Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 október 2005

Áratugur frá snjóflóðinu á Flateyri

Flateyri

Í dag er áratugur liðinn frá snjóflóðinu mannskæða á Flateyri. Mikill harmur var kveðinn yfir öllum landsmönnum að morgni fimmtudagsins 26. október 1995, er þessar náttúruhamfarir riðu yfir. 20 manns létu lífið þar, þar af fjöldi barna og margir misstu þar allt sitt og sína nánustu ættingja. Það högg sem Vestfirðingar urðu fyrir á þeim degi og áður sama ár er snjóflóð féll í Súðavík snertu við allri þjóðinni. Íslendingar stóðu þá eins og jafnan á slíkum stundum saman í órjúfanlegri heild og mættu því sem að höndum bar með samhug í verki. Þessi kaldi fimmtudagur í októbermánuði fyrir áratug mun aldrei líða mér úr minni. Daginn áður og um nóttina hafði gengið yfir Norðurland sem og mestallt landið nöturlegt kuldaveður með blindbyl. Ég man vel eftir þessum morgni. Ég vaknaði við blindbyl og niðinn í óveðrinu hér á Akureyri um sexleytið um morguninn. Ófært var orðið um allan bæ og veðurofsinn enn þónokkur í upphafi þessa dags. Um sjöleytið um morguninn heyrði ég í útvarpinu frétt þar sem tilkynnt var í fyrsta skipti um snjóflóðið. Eftir því sem leið á morguninn urðu fréttir ítarlegri og umfang þessa skelfilega atburðar varð manni meira ljós. Það var dapurlegt að heyra fréttirnar berast og heyra meira um það sem gerst hafði.

Það var sannkallað áfall að heyra fyrstu fréttir af þessu snjóflóði þennan morgun og heyra nánari fréttir af gangi mála eftir því sem leið á daginn. Hugur minn og allra landsmanna var á Flateyri - hjá þeim sem höfðu misst allt sitt, bæði veraldlegar eigur sem og það sem mest er um vert í lífinu, ættingjar og vinir. Fréttir þessa tíma koma upp í huganum á þessum tímamótum - tíðarandinn og sorgin eru enn sterk í huga mínum, sem og eflaust flestra sem upplifðu þennan tíma. Um var að ræða mannskæðustu náttúruhamfarir í sögu landsins í marga áratugi. Á þessum nöturlega vetrardegi létu tveir tugir landsmanna lífið á heimilum sínum, því sem heilagast er, og eftir stóðu ættingjar í sorg. Þetta var tími sem greyptist í hjarta allra sem upplifðu þá, allavega hvað mig varðaði. Ég þekkti engan af þeim sem létu lífið fyrir vestan en þekki til fólks sem bjó á staðnum. Hafði ég komið þangað og þekkti því staðinn og vissi vel um leið og fyrstu fréttir bárust hversu mikið skarð væri komið í þennan litla og heillandi bæ vestur á fjörðum. Höggið mikla, varð einkennandi næstu vikurnar, bæði í hjarta Vestfirðinga og ekki síður landsmanna allra.

Vigdís Finnbogadóttir forseti

Ekki gleymist mér né öðrum sem upplifðu þessa dimmu októberdaga framganga Vigdísar Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands, og Davíðs Oddssonar þáverandi forsætisráðherra, sem fóru vestur og sýndu aðstandendum samúð sína við minningarathöfn sem haldin var til heiðurs hinum látnu. Samhugur Íslendinga í hörmungum ársins 1995 gleymast ekki okkur sem upplifðum þessa köldu daga og geymast í hjartanu um eilífð. Sterkust var minningin um framlag Vigdísar. Hún fór við allar minningarathafnir og jarðarfarir - hún varð þátttakandi í sorg fjölskyldna sem misst höfðu nána ættingja. Hún tók þátt í sorgarferlinu - huggaði fólk og styrkti með nærveru sinni og hlýlegum orðum. Ég tel að Vigdís hafi aldrei á sínum forsetaferli risið hærra sem þjóðhöfðingi Íslendinga og sem persónan á valdastólnum en þessa dimmu októberdaga, með því að sýna styrk sinn í verki og hugga þá sem misst höfðu allt sitt. Er enda engin furða að Vigdís sé Flateyringum kær - hún er enda þar í dag og dvelur með Flateyringum á þessum degi, er áratugur er liðinn. Mun hún þar flytja í kvöld ræðu og minnast tímamótanna.

Á þessum degi færi ég Flateyringum kærar kveðjur - þeir hafa haft stuðning þjóðarinnar í gegnum þetta áfall og hlotið góðan styrk í gegnum allt sem yfir þá hefur dunið. Á þessum degi er viðeigandi að hugsað sé til baka og farið yfir þetta áfall sem er enn ofarlega í huga Vestfirðinga, sem og allra landsmanna. Fjölmiðlar hafa fjallað um þetta vel og ítarlega í allan dag - nú sem fyrir áratug sýna Íslendingar allir samhug í verki.

Saga dagsins
1927 Gagnfræðaskólanum á Akureyri var veitt formlega leyfi til að útskrifa nemendur sem stúdenta - samhliða þeim breytingum var nafni skólans breytt og hét hann eftir það Menntaskólinn á Akureyri.
1951 Winston Churchill komst aftur til valda í breskum stjórnmálum eftir nauman kosningasigur. Churchill sat áður sem forsætisráðherra Bretlands á stríðsárunum, 1940-1945, en leiddi flokk sinn í stjórnarandstöðu í sex ár. Churchill lét af embætti og hætti í pólitík 1955 - hann lést árið 1965.
1965 Reykjanesbraut, milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar, var formlega opnuð til umferðar - var fyrsti eiginlegi þjóðvegurinn sem var lagður bundnu slitlagi - fyrst í stað var vegatollur þar innheimtur.
1986 Hallgrímskirkja í Reykjavík var vígð - hún var reist til minningar um sr. Hallgrím Pétursson.
1995 20 manns fórust þegar snjóflóð féll úr Skollahvilft á byggðina á Flateyri við Önundarfjörð klukkan fjögur að nóttu. Strax eftir að flóðið féll tókst að bjarga sex mönnum á lífi og fjórum um hádegið. Hundruð manna tóku þátt í leit og björgun, en erfitt var að komast þangað vegna veðurs, einungis var fært þangað sjóleiðina. Aftakaveður var út um allt land á þessum degi og verst á Vestfjörðum. Snjóflóðið á Flateyri er eitt mannskæðasta snjóflóð í sögu landsins. Þjóðarsorg var í landinu vegna þessara hörmulegu náttúruhamfara, t.d. fóru þáv. forseti og forsætisráðherra vestur til að hughreysta fólk sem átti um mjög sárt að binda þar og voru viðstödd minningarathöfn á Ísafirði.

Snjallyrðið
Við andvörpum hljóðlát en hugleiðum þó
hve höggið var mikið er byggðina sló.
Hún magnar sín áhrif svo orðlaus og skýr
sú allsherjar sorg er á Flateyri býr.

Og létt er að tárast á líðandi stund
og leita sem vinur á syrgjenda fund;
í harmanna tíbrá þau titra svo glöggt
þau tuttugu hjörtu sem brustu svo snöggt.

Við barnshjartað syrgjum er sviplega brast
og sjómannsins handtakið, öruggt og fast
og alla þá kosti sem fóru svo fljótt
í framhlaupi dauðans á skelfingarnótt.

Svo biðjum við Guð að hann gefi þann frið
sem græðir og líknar og una má við.
Og alþjóðar samúð sé sýnileg gjörð
í sorginni miklu við Önundarfjörð.
Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld (1907-2002) (Sorg á Flateyri)

Fallegt ljóð skáldsins úr Önundarfirðinum í kjölfar snjóflóðsins á Flateyri - táknrænn endir á bloggfærslu á þessum degi.