér ráðgjafastarf fyrir rannsóknarfyrirtæki áður en hann tók við ráðherraembættinu. Fyrirtækið er nú að undirbúa tilboð í verk fyrir breska ríkið - hálfu verra er að Blunkett átti hlut í fyrirtækinu og því um augljósa hagsmunaárekstra að ræða. Þrátt fyrir að hann hafi verið aðvaraður þrisvar vegna málsins brást hann ekki við með því að selja hlutinn fyrr en fjölmiðlar komust í málið og umræðan varð honum skaðleg þess vegna. Blunkett hefur verið atvinnu- og lífeyrismálaráðherra Bretlands síðan í maí. Hann var skipaður í embættið eftir þingkosningarnar í vor. Blunkett hefur setið á breska þinginu frá árinu 1987. Aðeins er ár síðan að Blunkett varð að segja af sér ráðherraembætti í bresku ríkisstjórninni. 15. desember 2004 sagði hann af sér embætti innanríkisráðherra Bretlands vegna annars hneykslismáls. Hann misnotaði aðstöðu sína í ráðuneytinu til að aðstoða fyrrum ástkonu sína við að tryggja dvalarleyfi í landinu fyrir filippíska þjónustustúlku ástkonunnar hans og hlyti hraða afgreiðslu.

Þótti afsögn Blunketts fyrir tæpu ári mikið reiðarslag fyrir Tony Blair forsætisráðherra, sem hafði allt frá sigri sínum í leiðtogakjörinu í Verkamannaflokknum árið 1994 talið hann til sinna nánustu samherja. Blunkett var með valdameiri ráðherrum stjórnar Blairs allt frá valdatöku hans 1997. Einn sterkasti hlekkur hans í stjórninn brast því í fyrra - en hann fékk séns aftur eftir kosningarnar í maí og öflugt ráðherrasæti. Gegnum þykkt og þunnt hefur Blunkett varið Blair í vandræðum vegna Íraksmálsins og tengdra þátta á seinustu árum. Blair hefur endurgoldið þann stuðning - hann varði hann af krafti í vandræðunum í fyrra, þar til honum varð ekki viðbjargandi og hefur varið hann með krafti í þessu máli sem fyrr er nefnt og er nú aðalumræðuefnið í breskri pólitík. Blunkett, sem er blindur, hefur ekki ljáð máls á því að víkja úr ráðherrasætinu og þaðan af síður að hann hafi gert eitthvað rangt. Þykir mörgum Bretum sem kuldaleg framkoma hans í stað auðmýktar vegna afglapa í starfi sé að verða honum banabiti á pólitískri vegferð. Skv. skoðanakönnunum í Bretlandi vill afgerandi meirihluti landsmanna að Blunkett segi af sér embættinu. Það bendir margt til þess að nýjustu fréttir um að Blunkett hafi brotið siðareglur ráðherra geri honum erfitt fyrir.

Það er hinsvegar ljóst að Blair vill halda sem lengst í hann - enda er þetta einn af hans nánustu pólitísku samstarfsmönnum. Blunkett hefur enda allt frá upphafi verið í öndvegi nánustu samstarfsmanna hans. Hann var menntamálaráðherra 1997-2001 og innanríkisráðherra 2001-2004 - sat allt þar til honum varð ekki bjargað. En hann fékk björgunarhring eftir kosningar og feitt embætti. Fari Blunkett mun staða hans sjálfs veikjast innan flokksins. Eins og allir vita rýrnaði meirihluti Verkamannaflokksins verulega í seinustu kosningum. Blair má því varla við miklum stóráföllum eins og afsögn Blunketts öðru sinni myndi óhjákvæmilega verða.

Taxi Driver

Kom seint heim í gærkvöldi eftir nokkra fundi. Það var kærkomið að tylla sér í hægindastólinn góða og horfa á góða úrvalsmynd. Ákvað ég að horfa á meistaraverkið Taxi Driver - sem er ein mesta snilld sem sést hefur á hvíta tjaldinu. Ófögur en sannarlega óviðjafnanleg úttekt meistarans Martin Scorsese á einmanaleika og stórborgarfirringu New York. Hér segir frá leigubílstjóranum Travis Bickle sem vinnur á næturnar sökum svefnleysis og verður vitni að ógeðfelldu næturlífi borgarinnar með öllum sínum hryllingi. Hann er einfari í eðli sínu og á mjög erfitt með að bland geði við annað fólk og er í raun kominn á ystu nöf. Hann kynnist Betsy, en þau eiga erfitt með að ná saman og slíta sambandinu. Er Travis kynnist Iris, hinni tólf ára gömlu vændiskonu, brestur eitthvað innra með honum og hann tekur miklum stakkaskiptum og verður fullsaddur á öllum ósómanum í borginni. Robert De Niro er hreinlega stórfenglegur í hlutverki Travis og vinnur þar stærsta og mikilvægasta leiksigur ferils síns. Senuþjófur myndarinnar er þó Jodie Foster sem fer þarna á kostum í sínu fyrsta alvöru kvikmyndahlutverki. Semsagt óviðjafnleg tímamótamynd sem er skemmtilega flókin á allan hátt. Rúsínan í pylsuendanum er svo tónlist meistara Bernard Herrmann. Sem ávallt fyrr er saxófónstefið fræga ómótstæðilegt. Það varð hans seinasta verk á löngum og glæsilegum ferli. Ógleymanlegt meistaraverk - sjáið það!

Dagur

Það er alveg virkilega gaman að fylgjast með eyfirsku fréttavefunum. Eru bæði akureyri.net og dagur.net öflugir og góðir vefir - kraftmiklar frétta- og upplýsingaveitur svæðisins á netinu. Fer ég oft á dag inn á báða vefi og fylgist vel með þeim. Eru þeir báðir að sinna nauðsynlegu hlutverki í að miðla fréttum og halda utan um greinaskrif á svæðinu og víðar. Frábærir vefir - sem eru orðnir fastur liður í vefrúnti dagsins hjá mér.

Saga dagsins
1894 Nikulás II verður keisari í Rússlandi - Nikulás var tekinn af lífi ásamt fjölskyldu sinni árið 1918.
1928 Brúin yfir Hvítá í Borgarfirði, hjá Ferjukoti, var vígð - brúin þótti mikið mannvirki á sínum tíma.
1984 Óeirðir brjótast út í Nýju-Delhi og einnig um allt Indland í kjölfar morðsins á Indiru Gandhi forsætisráðherra Indlands - sonur hennar, Rajiv, tók við völdum í landinu. Rajiv var myrtur 1991.
1990 Sir Geoffrey Howe aðstoðarforsætisráðherra Bretlands og einn af nánustu samstarfsmönnum Margaret Thatcher á löngum stjórnmálaferli hennar, segir af sér vegna ágreinings við Thatcher um Evrópumál. Howe var eini ráðherrann utan Thatcher sem setið hafði í stjórn hennar allt frá 1979 er hún varð fyrst forsætisráðherra. Afsögn hans og trúnaðarbresturinn við Thatcher veiktu mjög stöðu hennar og greiddu leiðina fyrir mótframboð - leiddi til falls hennar fyrir lok nóvembermánaðar 1990.
1999 Ísland í bítið, morgunsjónvarp Stöðvar 2 og Bylgjunnar, hóf útsendingar. Fyrstu umsjónarmenn þáttarins voru Guðrún Gunnarsdóttir og Snorri Már Skúlason. Um þáttinn sjá nú Heimir Karlsson og Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir. Ísland í bítið varð fyrsti morgunþátturinn í íslensku sjónvarpi.

Snjallyrðið
I think your whole life shows in your face and you should be proud of that.
Lauren Bacall leikkona (1924)