Andrew Card hættir í Hvíta húsinu
Andrew Card starfsmannastjóri Hvíta hússins, baðst í gær lausnar frá störfum í Hvíta húsinu eftir að hafa gegnt embættinu í fimm og hálft ár. Hann lætur af embætti á föstudaginn langa, þann 14. apríl nk. Hann ákveður að víkja úr innsta kjarnanum í kjölfar sífellt minnkandi vinsælda forsetans í skoðanakönnunum og umræðu um upplausn í hópi repúblikana í þinginu. Ljóst er að vandræðagangur einkennir repúblikana nú er styttist í þingkosningar og ljóst að æðstu menn í Washington hafa metið það sem svo að stokka hefði þurft upp forystusveitina í starfsmannahaldinu í Hvíta húsinu. Það hefur enda lengi verið í umræðunni að Card og Karl Rove þyrftu að víkja til að reyna að bæta stöðu forsetans. Það hefur blasað við öllum seinustu mánuði að staða forsetans hefur veikst verulega og eiginlega má segja að árið 2005 hafi verið það versta á forsetaferli hans og seinna kjörtímabilið stefni í að verða stormasamt.
Andrew Card hefur allt frá upphafi forsetaferils George W. Bush forseta Bandaríkjanna, verið einn af helstu lykilmönnum í innsta kjarna hans og hefur verið náinn vinur hans í tvo áratugi. Hann var ennfremur áberandi í forsetatíð bæði Ronald Reagan, 1981-1989, og George H. W. Bush, föður forsetans, sem sat á valdastóli 1989-1993. Card var aðstoðarmaður Reagans og aðstoðarstarfsmannastjóri Hvíta hússins lengst af forsetatíðar Bush eldri. Seinasta ár forsetaferils hans var Card samgönguráðherra Bandaríkjanna. Hann var virkur í viðskiptalífi árin eftir það og þangað til að George W. Bush fór í forsetaframboðið árið 1999 og ráðlagði hann Bush mjög í þeim slag og var honum innan handar í fjölda verkefna. Card var allt frá upphafi forsetaferils George W. Bush forseta Bandaríkjanna, verið einn af helstu lykilmönnum í innsta kjarna hans og var skipaður til starfans strax í miðjum klíðum átakanna um úrslitin í forsetakosningunum árið 2000 í Flórída-fylki.
Er Andrew Card hlaut þann sess voru deilur fyrir dómstólum í Flórída og hæstarétti í fullum gangi. Svo fór að sigur Bush var staðfestur í desemberbyrjun 2000 eftir langt japl, jaml og fuður og Card tók til við að skipuleggja valdaskiptin af krafti. Hann tók við embætti starfsmannastjórans samhliða valdatöku forsetans og hefur því allan forsetaferilinn verið lykilmaður hans í innri skipulagningu. Hann var allt í öllu á fyrra kjörtímabili forsetans sem var mjög sögulegt. Andrew Card var maðurinn sem gekk til George W. Bush í kennslustofunni í Sarasota í Florída að morgni 11. september og lét hann vita af því að flugvél hefði flogið á annan turn World Trade Center, sem var fyrsta skrefið í einu sorglegasta hryðjuverki seinni tíma. Hann var lykilmaður í liði Bush forseta í því sem tók við eftir þann sögulega dag. Hvort sem það var stríðið í Afganistan og Írak eða kosningabaráttan árið 2004 var hann sannkallaður lykilmaður Bush.
Það er enginn vafi á því að brotthvarf Andrew Card er erfitt fyrir George W. Bush og í raun má segja að þetta sé eitt sterkasta táknið um það að tekið sé að halla undan fæti hjá forsetanum. Það styttist í þingkosningar í Bandaríkjunum og margir repúblikanar á þingi líta á hann sem akkilesarhæl mun frekar en styrkleikatákn. Segja má með vissu að gullaldardagar forsetans séu að baki og erfiðleikatímabil sé framundan. Reyndar eru þingkosningar seinasta kosningabaráttan sem Bush verður eitthvað virkur í. Eins og flestir vita getur hann ekki boðið sig fram að nýju í næstu forsetakosningum sem fram munu fara í nóvember 2008 og því má segja að forsetinn sé sæll með að þurfa ekki að fara sjálfur í aðrar kosningar. Þó er alveg ljóst að Repúblikanaflokkurinn eigi undir högg að sækja og skiptir nú máli fyrir flokkinn að halda völdum í þinginu. Tapist þær kosningar stefnir í enn verra tímabil fyrir forsetann seinustu tvö ár valdaferilsins.
Eftirmaður Andrew Card sem starfsmannastjóri Hvíta hússins verður Joshua Bolten, sem er einn af lykilstarfsmönnum Hvíta hússins. Það verða því litlar sýnilegar breytingar með brotthvarfi Card en þó stokkað verulega upp í starfsmannahaldinu. Og nú er stóra spurningin: mun Karl Rove líka hverfa úr lykilsveit forsetans á næstu mánuðum eða mun hann verða hægri hönd forsetans innan Hvíta hússins til loka kjörtímabilsins í janúar 2009? Þetta er stór spurning og eflaust er hún sú sem flestir áhugamenn um stjórnmál spyrja sig að í Washington DC nú eftir afsögn Andrew Card.
<< Heim