Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 mars 2006

Háskólinn á Akureyri styrktur í sessi

Borgir

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, um aukafjárveitingu að upphæð 60 milljónir króna til Háskólans á Akureyri. Þar af eru 40 milljónir ætlaðar til greiðslu á húsaleigu og með þessu er komið að fullu til móts við þann aukna húsnæðiskostnað sem fylgi hinu nýju rannsóknarhúsi að Borgum. Með þessu er HA gert kleift að fjölga ársnemendum sínum um 30-40 á árinu 2006, umfram þá aukningu sem þegar hafi verið heimiluð. Með þessu er t.d. skapað svigrúm til að bjóða upp á framhaldsnám í lögfræði sem muni hefjast nú strax í haust.

Fögnum við hér fyrir norðan þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar og auðvitað tillögu menntamálaráðherrans. Það er okkur mjög mikið ánægjuefni að staða Háskólans á Akureyri sé styrkt með þessum hætti. Við höfðum óhikað tjáð þá skoðun okkar að skólann yrði að styrkja í ljósi allra aðstæðna. Það er mjög gott að ráðherrann hafi tekið af skarið og ríkisstjórnin tekið undir þá ákvörðun hennar að tryggja aukafjárveitingu til skólans. Með þessum gleðitíðindum ætti óánægjutali innan skólans að heyra sögunni til, sem er gleðilegt. Þeir sem unna HA ættu að geta glaðst í dag.