Fjölgun í fjölskyldunni
Þetta er svo sannarlega gleðilegur dagur í fjölskyldunni. Í morgun fæddi systurdóttir mín, Valgerður Sif Hauksdóttir, myndarlegan og stóran strák. Hann var ansi brattur og hress og með mikið dökkt hár. Þetta er í fyrsta skipti í 15 ár sem fæðing á sér stað í nánustu fjölskyldu minni, eða síðan að Lína systir eignaðist Samma í desember 1991. Það er því kominn tími til að fjölskyldan okkar stækki.
En já, þetta eru aldeilis gleðileg tímamót. Hanna mín orðin amma, rétt um fertugt, og svo eru auðvitað með þessu pabbi og mamma orðin langafi og langamma. Hanna Stefánsdóttir amma mín, er með þessu orðin langalangamma 85 ára gömul og eru því ættliðirnir hjá okkur orðnir heilir fimm. Tíminn líður svo sannarlega hratt - gleðin hjá okkur er mjög mikil svo sannarlega. Þetta er mjög góður og gleðilegur dagur fyrir Hönnu mína og þau Völu og Þóri.
Saga dagsins
1947 Heklugos hófst - þá voru 102 ár liðin frá því að gosið hafði í Heklu. Gosið var mjög kraftmikið og náði gosmökkurinn upp í 30 þúsund metra hæð og aska barst allt til Bretlands. Gosið stóð í rúmlega ár.
1961 Lög um launajöfnuð kvenna og karla samþykkt á þingi - lögin mörkuðu mikil tímamót í jafnréttisbaráttu hérlendis.
1982 Leikararnir Henry Fonda og Katharine Hepburn hlutu óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á hjónunum Norman og Ethel Thayer í myndinni On Golden Pond. Þetta var síðasta hlutverk Fonda í kvikmynd á löngum og glæsilegum leikferli og hans einu óskarsverðlaun. Hann lést í ágúst 1982. Hepburn var svipmesta og glæsilegasta kvikmyndaleikkona 20. aldarinnar og lék í miklum fjölda úrvalsmynda á ferli sem spannaði sex áratugi. Hún hlaut fjórum sinnum óskarsverðlaun, oftar en nokkur annar til þessa og var tilnefnd alls 12 sinnum til verðlaunanna. Hepburn vann áður óskarinn 1933 fyrir Morning Glory, 1967 fyrir Guess Who's Coming to Dinner og 1968 fyrir The Lion in Winter. Hún hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag sitt til kvikmynda árið 1987. Kate Hepburn lést í júní 2003.
1988 Leikarinn Dustin Hoffman hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Raymond Babbitt, einhverfum manni, í kvikmyndinni Rain Man - Hoffman hlaut óskarinn níu árum áður fyrir leik sinn í Kramer vs. Kramer. Hoffman er einn besti leikari sinnar kynslóðar og hefur hann átt mjög litríkan og glæsilegan feril og túlkað fjölda svipmikilla karaktera af stakri snilld og hlotið lof kvikmyndaunnenda.
1993 Heimir Steinsson útvarpsstjóri, segir Hrafni Gunnlaugssyni dagskrárstjóra innlends efnis hjá Ríkissjónvarpinu upp störfum - nokkrum dögum síðar var Hrafn ráðinn framkvæmdastjóri Sjónvarps af Ólafi G. Einarssyni menntamálaráðherra. Leiddi til átaka innan Ríkisútvarpsins í garð stjórnvalda. Hrafn leysti af Pétur Guðfinnsson framkvæmdastjóra, í ársleyfi hans og lét svo af störfum hjá RÚV.
Snjallyrðið
A dream we dream alone is only a dream. But a dream we dream together is reality.
Yoko Ono tónlistarmaður (1933)
<< Heim