Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 janúar 2006

Stefán Friðrik

Vinstri grænir hér á Akureyri hafa prófkjör sitt í dag. Í kvöld ætti að verða ljóst hvernig efstu sex sæti framboðslista þeirra verða skipuð og hver muni leiða flokkinn í kosningunum þann 27. maí nk. Í kosningunum vorið 2002, þegar að VG bauð hér fyrst fram í sveitarstjórnarkosningum, leiddi Valgerður Hjördís Bjarnadóttir þáv. jafnréttisstýra, lista flokksins og Jón Erlendsson var í öðru sæti. Fylgi VG minnkaði alla kosningabaráttuna 2002 eftir að listinn undir hennar forystu var kynntur. Óhætt er að segja að Valgerður hafi verið umdeild á kjörtímabilinu, en hún varð að hætta sem jafnréttisstýra sumarið 2003, vegna máls sem höfðað var gegn henni er hún sem formaður Leikfélags Akureyrar réði karl umfram konu sem leikhússtjóra. Valgerður stefndi ráðherra vegna starfslokanna og vann í desember 2005 sigur í Hæstarétti, sem leiddi til veikrar stöðu félagsmálaráðherrans, Árna Magnússonar.

Valgerður hefur verið áberandi í bæjarmálunum hér sem eini bæjarfulltrúi VG og verið þekkt fyrir að vera andvíg stóriðjuáformum af öllu tagi - ennfremur ekki feimin við að fara gegn straumnum í umræðunni. Hún sat í bæjarstjórn fyrir Kvennaframboðið 1982-1986 og var þá forseti bæjarstjórnar. Valgerður býður sig nú aftur fram til forystustarfa. Hún hlýtur mótframboð. Bæði Dýrleif Skjóldal Ingimarsdóttir og Baldvin Sigurðsson matreiðslumeistari, sem lengi var yfirmaður kjötborðsins hjá Úrval í Hrísalundi en núna yfirmaður kaffiteríunnar í Flugstöðinni hér, bjóða sig fram í fyrsta sætið. Lengi vel töldu menn að um grínframboð væri að ræða hjá Baldvin og að hann ætti lítinn séns á forystusætinu. Menn hafa nú seinustu vikurnar séð vel að Baldvin er full alvara og hefur sótt fram af krafti innan VG - elítuarms kommanna sem þar hafa ráðið för. Allt í einu þykir mörgum sem staða Valgerðar sé í lausu lofti og ekki ljóst um lyktir prófkjörs flokksmanna.

Verður óneitanlega mjög fróðlegt hver úrslit verða í leiðtogakjöri prófkjörsins - hvort að Valgerður eða Baldvin muni leiða VG í kosningunum í vor. Fyrir liggur að það þeirra sem tapar leiðtogakjörinu taki ekki sæti á listanum. Valgerður leggur því allt undir í baráttunni við Baldvin. Eins og annarsstaðar hjá VG verður að vera jöfn kynjaskipting í sex efstu sætin. Það er því ljóst að þrír karlar og þrjár konur munu skipa sex efstu sætin óháð atkvæðafjöldanum. Er ekki óeðlilegt að svona vinnubrögð vekji furðu víða. Níu einstaklingar gefa kost á sér - fimm karlar og fjórar konur. Það er því þegar ljóst að tapi Valgerður munu konurnar hinar þrjár verða sjálfkrafa í forystusveitinni. En það verður merkilegt að sjá hvernig að þetta fari hjá græningjunum hér í bæ í dag.


Sigrún Stefánsdóttir hefur tekið til starfa sem dagskrárstjóri Rásar 2 og yfirmaður RÚVAK hér á Akureyri, hér á Akureyri. Er hún auðvitað flutt í bæinn og vil ég persónulega óska henni til hamingju með starfið og að vera komin hingað norður. Sigrún er reyndar ættuð héðan, en foreldrar hennar, Petrína Eldjárn (systir Kristjáns Eldjárns forseta) og Stefán Árnason, bjuggu til fjölda ára í Suðurbyggðinni. Petrína, móðir Sigrúnar, var auðvitað fædd og uppalin á Tjörn í Svarfaðardal. Nýlega birtist á dagur.net ítarlegt viðtal Svanfríðar Jónasdóttur við Sigrúnu - vil ég benda á það hérmeð, sem og annað úrvalsefni á þeim góða vef.


Úrslitakeppni Idol-stjörnuleitar hófst í Smáralind, þriðja árið í röð, í gærkvöldi. Var mjög áhugaverð og góð keppni. Flestir þátttakendur stóðu sig vel og þetta var ekta fjölskyldukvöld. Var boðinn í kvöldmat ásamt fleirum heima hjá Hönnu systur og fjölskyldu hennar í gærkvöldi og eftir það tók við skemmtilegt Idol-boð eins og Hönnu minni einni er lagið. Var virkilega gaman og við skemmtum okkur öll vel. Það er alveg ljóst að Idol-kvöldin næstu tvo mánuðina verða mjög áhugaverð - ekta fjölskyldukvöld með góðum vinum og ættingjum.


Ásgeir Sverrisson blaðamaður á Morgunblaðinu, var í gær ráðinn ritstjóri Blaðsins. Vil óska honum til hamingju með starfið og vænti góðs af verkum hans á Blaðinu. Hann hefur verið fréttastjóri erlendra frétta hjá Mogganum til fjölda ára og verið áberandi fyrir góð skrif sín um erlend stjórnmál. Hef lengi fylgst með Viðhorfsskrifum hans. Blaðið er vaxandi fjölmiðill og hef ég fylgst vel með því seinustu mánuði. Gott og vel skrifað blað - öflugt í alla staði. Ásgeir mun leiða blaðið í enn betri átt að mínu mati.


Í gær voru 250 ár liðin frá fæðingu Wolfgangs Amadeus Mozarts - meistara hinna fögru tóna í klassískri tónlist. Þessa var minnst með veglegri tónlistardagskrá sem sýnt var frá í Ríkissjónvarpinu í gær - því miður hafði ég ekki tækifæri til að fylgjast með, en vona að þessari tónlistarveislu verði gerð góð skil með flottri samantekt á vegum RÚV á næstunni. Mozart var einstakt tónskáld - sem heillar fólk um allan heim með fögrum tónverkum sínum sama hætti nú og hann gerði í lifanda lífi.

stebbifr@simnet.is