Þann 1. desember 1918 varð Ísland fullvalda ríki. Sambandslögin voru samþykkt það ár, með þeim kom loks hin endanlega viðurkenning á því að landið væri fullvalda. Ísland var áfram í konungssambandi við Danmörku en ríkisstjórn tók við völdum. Jón Magnússon varð fyrsti forsætisráðherra Íslands. Frá 1. febrúar 1904 til 1. desember 1918 hafði aðeins einn ráðherra farið með málefni landsins. Íslendingar tóku því í auknum málum við forystu í málefnum sínum en forysta í utanríkismálum var enn á höndum annarra. Konungssambandinu var sagt upp árið 1944 og Ísland varð þá sjálfstætt ríki.
Þó aðeins hafi verið um að ræða áfangasigur í baráttunni fyrir fullu sjálfstæði Íslands er sá áfangi sem náðist 1. desember mjög eftirminnilegur og hafði mikla þýðingu fyrir landið. Staða okkar varð allt önnur og meira afgerandi. Ísland tók í mun meiri mæli við forystu í sínum málum. Að mínu mati voru atburðir 1. desember 1918 merkasti áfanginn í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. 1. desember hefur stóran sess í sögu landsins og verðskuldar að hann sé í minnum fólks. Hann er ekki síðri hátíðisdagur en þjóðhátíðardagurinn 17. júní, afmælisdagur sjálfstæðishetjunnar Jóns Sigurðssonar.
Þrátt fyrir að 1. desember 1918 hafi verið sögulegur merkisdagur fyrir landsmenn alla fór lítið fyrir hátíðarhöldum í Reykjavík þann dag vegna spænsku veikinnar. Stór hluti borgarbúa hafði veikst og margir látist vegna veikinnar. En hátíðleikinn varð meiri á árunum á eftir og dagurinn markaði sér sess. Eftir að lýðveldi hafði verið stofnað minnkaði þó að fólk fagnaði deginum. Hefur þetta hin seinni ár orðið þannig að 1. desember, sem hinn mikli merkisdagur hefur fallið í gleymskunnar dá og hans er lítið minnst.
Eitt sinn var frí í skólum þennan dag og haldið upp á hann með margvíslegum hætti. Í dag eru próf í framhaldsskólum þennan dag og kennsla í mörgum öðrum skólum, þannig að um hvern og einn virkan dag er að ræða almennt í skóladagatalinu. Er það óneitanlega miður að svo sé orðið. Ísland og fólkið sem býr landið hefur staðið undir hverju því verkefni sem tekist var á hendur með fullveldinu og sjálfstæði síðar. Sá mikli árangur sem náðst hefur í sögu þjóðarinnar er framúrskarandi vitnisburður um þrautseigju landsmanna og einbeittan vilja hennar í því að verða í forystu og standa sig í hverju því sem tekist er á hendur.
Nú þegar minnst er þessara merku tímamóta leitar hugurinn ósjálfrátt til brautryðjendanna sem mörkuðu veginn, leiddu þjóðina í átt að fullveldi og sjálfstæði síðar. Jón Sigurðsson var sjálfstæðishetja okkar. Án hugsjónar hans, hugrekkis og framsýni værum við eflaust ekki í þeim sporum að fagna þessum merkisáfanga. Fyrir hans tilstilli öðluðust Íslendingar trú á eigin getu. Forysta hans var Íslendingum mjög dýrmæt og farsæl. Framtíð Íslands er björt og allt bendir til að næstu áratugir og aldir verði farsæl og gjöful Íslendingum, ef rétt verður á haldið í forystu landsins.
Íslendingar geta verið stoltir og glaðir yfir því glæsilega verki sem unnist hefur á sex áratugum í ævi þjóðarinnar. Staða Íslands er mjög sterk og enginn vafi leikur á að við erum í fremstu röð, forystuþjóð í frjálsum heimi. Okkur eru allir vegir færir á framtíðarbrautinni.
Saga dagsins
1918 Ísland varð fullvalda ríki - athöfn var við Stjórnarráðshúsið í tilefni af því. Hún var stutt og látlaus vegna spænsku veikinnar, sem þá geisaði í borginni. Við athöfnina var ríkisfáninn dreginn að hún í fyrsta sinn sem fullgildur fáni landsins. Fullveldisdagurinn var almennur hátíðisdagur til 1944.
1973 David Ben-Gurion fyrrum forsætisráðherra Ísraels, lést, 87 ára að aldri. Ben-Gurion varð fyrsti forsætisráðherra landsins, við stofnun Ísraelsríkis 1948, og gegndi embættinu allt til ársins 1963.
1983 Rás 2, önnur útvarpsrás Ríkisútvarpsins, hóf útsendingar. Fyrsta daginn var dagskrá í sex tíma. Þá voru leiknar auglýsingar fluttar í fyrsta skipti í íslensku útvarpi. Rás 2 náði fljótt miklum vinsældum.
1986 Bylgjan hóf útsendingar allan sólarhringinn, fyrst íslenskra útvarpsstöðva. Hún hóf útsendingar í ágústmánuði 1986 og var fyrsta einkarekna útvarpsstöðin hérlendis. Náði fljótt miklum vinsældum.
1994 Þjóðarbókhlaðan, hús Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns, var tekin í notkun. Vigdís Finnbogadóttir þáverandi forseti Íslands, vígði bókhlöðuna formlega. Hún var reist í minningu 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar 1974. Byggingin rúmar 900.000 bindi og sæti eru þar fyrir 700 nemendur.
Snjallyrðið
Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.
Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún unir grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.
Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur líti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð.
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.
Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (Hulda) (1881-1946) (Hver á sér fegra föðurland)
<< Heim