Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 janúar 2006

Stefán Friðrik

Það var mjög ánægjulegt að hefja daginn snemma á þessum fagra laugardagsmorgni hér nyrðra, fá sér kaffisopa og ristað brauð með osti og slettu af marmelaði á meðan að Mogginn var lesinn. Undir hljómaði morgunþáttur Gulla Helga á Bylgjunni sem var góður að vanda. Það hefur hlýnað í veðri og í stað kuldatíðarinnar er hláka. Sólin er farin að vinna á myrkrinu og hægt og rólega vinnur hún bug á myrkrinu eftir því sem líður á mánuðinn. Nú skömmu eftir hádegið er þessi færsla er rituð var ég svo að koma úr Kaupangi þar sem var haldinn vel heppnaður fundur með Geir Hilmari Haarde utanríkisráðherra og formanni flokksins okkar. Það var mjög ánægjulegt að hitta Geir og ræða við hann um málefni svæðisins okkar. Var fjölmennt á fundinum. Þar voru mættir frambjóðendur í prófkjörinu þann 11. febrúar nk. og aðrir trúnaðarmenn flokksins okkar; stjórnarmenn flokksfélaga, fulltrúaráða og kjördæmisráða. Gestir fundarins voru ennfremur þingmenn okkar, þau Halldór Blöndal og Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður.

Á fundinum var skiljanlega mikið rætt um málefni svæðisins. Bar þar hæst atvinnumálin að sjálfsögðu. Fundarmenn báru fram góðar fyrirspurnir og Geir svaraði þeim skilmerkilega og ákveðið. Var mjög notalegt að eiga gott spjall við formanninn okkar og heyra skoðanir hans á hitamálum samtímans og málefnum svæðisins. Ég verð að lýsa yfir mikilli ánægju minni með þá ákvörðun Geirs að fara nú um landið og halda til fundar við trúnaðarmenn flokksins - ræða við þá um málefni sinnar heimabyggðar og eiga skoðanaskipti við fólk. Það eru nú 16 mánuðir til alþingiskosninga. Í þeim kosningum leiðir Geir flokk okkar. Nú er hann að fara um landið, hefja þá kosningabaráttu snemma og af krafti - heyra rödd landsmanna og kynna sér starfið víða um land. Mér finnst Geir hefja starf sitt mjög vel og hann hefur staðið sig vel að mínu mati. Geir mun vonandi leiða flokkinn til öflugs og góðs kosningasigurs þann 12. maí 2007 - leiða flokkinn í forsæti ríkisstjórnar að nýju.

Það er alveg ljóst að Geir hefur sterka stöðu - traust flokksmanna um land allt til forystu og að verða næsti forsætisráðherra. Ég vil þakka honum fyrir góðan fund og hlakka til að vinna með flokknum í kosningabaráttunni að ári undir hans stjórn.


Aðalfréttin hér nyrðra á þessum laugardegi er annars niðurstöður skoðanakönnunar sem IMG Gallup gerði fyrir Þyrpingu um viðhorf Akureyringa til hugmynda um nýtt skipulag á Akureyrarvelli. Könnunin leiddi í ljós að tæp 60% Akureyringa eru hlynntir því að Íþróttavöllurinn fari burt úr miðbænum, en 26% vilja halda íþróttavellinum í óbreyttri mynd. Eins og allir vita vill Þyrping fái svæði vallarins í sína eigu og staðsetja þar nýja Hagkaupsverslun með bílastæðum. Ég hef alltaf haft mjög ákveðnar skoðanir á þessu máli sem ég tjáði á íbúaþingi fyrir einu og hálfu ári, í september 2004, og geri aftur nú. Ég er hlynntur því að völlurinn fari en þar komi fjölskyldugarður eða einhver hófleg verslun jafnvel. En ég er ekki ginnkeyptur fyrir því að þar rísi risavaxin verslun með bílastæðarunum. Það er ekki glæsileg framtíðarsýn að malbika íþróttavöllinn fyrir bílastæðalengjum og henda risavöxnum verslunarkjarna fyrir Hagkaup. Nægar betri staðsetningar eru til fyrir það.

Ég tel framtíð vallarins vel liggja fyrir í þeim skipulagstillögum sem til umræðu eru í bæjarkerfinu. Annars kannast ég ekki við það að það hafi verið niðurstaða íbúaþingsins haustið 2004 að Hagkaup ætti að fá rétt á því að byggja risaverslunarkjarna á íþróttavellinum eins og forsvarsmenn Akureyrar í öndvegi eru að tala um. Hinsvegar er ég hlynntur því að stærri Hagkaupsverslun rísi en finna mætti betri staðsetningu fyrir það en þetta viðkvæma landsvæði í hjarta bæjarins sem íþróttavöllurinn hefur alla tíð verið. En vonandi verður hægt að vinna þetta mál í góðri samstöðu en ég má til með að ítreka mína skoðun á þessu. Í raun væri rétt að spyrja bæjarbúa hvort þeir vilji fá stærðarverslunarhús á reit vallarins og malbika svo bílastæði til hægri og vinstri. Sumir vilja það kannski en ekki ég. Ég vil leita annarra leiða við staðsetningu. Ég skil vel að Þyrpingarmenn vilji fá svæðið fyrir sig - en ég hallast frekar að því að þarna eigi að verða fjölskyldugarður.

En það eru sveitarstjórnarkosningar eftir örfáa mánuði. Afhverju ekki að færa Akureyringum valdið í hendurnar. Þeir eiga að kjósa um málið - segja sitt álit. Þetta mál er best að leysa með því að heyra skoðun bæjarbúa. Færum þeim ákvörðunarvaldið samhliða því að ganga að kjörborðinu þann 27. maí nk. Enginn vafi er á að það sé eina og réttasta leiðin í stöðunni.


Í dag halda flokksfélagar okkar í Kópavogi prófkjör sitt. Ég hef fylgst eilítið með prófkjörsslagnum. Það eru margir og góðir frambjóðendur sem þar keppa sín á milli um efstu sæti framboðslista flokksins í vor. Það er alveg ljóst að Gunnar Ingi Birgisson hefur góða stöðu til að leiða listann í vor. Hann hefur nú verið bæjarstjóri í Kópavogi í rúmlega hálft ár og staðið sig vel á þeim stóli. Staða hans og flokksins er sterk er kosningabaráttan hefst að prófkjöri loknu. Ég ætla að vona að listinn raðist vel upp og verði það sigurstranglegur að tryggja góða stöðu flokksins áfram og að Gunnar verði áfram bæjarstjóri - næstu fjögur árin.

stebbifr@simnet.is