Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 nóvember 2005

Stefán Friðrik Stefánsson

Sveitarstjórnarkosningar verða að vori. Í tilefni þess er fólk farið að velta fyrir sér málefnum baráttunnar og hvað það ætli að gera - hvort það verði í kjöri eður ei. Ég hef tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér til setu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þessa ákvörðun hef ég íhugað nokkuð lengi með sjálfum mér og hef nú tekið endanlega ákvörðun. Segja má að ég hafi sífellt færst nær ákvörðun. Í gærkvöldi má segja að þessi ákvörðun hafi orðið endanlega til. Auk þess hefur atburðarás í stjórnmálum hér innan flokksins seinustu daga fært mig nær endanlegri ákvörðun. Það er rétt að þessi ákvörðun liggi fyrir vel tímanlega og því er hún hér með tilkynnt á vef mínum - vel tímanlega.

Ég hef verið nokkuð lengi virkur þátttakandi í stjórnmálum. Ég gekk í flokkinn árið 1993, nokkrum mánuðum fyrir sveitarstjórnarkosningar og hef síðan unnið af miklum krafti fyrir flokkinn, fyrst á Dalvík og síðar hér á Akureyri. Ég hef verið virkur penni á fjölda vefsíðna tengdum flokknum til nokkurra ára - skrifað fleiri hundruð pistla um stjórnmál á seinustu árum og held úti persónulegum heimasíðum. Fyrir tveim árum var ég kjörinn stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna fyrir Norðausturkjördæmi og hef því unnið fyrir flokkinn á víðum vettvangi. Hlaut ég endurkjör í stjórnina í haust í kosningu á átakaþingi í Stykkishólmi. Hef ég nú nýlega svo tekið við ritstjórn á vef SUS.

23. september 2004 var ég kjörinn formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna hér á Akureyri. Áður hafði ég setið í stjórn félagsins og sinnt verkefnum fyrir það og flokkinn hér í bænum. En þessi ákvörðun liggur fyrir - það sem ekki liggur fyrir er hvernig valið verði á lista. Var ég í haust kjörinn í kjörnefnd flokksins í bænum sem tekur ákvörðun um val sem lagt er fyrir fulltrúaráðsfund. Tel ég ekki rétt að ég komi að þeirri ákvörðun og hef því í bréfi til Önnu Þóru Baldursdóttur formanns nefndarinnar, beðist lausnar úr henni. Bíð ég nú formlegrar ákvörðunar kjörnefndar og fulltrúaráðs um hvernig listinn verði valinn.

En ég gef semsagt kost á mér - nú hefst baráttan af alvöru. Ég er til í slaginn og vil vinna af krafti fyrir flokkinn hér í bænum. Ég vil gera það í fremstu víglínu ekki sem þögull áhorfandi að þessu sinni. Hlakkar mér til kosningabaráttunnar sem framundan er - við höfum góða stöðu við sjálfstæðismenn - góð verk og farsæla forystu seinustu ára að bjóða kjósendum. Hef ég áhuga á að taka þátt í þeirri baráttu af heilum hug.

Stefán Friðrik Stefánsson
formaður Varðar

Saga dagsins
1913 Fréttamyndir, hinar fyrstu íslensku, birtust í Morgunblaðinu. Voru dúkristur sem voru gerðar til skýringar á frétt um morð í Dúkskoti í Reykjavík, þar sem kona eitraði fyrir bróður sínum í mat hans.
1940 Akureyrarkirkja, minningarkirkja sr. Matthíasar Jochumssonar heiðursborgara Akureyrar, vígð - hún var þá langstærsta guðshús landsins og rúmaði rúmlega 500 manns í sæti. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, teiknaði kirkjuna og réð umhverfi hennar. Upp að henni liggja um 100 tröppur.
1983 Mikligarður, stærsta verslun landsins á þeim tíma, opnuð í Reykjavík - verslunarrýmið var 4.700 fermetrar. Mikligarður sem var rekinn af SÍS fór á hausinn 1993 - þar er nú fjöldi mun minni verslana.
1988 Linda Pétursdóttir, 18 ára menntaskólanemi frá Vopnafirði, var kjörin Ungfrú Heimur í London.
2000 Þjóðþing Perú sviptir Alberto Fujimori embætti forseta landsins, eftir 10 ára setu á þeim stóli.

Snjallyrðið
In order to become the master, the politician poses as the servant.
Charles De Gaulle forseti Frakklands (1890-1970)