Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 desember 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um fylgistap Samfylkingarinnar, sem missir fylgi sjötta mánuðinn í röð. Bendi ég á að Ingibjörg Sólrún, sem verða átti leiðtoginn mikli að mati stuðningsmanna í formannskjöri í vor, reynir að firra sig ábyrgð á fylgistapinu. Fer ég yfir tal Samfylkingarmanna sem virðast kenna t.d. Staksteinum Morgunblaðsins um fylgistapið, eins hlægilegt og örvæntingarfullt og það frekast má vera. Gott dæmi um vandræðin innan flokksins vegna fylgistapsins er að enginn þingmanna flokksins sem hefur heimasíður hefur ritað um fallandi gengi flokksins og “vonarstjörnunnar”. Sennilega hlakkar í Össuri Skarphéðinssyni yfir stöðu mála, þó hann hafi auðvitað ekki tjáð það opinberlega. Það átti að koma honum frá og koma flokknum til einhverra áður óþekktra hæða en þess í stað fellur hann um mörg prósentustig við formannsskipti. Það sjá allir áhugamenn um stjórnmál að allt tal stuðningsmanna Össurar um stöðuna ef ISG yrði formaður hefur ræst.

- í öðru lagi fjalla ég um stöðu Háskólans á Akureyri í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar sem staðfestir að kostnaður á hvern háskólanema sé lægstur við HA. Bendi ég á mikilvægi þess að ráðherra grípi til aðgerða. Eins og allir sjá af stöðu mála getum við ekki sætt okkur við hvernig búið er að skólanum. Fjársvelti hans er nú staðfest og við hljótum að krefjast þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, grípi til sinna ráða og komi skólanum til varnar. Ef marka má viðtöl í fjölmiðlum er svo fjarri lagi. Hún hefur borið á móti því að skólinn sé fjársveltur þó að tölur Ríkisendurskoðunar sanni það með óyggjandi hætti. Er svo komið að maður efast orðið um hvort menntamálaráðherra ber hag skólans í raun og sann fyrir brjósti. Varð ég satt best að segja undrandi á orðum hennar í fjölmiðlum á föstudag. Nú reynir svo sannarlega á hvernig ráðherrann kemur fram við skólann eftir að þessar tölur liggja fyrir – nú verða verkin að tala ekki aðeins orðahjal!

- í þriðja lagi fjalla ég um 75 ára afmæli Sjálfstæðisfélags Akureyrar, 1. desember sl. Ennfremur þakka ég af hálfu fjölskyldu minnar Halldóri Blöndal fyrir að hafa í ræðu við það tilefni í afmælishófi félagsins minnst á framlag langafa míns, Stefáns Jónassonar frá Knarrarbergi, í starfi félagsins og í bæjarstjórn Akureyrar af hálfu Sjálfstæðisflokksins á árunum 1936-1940. Stefán langafi var þekktastur enda fyrir störf sín í útgerð hér á Akureyri, en hafði lengi mikinn áhuga á stjórnmálum.


Halldór Kiljan Laxness

Halldór Kiljan Laxness

Mikið hefur á seinustu árum verið rætt og ritað um nóbelsverðlaunaskáldið Halldór Kiljan Laxness. Allt frá andláti hans í febrúar 1998 hefur Halldór verið áberandi bæði í ræðu og ekki síst á riti. Hefur þetta verið áberandi einkum seinustu þrjú árin, en nú fyrir þessi jól og eins þau seinustu hafa komið út ítarlegar ævisögur um Halldór. Í fyrra komu út annað bindið af þrem eftir dr. Hannes Hólmstein Gissurarson um skáldið, sem bar nafnið Kiljan. Jafnframt kom þá út ítarleg ævisaga Halldórs Guðmundssonar bókmenntafræðings, í einu bindi. Hlaut Halldór íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bók sína, sem var vönduð og vel rituð. Nú fyrir þessi jól kemur út þriðja og seinasta bindi ritsins eftir Hannes, sem ber nafnið Laxness. Fjölskylda skáldsins var mjög andvíg því frá upphafi að Hannes ritaði um Halldór. Reyndi hún að hindra aðgang hans að skrifum skáldsins með því að loka bréfasafni hans næstu þrjú árin. Einungis Halldóri Guðmundssyni og Helgu Kress prófessor var veittur aðgangur að því.

Eins og flestir vita er Hannes umdeildur vegna skoðana sinna, hann hefur aldrei farið leynt með skoðanir sínar. Væntanlega vegna þess tók fjölskylda skáldsins þá ákvörðun að loka bréfasafninu og gat ekki sætt sig við það að hann ritaði um ævi hans. Um er að ræða þjóðskáld Íslendinga, að mínu mati merkasta rithöfund 20. aldarinnar, og hann settur á þann stall af vissum hópi þannig að ekki megi skrifa um hann nema af útvöldum. Mikið var rætt og ritað um fyrsta bindið eftir Hannes. Margir höfðu á því skoðanir, eins og gefur að skilja, enda bók skrifuð af umdeildum manni um enn umdeildari mann í sögu landsins. Athygli vakti þó jafnan að þegar spekingarnir sem dæmdu fyrsta bindið fyrir tveim árum voru spurðir að því hvort viðkomandi hefðu lesið bókina sem málið snerist um kom fram að svo var ekki. Var fróðlegt að margir höfðu skoðun á ritinu en ekki lesið það eða kynnt sér ítarlega áður en það felldi dóma yfir því. Það var ansi einkennandi um allt talið gegn Hannesi.

Kiljan, annað ritið, var virkilega skemmtileg lesning og var mjög gaman að sökkva sér í hana um seinustu jól. Hannes dró þar saman mikinn og góðan fróðleik um skáldið. Bókin var heilsteyptari og ítarlegri en fyrsta bókin, sem fjallaði um bernskuár skáldsins og mótunarár hans, en hún var vissulega einnig mjög vönduð og umfangsmikil. Er það helst vegna þess að fjallað er um mikil hitamál á ferli skáldsins og mikinn umbrotatíma stjórnmálalega sem Halldór tengdist og Hannes býr yfir umtalsverðri þekkingu á. Bókin spannar 16 ár, sem er vissulega ekki langt tímabil á tæplega aldaræviskeiði skáldsins, en þessi ár voru stór og mikil á ferli Laxness og er hrein unun að sitja og lesa bókina og fara yfir allan þann fróðleik sem Hannes hefur tekið saman. Þessi bók er óneitanlega paradís fyrir þá sem unna sögunni, verkum Laxness og vandaðri frásögn. Er þetta ein vandaðasta, ítarlegasta og áhugaverðasta ævisaga sem ég hef lesið og bíð ég því mjög spenntur eftir að lesa seinasta bindi ævisögunnar um Laxness, eftir Hannes.

Nú á föstudag kom út þriðja og seinasta bindið, Laxness. Fjallar bókin um seinustu 50 æviár skáldsins, frægðarárin hans mestu, 1948-1998. Ætla ég að lesa bókina um jólin og hlakka mjög til að fara yfir það rit. Þegar hefur verið fjallað um það talsvert í fréttum og greinilegt að margt áhugavert er þar að finna, sem ekki hefur verið fjallað um áður. Það er ljóst að Halldór Kiljan Laxness verður áberandi í bókmenntaumræðunni fyrir og eftir þessi jólin - rétt eins og seinustu jól.

Saga gærdagsins
1739 Steinn Jónsson biskup á Hólum, lést, 79 ára að aldri. Steinn sat á biskupsstóli á Hólum í 28 ár.
1970 Verslunarmiðstöðin Glæsibær í Reykjavík vígð - þar var þá stærsta matvöruverslun á landinu.
1981 Menntamálaráðuneytið staðfesti þá ákvörðun Náttúruverndarráðs um að friðlýsa Þjórsárver.
1992 Georgíumaðurinn Grigol Matsjavariani kom til Íslands í boði ríkisstjórnarinnar, en hann var sjálfmenntaður í íslensku. Grigol dvaldi hér í hálft ár við fræðistörf. Grigol lést í bílslysi í Tbilisi 1996.
1998 Kvótadómurinn - Hæstiréttur kvað upp þann dóm að fimmta grein laga um stjórn fiskveiða væri í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrár Íslands. Dómurinn var kenndur við Valdimar Jóhannesson.

Saga dagsins
1954 Kvikmyndin Salka Valka, gerð eftir skáldsögu Halldórs Kiljans Laxness, var frumsýnd hérlendis.
1971 Veitingahúsið Glaumbær við Fríkirkjuveg í Reykjavík brann. Glaumbær var einn af vinsælustu skemmtistöðunum í borginni í rúman áratug. Húsið var síðar gert upp, þar er nú Listasafn Íslands.
1981 Stytta af heilagri Barböru var afhjúpuð á messudegi hennar í kapellu í Kapelluhrauni við Straumsvík. Lítið steinlíkneski af Barböru fannst í kapellunni árið 1950 og þótti sá fundur merkur.
1991 Síðasta bandaríska gíslinum í Líbanon, fréttamanninum Terry Anderson, var sleppt úr haldi.
1993 Bandaríska rokkgoðið og tónskáldið, Frank Zappa, lést úr krabbameini - var þá 52 ára að aldri.

Snjallyrðið
The price of greatness is responsibility.
Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands (1874-1965)