Skemmtileg málefnavinna
Í allan dag var ég staddur á Öngulstöðum ásamt góðum hópi sjálfstæðisfólks hér á Akureyri. Vorum við að vinna í málefnavinnu Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og tókum góðan tíma í að hefja vinnuna í dag - um næstu helgi höldum við svo öll til Hríseyjar og hittum félaga okkar þar. Verður þar ánægjulegt að eiga góðan dag í boði þeirra og verður skemmtilegt að sækja góða félaga heim.
Í mínum hópi var fyrst og fremst verið að ræða skólamálin. Þar var lífleg og góð umræða um málaflokkinn og vorum við mjög sammála um áherslur og samhljóða í verkum. Sérstaklega fannst mér gaman að kynnast áherslum Hjalta Jóns og Ellu Möggu, en þau eru bæði þaulreynd í málaflokknum. Áttum við öll góðan dag saman í þessari vinnu og margar flottar hugmyndir fæddust og þetta var virkilega lifandi og hressileg skoðanaskipti. Hafði alveg virkilega gaman af þessu.
Við upphaf fundar rétti Sigrún Björk okkur hvíta boli. Öll merktum við á þá texta af okkar vali og til að lýsa okkur. Fannst okkur þetta mjög skondið og voru því allir viðstaddir í hvítum bolum merktum af þeim sjálfum og á þeim rituð orð til lýsingar persónunni skrifuð af henni sjálfri. Hlógum við mikið yfir því sem hver og einn ritaði og við komumst að mörgu skemmtilegu um hópinn með þessu. Flott og góð hugmynd.
Á minn ritaði ég:
Stefán Friðrik
bjartsýnn
jákvæður
pólitískur nörd
sjálfstæður
skapheitur
kvikmyndafrík
KA-maður
Brekkusnigill
Aftan á voru rituð spakmæli sem ég met mest: Frelsið er yndislegt, Lifðu lífinu lifandi og Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Þetta var mjög skapandi og góður dagur. Það var mikið hlegið yfir kaffibollunum og við unnum vel saman sem heild og hópurinn fór enn þéttari og sterkari heim en hann var fyrir fundinn. Öll erum við sammála um hvert markmið næstu vikna séu og vinnan var lifandi og áhugaverð, eins og stefnt var að.
Dagurinn var því mjög vel heppnaður og færði fólk vel saman í upphafi kosningabaráttunnar. Fórum við öll hress og full orku heim eftir góðan dag. Ég vil færa öllum þeim sem mættu á vinnufundinn í dag kærar þakkir fyrir góðan dag og skemmtilega málefnavinnu. Þetta var svo sannarlega skemmtilegur dagur í góðra vina hópi.
<< Heim