Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 mars 2006

Stormur í vatnsglasi á þingi

Alþingi

Kostulegt hefur verið að fylgjast með störfum Alþingis seinustu dagana. Nýlega lagði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fram á Alþingi frumvarp til nýrra vatnalaga. Er það lagafrumvarp sem ætlað er að uppfæra vatnalög sem sett voru árið 1923. Það er ekki ofsögum sagt að þingstarf hafi stíflast í kjölfarið en stjórnarandstaðan hefur viðhaft málþóf í annarri umræðu um lagafrumvarpið og sumir þingmenn talað svo klukkutímum skiptir. Hefur ekki verið talað jafnmikið um neitt þingmál frá því að umræður voru um frumvarp til fjölmiðlalaga vorið 2004, sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti, synjaði um samþykki sitt í júníbyrjun sama ár. Er með öllu óvíst nú hvenær að málið kemst til þriðju umræðu þingsins og stefnir reyndar allt í að það verði eina málið sem verði rætt í þingsölum í þessari viku.

Allt þinghald er því úr skorðum og stefnir allt í að þinghaldi muni ekki takast að ljúka á tilsettum tíma í fyrstu viku maímánaðar. Rætt hefur verið um af stjórnarþingmönnum að funda í páskahléi við litla hrifningu stjórnarandstöðunnar. Umræðan heldur áfram kvölds og morgna. Seinustu dagana hafa kvöldfundir verið og t.d. um seinustu helgi átti að funda á laugardegi sem kallaði fram ólgu hjá stjórnarandstöðunni. Stjakaði Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins, við Sigurði Kára Kristjánssyni alþingismanni, er sá síðarnefndi kom úr ræðustól. Hefur reyndar verið með ólíkindum að fylgjast með tali þeirra þingmanna sem farið hafa í ræðustól. Sumir hafa mætt með þykkan bunka af blöðum og jafnvel ljóðabækur og hafa talað algjörlega út í eitt og eytt tímanum í hjal um atriði sem með litlum hætti tengjast málinu.

Tal og gjörðir stjórnarandstöðunnar minna mig og eflaust marga fleiri á farsann og delluna sem einkenndu talið í umræðunni um fjölmiðlalögin fyrir tveim árum. Vinnubrögðin eru eins. Reyndar mætti segja mér að þau hafi gaman af þessu og hugsa ekki um neitt nema egóið sitt í stöðunni. Ég hef heyrt hluta af þingumræðum og fyrir satt best að segja löngu síðan hætti ég að skilja bæði taktík stjórnarandstöðunnar og málatilbúnað þeirra í þessu máli. Þau eru algjörlega komin út á tún og skynja sig sennilega sem kastljós fjölmiðlanna og njóta athyglinnar sem þetta furðulega vinnulag þeirra vekur. Fannst mér slappur málatilbúnaður stjórnarandstöðunnar afhjúpast vel í Kastljósi í gærkvöldi þar sem að Jóhann Ársælsson og Valgerður Sverrisdóttir ræddu stöðu málsins. Eftir viðtalið sáu allir að stjórnarandstaðan er bara í einum allsherjar leik í þessu máli.

Í dag fer félagi minn, Friðrik Ársælsson stjórnarmaður í SUS, yfir málið í góðum pistli á vef SUS. Hvet alla til að lesa skrif hans. En já ég hef verið mikið hugsi seinustu daga yfir því hversvegna akkúrat þetta mál verður sennilega mest rædda og teygðasta þingmál þessa þingvetrar. Væntanlega er það til þess að það geta andstæðingarnir notað sem tylliástæðu til að leika sólóista og baða sig í kastljósi fjölmiðlanna. Mér grunar það. Allavega er ég hættur að skilja þessa umræðu alla saman. Hún er orðin svo döpuð og innihaldsrýr af málefnalegum skoðanaskiptum að átakanlegt er eiginlega á að horfa. Reyndar verður seint sagt að þessi stjórnarandstaða sé sterk í málefnalegum rökræðum. Hún er svo döpur og eiginlega allt að því slöpp að fólk botnar ekkert í henni.

Er það eiginlega ekki ástæðan fyrir því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum vonarstjarna vinstrimanna en nú skærasti akkilesarhæll Samfylkingarinnar, nær ekki að komast hvorki lönd né strönd með þennan flokk og er að daga uppi pólitískt? Það tel ég allavega. Samfylkingin undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er að verða eins og skrælnað laufblað á haustdegi: uppþornað og líflaust. Samfylkingin hefur virkað sífellt daprari eftir að Ingibjörg Sólrún varð formaður Samfylkingarinnar. Það er því ekki furða að hún þarf á afdönkuðum stjórnmálamönnum eins og Jóni Baldvin og Jóni Sigurðssyni að halda til að komast eitthvað áleiðis á pólitískum ferli sínum eins og staðan er orðin. Allavega pælir maður sisvona meðan að maður undrar sig á málefnagjaldþroti stjórnarandstöðunnar sem talar og talar á Alþingi - um formbreytingu á úreltum vatnalögum.

Það er ekki furða að það hvarfli að þeim sem fylgjast með þessu blaðri stjórnarandstöðunnar að hún sé einmitt að skrælna upp af vatnsskorti pólitískt. Grunar mig það satt best að segja. Annars er svo merkilegt við tal stjórnarandstöðunnar í umræðunum um frumvarpið um vatnalögin að nákvæmlega enginn fræðimaður eða sérfræðingur á sviði eignaréttar hefur birst í umræðunni og bakkað upp talsmáta og orðbragð stjórnarandstöðunnar. Hún stendur algjörlega ein í elgnum í þingumræðunni. Tek ég undir með stjórnarþingmönnum að þetta er ekkert annað en handahófskennd og órökstudd gagnrýni á frumvarpið sem stjórnarandstaðan heldur uppi. Ætla ég að vona að Sólveig Pétursdóttir stýri þinginu af krafti næstu vikurnar og minni á hver það sé sem er húsbóndi á hinu háa Alþingi.

Saga dagsins
1911 Kristján Jónsson varð ráðherra Íslands - sat í embætti í 16 mánuði.
1950 Ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar tók við völdum - sat í þrjú ár.
1969 Fiðlarinn á þakinu var frumsýndur í Þjóðleikhúsinu - sýnd samfellt í rúmlega þrjú ár. Róbert Arnfinnsson fór á kostum í hlutverki Tevje.
1987 Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði níu manna áhöfn Barðans sem var í nauð skammt utan við Dritvík.
1994 Markús Örn Antonsson segir af sér embætti borgarstjóra í Reykjavík, eftir að hafa setið á stóli í tæplega 3 ár, eða frá því Davíð Oddsson lét af embætti. Við borgarstjóraembættinu tók Árni Sigfússon. Hann gegndi embættinu þá 75 daga sem voru til borgarstjórnarkosninga, en Sjálfstæðisflokkurinn beið ósigur í þeim kosningum og R-listinn komst til valda. Árni sat í borgarstjórn til ársins 1998 og varð bæjarstjóri í Reykjanesbæ árið 2002.

Snjallyrðið
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti,sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.
Einar Benediktsson skáld (1864-1940) (Einræður Starkaðar)