Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi sínu um Ríkisútvarpið á þingi í dag. Strax að lokinni framsögu ráðherrans hófust mikil átök um framtíð Ríkisútvarpsins í þingsölum. Stjórnarandstaðan er mjög ósátt við frumvarpið og mælir mjög á móti þeirri breytingu sem felst í hlutafélagavæðingunni. Við því að búast að stjórnarandstaðan reyndi að nöldra yfir stöðu mála - t.d. Samfylkingin sem hrýs hugur við að samstaða hafi náðst innan stjórnarmeirihlutans um málið svo hún geti ekki nöldrað yfir því lengur. Stærsta breytingin sem felst í frumvarpinu er eins og vel hefur áður komið fram að nýtt félag mun taka við réttindum og skyldum Ríkisútvarpsins, en stofnunin sem slík sem starfað hefur frá 1930 verður lagt niður. Hlutafélag í eigu ríkisins tekur við rekstrinum. Með þessu falla afnotagjöldin niður og mun ríkisábyrgð á rekstrinum verða aflétt. Ekki verður hægt að selja Ríkisútvarpið nema meirihluti þingsins samþykki það sérstaklega.
Þetta er annað frumvarpið á einu ári um breytingar á rekstrarformi ríkisútvarpsins, því í fyrravor kom fram á Alþingi ríkisstjórnarfrumvarp um að breyta stofnuninni í sameignarfélag. Mikilvægasta skrefið á þessari vegferð er hiklaust að hið gamalkunna miðstýringarskrímsli stofnunarinnar sem gengur almennt undir nafninu útvarpsráð mun brátt heyra sögunni til. Rekstrarstjórn kemur til sögunnar, sem taka mun á rekstrarmálum RÚV og ber loks ábyrgð á rekstrinum og tengdum málum. Ríkisútvarpið verður loksins eins og hvert annað fyrirtæki. Það hefur lengi verið einn af akkilesarhælum RÚV að þar hefur verið raðað upp í fremstu röð hverri silkihúfunni á eftir annarri sem enga ábyrgð ber á rekstrarlegum forsendum. Nú breytist það. Nú verða menn að fara að reka RÚV sem hvert annað fyrirtæki en ekki stofnun, sem er kyrfilega njörvuð á jötuna. Nú breytist það! Er það gott mál. Svo vonandi er hér komið skref í áttina að sölu á hinni algjörlega óþörfu Rás 2: loksins, loksins; segi ég!
Fyrsta umræða um frumvarpið hófst í dag og ljóst að átök verða um málið, eins og fyrr segir. Samfylkingin hefur lýst því yfir að hún vilji að RÚV verði gerð að sjálfseignarstofnun. Það er alveg ljóst að stjórnarandstaðan mun reyna að tefja afgreiðslu málsins og hefur gripið til ýmissa vopna gegn frumvarpinu. Ef marka má talið í dag má búast við að allt gerist. Hinsvegar er ljóst að frumvarpið verður samþykkt fyrir vorið og breytingar taki gildi samhliða því. Í kjölfar þess munu völd útvarpsstjóra verða meiri, enda getur hann ráðið og rekið starfsmenn án atbeina útvarpsráðsins, sem hverfur í núverandi mynd. Hinsvegar mun nýtt rekstrarráð ráða og reka útvarpsstjórann. Ef marka má pistil Össurar hræðist hann að breytingarnar leiði til sölu á Rás 2. Er ekki mjög sammála honum - eins og sést á skrifunum hér. Finnst merkilegt að lesa skrif Össurar og hræðslu hans við breytingar hjá RÚV.
Ef marka má skoðanakannanir er staða Sjálfstæðisflokksins mjög sterk í borgarmálunum núna. Staða leiðtogans, Vilhjálms Þ, er mjög vænleg og listinn er farsæll og nýtur trausts borgarbúa. Ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins er Sjálfstæðisflokkurinn með yfir 50% fylgi og hlyti 9 borgarfulltrúa kjörna. Í könnun Fréttablaðsins í dag kemur fram að flestir borgarbúar vilja að Vilhjálmur Þ. verði næsti borgarstjóri. Það er gott að staða flokksins sé svona vænleg og greinilegt að borgarbúar hafa fengið nóg af R-listanum sáluga og flokkunum á bakvið hann. Annars er auðvitað ekkert fast í hendi - en ég tel að þetta standi nú allt og falli á samstöðu sjálfstæðismanna. Haldi þeir höndum saman og vinni vel saman mun sigur vinnast. Ég tel að sjálfstæðismenn viti nú að sigur er í seilingarfjarlægð og vinni saman til að tryggja þann sigur - enda eru andstæðingarnir mjög hræddir nú og hræðast þá samstöðu allra mest.
Horfði í gærkvöldi á hinn vandaða fréttaskýringarþátt NFS, Kompás. Í gær var fjallað um fuglaflensu og áhrif hennar. Hafði gaman af að sjá þáttinn. Kompás er flottur fréttaskýringarþáttur og eiga þeir hjá NFS hrós skilið fyrir vönduð og góð efnistök. Horfði svo í gærkvöldi á annan þátt íslensku sakamálamyndarinnar. Er mjög áhugavert og vekur athygli allra þeirra sem unna góðum krimma. Hlakka til að sjá seinasta þáttinn um næstu helgi og sögulokin. Nokkrir koma til greina sem morðingjarnir. Er farinn að sjá út hver hinn seki er - þó má auðvitað búast við að sú spá sé röng. Allavega þetta er vandað og vel gert - loksins almennileg íslensk sakamálasería.
Plönuð er ferð til Vínar í Austurríki fyrstu helgina í mars. Fer þar fyrir hönd SUS á þing Demyc, alþjóðasambands ungra hægrimanna. Meðal dagskráratriða er heimsókn til Wolfgang Schüssel kanslara, litið í þingið og forsetahöllina og fleira. Þetta verður því mjög góð ferð, hef aldrei til Austurríkis komið og er farinn að hlakka mjög til. :)
stebbifr@simnet.is
<< Heim