Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 mars 2006

Sátt í deilunni um vatnalögin

Alþingi

Sátt náðist í gærkvöldi í vatnalagadeilunni sem geisað hefur á Alþingi seinustu dagana. Málþóf stjórnarandstöðunnar hefur verið fyrir neðan allar hellur. Í gær skrifaði ég ítarlega færslu um þetta mál og vísa á hana til að fara nánar yfir þetta mál. Fyrir öllu hvað varðar virðingu Alþingis er að samkomulag hafi náðst í þessum efnum. Samkomulagið felur í sér að frumvarpið verður að lögum á þessum þingvetri en gildistaka laganna verður þann 1. nóvember 2007, tæpu hálfu ári eftir næstu alþingiskosningar. Með þessu er gert ráð fyrir því að annarri umræðu um frumvarpið, sem staðið hefur yfir í samtals rúmar 35 klukkustundir, ljúki á Alþingi í dag og hin þriðja hefst innan skamms og málið afgreitt mjög fljótlega.

Átakapunkturinn er því leystur og þess í stað mun það verða þingmeirihluta eftir næstu kosningar að taka af skarið endanlega um hvort lögin taki endanlega gildi. Þetta er niðurstaða sem báðir aðilar geta unað mjög vel við og leysir þann vanda sem uppi var. Eins og fram kom í skrifum mínum í gær er rétt að menn leysi þetta mál og haldi uppi virðingu þingsins. Það hefur verið með ólíkindum að horfa upp á stjórnarandstöðuna vega að lýðræðinu með vinnubrögðum sínum. Þingmenn hafa verið að lesa upp úr bókum og vitna í hluti sem efnislegri umræðu um þetta mál kom ekkert við. Þetta var algjörlega fyrir neðan allt. Annars vísa ég á færsluna í gær í þessum efnum. Þar kom allt fram sem máli skiptir hvað þetta mál allt varðar.

Fyrir öllu er að þingstörf getið haldið áfram af sama krafti og var. Þetta mál boðar uppfærslu 83 ára gamalla laga og því skilja fáir málatilbúnað stjórnarandstöðunnar. En lausnin er þess eðlis að báðir geta sætt sig við hana. Það er stutt í þingkosningar og það er réttast að menn kjósi hreinlega um málið og hvort þau lög sem verða senn að afgreidd taki endanlega gildi eftir eitt og hálft ár. Þetta er lausn sem greiðir fyrir þingstörfum og með því geta menn tekið til starfa af krafti á þingi og haldið uppi virðingu þess sem stofnunar. Það er gott að fólk getur haldið frá málþófi og unnið þar með þeim sóma sem einkennir lýðræðislega löggjafarstofnun sem Alþingi á ávallt að vera.

Saga dagsins
1905 Bæjarsíminn í Reykjavík var formlega opnaður með því að leikið var á fiðlu í símann. Þá höfðu 15 símar verið tengdir. Er Landssíminn var stofnaður, 1912, voru á fjórða hundrað talsímar í borginni
1978 Mikil sprenging varð í ratsjárflugvél frá varnarliðinu skömmu fyrir flugtak á Keflavíkurflugvelli.
1983 Litlu munaði að farþegaþota frá Arnarflugi og herflugvél lentu í árekstri við Vestmannaeyjar.
1942 Bandarísk flugvél hrapaði í Vatnsmýrinni í Reykjavík - 8 menn fórust.
2003 Samningar um álver Alcoa á Austurlandi formlega undirritaðir við hátíðlega athöfn á Reyðarfirði.

Snjallyrðið
Only those who dare to fail greatly can ever achieve greatly.
Robert F. Kennedy öldungadeildarþingmaður (1925-1968)