Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 janúar 2006

Stefán Friðrik

Þessi grein mín birtist á Íslendingi í dag:

Vöxtur í kraftmiklu sveitarfélagi

Vöxtur og uppgangur hefur verið mikill á Akureyri á undanförnum árum. Staða bæjarins hefur styrkst mjög á þessum tíma. Að mínu mati er mikilvægast að standa vörð um öflugt atvinnulíf í bænum, kraftmikla menntun og treysta undirstöður bæjarins sem öflugs samfélags sem gott er að búa í. Hér á Akureyri eru öll lífsins gæði, hér er gott að búa og samfélagið okkar er öflugt og traust. Við njótum hér allrar þeirrar þjónustu sem nauðsynleg er og öll erum við sammála um það markmið að hann verði öflugur og kraftmikill sem stærsti þéttbýlisstaðurinn á landsbyggðinni.

Það að halda vel utan um bæinn okkar og styrkja enn frekar á alltaf að vera markmið okkar og eftir því skal ávallt unnið. Það er og verður alltaf okkar helsta verkefni. Grunnurinn er að sjálfsögðu fólginn í því að skapa atvinnulífinu aðstæður til vaxtar. Forgangsmál að mínu mati eru góðir skólar, hagstætt orkuverð , góðar samgöngur, öflug þjónusta á sviði fjarskipta- og gagnaflutninga, nútímalegt stjórnkerfi og nægt framboð lóða. Mikilvægt er að vekja athygli á Akureyri sem álitlegum stað til búsetu og fyrirtækjarekstrar, standa vörð um hin öflugu sjávarútvegsfyrirtæki okkar og skilyrði þeirra til áframhaldandi vaxtar.

Akureyri þarf alltaf að iða af mannlífi þar sem uppbygging miðbæjar og nýrra hverfa skapar enn betri grundvöll fyrir fjölbreyttu og öflugu lista- og menningarstarfi. Ég vil sjá Akureyri sem öflugan valkost í skólamálum hvað snertir rekstrarform leik- og grunnskóla þar sem mismunandi hugmyndafræði er til staðar og val foreldra og nemenda þess því meira. Mikilvægt er að efla enn frekar bæjarbrag okkar og stolt íbúanna af því að vera Akureyringur. Vel hefur verið unnið í því með kynningarátakinu: Akureyri – öll lífsins gæði! Með öflugum og vel reknum miðbæ, fjölbreyttri menningarstarfsemi, framúrskarandi skólum, faglegu íþrótta- og tómstundastarfi, snyrtilegum bæ og umfram allt samkennd og samhjálp íbúanna eflum við kraftinn í sveitarfélaginu.

Þjónusta sú sem bæjarfélagið veitir skiptir líka mjög miklu máli. Við þurfum ávallt að vera tilbúin að auka gæði þjónustu okkar. Ég vil sjá aukna samkeppni um þá þjónustu sem er verið að bjóða á leik- og grunnskólastigi með mismunandi rekstrarformum og valfrelsi. Íbúar hér á Akureyri eiga í framtíðinni að geta valið að mínu mati um þjónustu hjá mismunandi aðilum. Það veitir nauðsynlegt aðhald og samkeppnin tryggir svo ennfremur aukin gæði.

Framtíðarsýn mín er að Akureyringar verði ávallt stoltir af sveitarfélaginu sínu. “Hér vil ég búa – við öll lífsins gæði” er gott slagorð sem gildir um okkur hér. Það er mikilvægt að áfram verði haldið á þeirri farsælu braut sem við sjálfstæðismenn á Akureyri höfum mótað og Akureyri verði í forystusveit sveitarfélaga á komandi árum – sem og á síðustu átta árum undir okkar forystu.

stebbifr@simnet.is