Frelsi til að drekka bjór í 17 ár
Í dag, 1. mars, eru 17 ár liðin frá því að sala á sterkum bjór, var leyfð á Íslandi. Innflutningur og sala á bjór var bönnuð með lögum árið 1915, bannið var því í gildi í 74 ár. Frumvarp um afnám bjórbannsins var samþykkt á Alþingi að kvöldi 9. maí 1988. Oft hafði fram að því verið lagðar fram tillögur á þingi um afnám bannsins en alltaf tókst andstæðingum þess, að sala á áfengu öli yrði heimiluð að nýju, að stöðva framgang breytinganna. Loks tókst að ná þingmeirihluta um málið í kjölfar þingkosninganna 1987 og frumvarpið varð að lögum eins og fyrr segir vorið 1988. Ólíkt því sem nú er voru deildir þingsins þá tvær, efri og neðri deild, og tafði það afgreiðslu málsins að ekki var víst um stuðning í annarri deildinni. Atkvæðagreiðsla um bjórinn varð þó ekki eins tvísýn og búist hafði verið við í upphafi.
Andstæðingar frumvarpsins reyndu, er ljóst var að frumvarpið færi í gegn, að koma fram með tillögu um þjóðaratkvæði um frumvarpið. Þeir féllu frá því er ljóst var að hún nyti ekki heldur stuðnings meirihluta þingmanna. Bjórfrumvarpið í heild var samþykkt í efri deild þingsins með 13 atkvæðum gegn átta. Þeir sem samþykktu bjórinn voru: Eyjólfur Konráð Jónsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Eiður Guðnason, Jón Magnússon, Guðmundur Ágústsson, Guðmundur H. Garðarsson, Halldór Ásgrímsson, Halldór Blöndal, Jóhann Einvarðsson, Júlíus Sólnes, Karvel Pálmason, Salome Þorkelsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir. Á móti voru: Steingrímur J. Sigfússon, Karl Steinar Guðnason, Egill Jónsson, Guðrún Agnarsdóttir, Jón Helgason, Margrét Frímannsdóttir, Svavar Gestsson og Þorvaldur Garðar Kristjánsson.
Áður en að þessari lokaafgreiðslu kom og sigri stuðningsmanna bjórsins, hafði mikið verið rætt um málið í báðum deildum og farið yfir alla fleti málsins. Andstæðingar þess að bjór skyldi leyfður héldu uppi málþófi í umræðunum og reyndu að tefja framgang þess með hverju sem hægt var. Meðal þeirra sem mælti hvað harðast gegn bjórnum var Sverrir Hermannsson, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrum ráðherra. Í umræðum á þingi í febrúar 1988 lét hann svo um mælt að frumvarpið væri málatilbúnaður sem væri sá einstæðasti í sögu þingsins. Orðrétt sagði hann: “Rakaleysurnar í þessu frumvarpi eru með þeim hætti að fágætt er – og áreiðanlega einsdæmi í þessi 1058 ár sem liðin eru frá stofnun Alþingis. Hefði því viðkomandi þingnefnd séð þann kost vænstan að kasta frumvarpinu og meirihluti hennar samið nýtt.”
Ekki lét Sverrir við þetta sitja heldur hélt áfram: “Með þessu vinnulagi voru flutningsmennirnir [Jón Magnússon, Geir H. Haarde, Guðrún Helgadóttir og Ingi Björn Albertsson] kaghýddir og hin þorstláta valkyrja, 13. þingmaður Reykvíkinga [Guðrún Helgadóttir] kom hér upp og kyssti á vöndinn og heyrðist smellurinn langt út á tún.” Að auki gagnrýndi Sverrir greinargerð þá sem fylgdi frumvarpinu, og sagði allan málatilbúnaðinn til skammar fyrir þingið. Hann lét að því liggja að flutningsmenn frumvarpsins hefðu lagt það fram í þeim einum tilgangi að styrkja sig áður á vettvangi prófkjöra “... af því að þeir telja sér trú um að ölberserkir séu í meirihluta í okkar flokki.” Að auki lét Sverrir í þessari stormasömu ræðu að því liggja að gróðasjónarmið réðu ferðinni hjá flutnings- og stuðningsmönnum frumvarpsins. Sagði hann að ekki væri hugsað um þann áfengisvanda sem kæmi vegna frumvarpsins.
Enn skrautlegri málatilbúnað viðhafði Ólafur Þ. Þórðarson í sömu umræðu. Hann las upp orðréttan laugardagspistil eftir Flosa Ólafsson leikara, frá 9. janúar 1988, í dagblaði, en í honum fjallaði pistlahöfundur um jólahald í “bjórlandinu Danmörku”. Las hann ennfremur upp ályktun 133 lækna, sem lýstu sig andvíga frumvarpinu og að lokum nöfn allra þeirra og jafnframt heimilisföng, enda taldi hann að ósköp eðlilegt væri að nöfn þeirra varðveittust í Alþingistíðindum. Þegar farið er yfir gamlar umræður á þingi og kynnt sér vel umræður koma fram mörg spaugileg dæmi um tilraunir sumra þingmanna til að beita öllum brögðum til að halda uppi málþófi og tilraunum til að tefja umræðuna eftir öllum leiðum. Svavar Gestsson hélt t.d. langar ræður gegn bjórnum og barðist hann af krafti til að reyna að stöðva frumvarpið. Þetta eru aðeins nokkur dæmi sem ættu að teljast hlægileg, nú einum og hálfum áratug síðar.
Meðal annarra sem lögðust gegn afnámi bjórbannsins voru eins og fyrr segir Steingrímur J. Sigfússon þáv. þingmaður Alþýðubandalagsins og síðar formaður VG. Í þingumræðu sagði hann: "Ég hef til viðbótar pólitískar ástæður fyrir því að ég vil ekki standa að breytingum hvorki í áfengismálum né annarsstaðar sem gera fólkið óvirkara og sljórra gagnvart umhverfi sínu. Það tel ég að stóraukin neysla bjórs, jafnvel þó að eitthvað dragi úr neyslu annarra áfengistegunda, muni gera." Kostuleg orð, séð í tíðaranda þess tíma sem síðan er liðinn. Þáverandi flokksfélagi Steingríms, Margrét Frímannsdóttir þáv. þingmaður Alþýðubandalagsins og síðar talsmaður Samfylkingarinnar og núv. formaður þingflokks hans, tók enn dýpra í árinni í umræðunni og sagði: "Ég er móðir tveggja unglinga og segi þess vegna nei." Ennþá kostulegri orð og býsna hlægileg í ljósi sögunnar, tveim áratugum eftir að þau féllu í þingsal. Mörg önnur kostuleg orð féllu sem fólk getur séð sem smellir á tengilinn neðst í pistlinum.
Hrakspár þeirra sem helst börðust gegn því að bjórinn skyldi leyfður á ný hafa ekki ræst. Það hefur ekkert á þessum tíma breyst til hins verra. Það eina sem breyttist var að fólk hafði frelsi til að velja fyrir sjálft sig. Það sem í gangi var fram til 1. mars 1989 í málefnum bjórsins var forræðishyggja í sinni bestu mynd. Enda sást vel að fólk kunni vel að meta frelsið sem því var veitt. Það á að vera almennings að ákveða hvað það borðar og ekki síður drekkur. Það hefur aldrei lukkast vel að ríkið taki ákvarðanir fyrir aðra.
Reyndar er það með ólíkindum að aðeins 17 ár skuli liðin frá því að bjórbannið leið loks undir lok. Það er varla vafi á því í hugum almennings að rétt skref var stigið við samþykkt frumvarps um afnám bannsins árið 1988. Enginn vill stíga skrefið til baka. Nú sem fyrr á það að vera fólksins að hafa frelsi til að velja. Eða er það ekki annars, lesandi góður?
Ýmis ummæli andstæðinga frelsis í umræðum um afnám banns við neyslu og sölu bjórs
<< Heim