Litli frændi
Jæja, ég varð ömmubróðir í vikunni, eins fyndið og það hljómar. Ég er eiginlega enn að venjast titlinum. Enn fyndnara finnst mér að Hanna systir sé orðin amma. Þetta er mjög merkilegt. En ég set hér mynd af litla sólargeislanum þeirra Völu frænku og Þóris. Þetta er stór og flottur strákur, glæsileg viðbót í fjölskylduna okkar. Þessi litli strákur verður mikill sólargeisli í hópinn okkar.
Saga dagsins
1863 Vilhelmína Lever kaus í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri og varð með því fyrsta konan sem kaus til sveitarstjórnar á Íslandi - konur hlutu almennan kjörrétt með formlegum hætti loks árið 1915.
1909 Björn Jónsson tók við embætti ráðherra af Hannesi Hafstein - Björn sat á ráðherrastóli í tvö ár.
1967 Snjódýpt á Raufarhöfn mældist um 205 sentimetrar, sem er með eindæmum í þéttbýli hérlendis.
1979 Steingrímur Hermannsson kjörinn formaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi flokksins - hann tók við formennsku af Ólafi Jóhannessyni. Steingrímur var dómsmála- og landbúnaðarráðherra 1978-1979, sjávarútvegs- og samgönguráðherra 1980-1983, var forsætisráðherra 1983-1987 og svo aftur 1988-1991 og utanríkisráðherra 1987-1988. Steingrímur lét af formennsku flokksins árið 1994 og varð seðlabankastjóri og gegndi þeim störfum allt til 1998. Ævisaga hans kom út í þrem bindum 1998-2000.
1981 Leikarinn Robert De Niro hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun á Jake La Motta í Raging Bull - De Niro hlaut óskarinn sex árum áður fyrir glæsilega túlkun sína á Don Vito Corleone í The Godfather, Part II. De Niro er einn besti leikari sinnar kynslóðar og hefur hann átt mjög litríkan og glæsilegan feril og túlkað allmikinn fjölda svipmikilla karaktera af stakri snilld og hlotið hrós kvikmyndaunnenda.
Snjallyrðið
Humor is mankind's greatest blessing.
Mark Twain rithöfundur (1835-1910)
<< Heim