Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um bæjarmálin í kjölfar ákvörðunar minnar að sækjast eftir sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins við komandi bæjarstjórnarkosningar. Fer ég yfir ástæður þess að ég gef kost á mér og sækist eftir því að vera áberandi í bæjarmálum af hálfu flokksins. Þessi ákvörðun kemur varla fólki sem hefur fylgst með mér í stjórnmálastarfi, þekkir mig og verk mín, á óvart. Segja má að á seinustu árum hafi stjórnmálaþátttaka verið mín þungamiðja í lífinu. Ég hef unnið að því að styrkja flokkinn og stoðir hans í flokksstarfinu hér með mikilli vinnu og verið áhugasamur í þeim efnum. Það er viðeigandi að ég láti nú reyna á stöðu mína og sem formaður flokksfélags í bænum sem hefur verið vel sýnilegt er eðlilegt að maður hafi metnað fyrir sér í þá átt að hljóta ábyrgðarfyllri og öflugri verkefni en verið hefur. Ég hef verið mjög öflugur í innra starfinu í Sjálfstæðisflokknum – það er því auðvitað mjög eðlilegt að áhugi sé fyrir því af minni hálfu að sækja fram og óska eftir stuðningi og trausti til frekari verkefna.
- í öðru lagi fjalla ég um stöðu Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum. Svo virðist vera að flokkurinn sé í frjálsu falli eftir að Ingibjörg Sólrún tók við formennsku. Hefur hún nú verið á þeim stóli í hálft ár og ljóst að flokkurinn dalar markvisst undir hennar stjórn. Í dag birtist ný skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Fréttablaðinu. Samfylkingin dalar þar enn. Þetta hlýtur að vera vonbrigði fyrir Samfylkinguna - enda sér maður að margir þar innanborðs eiga erfitt með að leyna gremju sinni. Aðrir þegja bara - fúlir með stöðuna. Í dag er hálft ár liðið frá því að Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður Samfylkingarinnar. Staðan hefur legið sífellt niður á við allan þennan tíma - engin uppsveifla hefur orðið í flokknum. Þetta er auðvitað merkilegt í því ljósi að þessi flokkur hefur aldrei setið í stjórn og hefur markvisst spilað vinsældapólitík. En kannski er það einmitt það sem hefur snúist í höndum flokksins og ISG. Pópúlismi endar oft þannig að fólk verður ótrúverðugt.
- í þriðja lagi fjalla ég um þáttaskil í fréttamennsku hérlendis með tilkomu hinnar nýju fréttastöðvar, NFS, sem hóf útsendingar í vikunni. Það virðist vera mikill ferskleiki á nýju stöðinni – góður mannskapur heldur allavega vel á þessu verkefni og hefur stöðin vakið óskipta athygli fréttaþyrstra landsmanna. Óska ég nýrri stöð velfarnaðar og vona að henni muni ganga vel í samkeppninni.
1917-1963
Á þriðjudag eru liðin 42 ár frá því að John F. Kennedy 35. forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Þótt liðinn sé langur tími frá þessum atburðum eru þeir mörgum Bandaríkjamönnum enn í fersku minni og blandast þar saman sorg, söknuður og tilfinningin um að þjóðin hafi verið svipt ungum og kraftmiklum leiðtoga. Þá er að margra mati sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Opinber rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Johnson forseti, hafi skipulagt ódæðið.
Ólíklegt er að niðurstaða, sem allir sætta sig við, fáist nokkurn tíma en ekkert lát er á umfjöllun um morðið, bæði í bókum og fjölmiðlum þótt 42 ár séu liðin frá morðinu á forsetanum. Fyrir tveim árum, þegar fjórir áratugir voru liðnir frá morðinu á Kennedy forseta, birtist á vef Heimdallar ítarlegur pistill minn um stjórnmálaferil og ævi hans. Kennedy forseti, fæddist í Brookline í Massachusetts, þann 29. maí 1917, næstelstur í hópi 9 barna hjónanna Joseph og Rose Kennedy. Hann nam í Choate menntaskólanum og Harvard, fór að því loknu í herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum, 29 ára gamall árið 1946 er hann var kjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. 1952 var hann kjörinn til setu í öldungadeild þingsins fyrir Massachusetts. Árið 1955 ritaði Kennedy bókina Profiles in Courage. Í henni ræðir hann um menn sem á örlagastundu sýna hugrekki og siðferðisþrek.
Í bókinni segir hann frá ákvörðunum manna sem þorðu að standa við skoðanir sínar og gjörðir, hvað svo sem það í raun kostaði. Enginn vafi er á því að í þessari bók er að finna lykilinn að lífsskoðun John F. Kennedy, þ.e. að gera verði það sem samviskan býður hverjum manni. Fyrir bók sína hlaut Kennedy, Pulitzer verðlaunin, virtustu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna. Árið 1960 var hann kjörinn forseti Bandaríkjanna. Kennedy sigraði Richard Nixon naumlega í spennandi kosningum. Hann sat á forsetastóli eins og fyrr segir í rúmlega 1000 daga, ferlinum lauk með hörmulegum hætti í Dallas í Texas. Hann kvæntist í september 1953, Jacqueline Bouvier. Þau eignuðust tvö börn, Caroline (1957) og John Fitzgerald yngri (1960). John Fitzgerald Kennedy var jarðsunginn í Washington, 25. nóvember 1963. Var hann jarðsettur í þjóðargrafreitnum í Arlington. Á gröf hans lifir hinn eilífi logi, táknmynd þess að vonarneistinn slokknar aldrei, hvað sem á bjátar.
Saga gærdagsins
1875 Thorvaldsensfélagið, elsta kvenfélag í Reykjavík, var stofnað til að sinna mannúðarmálefnum.
1946 Ísland fékk aðild að Sameinuðu þjóðunum er gengið var að sáttmála þeirra í kosningu á þingi.
1959 Auður Auðuns tók við embætti borgarstjóra í Reykjavík, fyrst kvenna - hún varð ráðherra fyrst kvenna árið 1970. Auður sat í borgarstjórn Reykjavíkur 1946-1970 og var forseti borgarstjórnar 1954-1959 og 1960- 1970. Auður var alþingismaður fyrir Reykjavík árin 1959-1974. Hún lést í október 1999.
1974 Geirfinnur Einarsson hvarf í Keflavík - þar með hófst rannsókn eins umfangsmesta sakamáls 20. aldarinnar. 1977 lágu fyrir játningar þriggja manna um að hafa ráðið honum bana. Dómur yfir þeim var kveðinn upp í Hæstarétti 1980. Sakborningar í málinu hafa síðan neitað því að hafa ráðið Geirfinni bana. Hæstiréttur hafnaði 1998 beiðni þeirra um endurupptöku málsins. Lík Geirfinns fannst aldrei.
1977 Anwar Sadat forseti Egyptalands, verður fyrstur leiðtoga Araba til að fara í opinbera heimsókn til Ísraels. Hann fór þangað eftir að Menachem Begin forsætisráðherra Ísraels, bauð Sadat formlega. Í ferð sinni til Ísraels ávarpaði Sadat ísraelska þingið, Knesset. Þessi ferð forsetans varð upphafið að friðarferli milli Ísraels og Egyptalands og sömdu leiðtogar landanna um frið formlega í Camp David 1978 - friðarviðleitanir Sadats kostuðu hann lífið, öfgamenn myrtu forsetann á hersýningu í október 1981.
Saga dagsins
1945 Réttarhöld yfir 24 af háttsettustu nasistaforingjunum hefjast í bænum Nürnberg í Þýskalandi.
1959 Viðreisnarstjórnin, samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forsæti Ólafs Thors tekur við völdum. Þetta var fimmta og síðasta ráðuneytið undir forsæti Ólafs á löngum ferli. Stjórnin sat með nokkrum breytingum í 11 ár og 236 daga, lengur en nokkur önnur ríkisstjórn í sögu landsins.
1975 Francisco Franco einræðisherra á Spáni, deyr, 82 ára að aldri - hann hafði ríkt frá árinu 1936.
1990 Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands, mistekst að hljóta tilskilinn meirihluta atkvæða í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins. Thatcher baðst lausnar frá embættum sínum tveim dögum síðar.
1995 Díana prinsessa af Wales, tjáði sig ítarlega um skilnað sinn í sögulegu viðtali í Panorama á BBC.
Snjallyrðið
The young man knows the rules, but the old man knows the exceptions.
Oliver Wendell Holmes rithöfundur (1809-1894)
<< Heim