Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 mars 2006

Valgerður hikar í ESB-aðdáun sinni

Steingeitin

Fyrr í vikunni ritaði ég hér um Valgerði Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og skrif hennar á heimasíðu sinni um Evruna. Er óhætt að fullyrða að skrif hennar hafi vakið litla hrifningu flestra og satt best að segja veltu margir því fyrir sér hvað væri að gerast með ráðherrann og leiðtoga Framsóknarflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Reyndar má segja að þetta kjörtímabil hafi verið henni erfitt allt frá því að flokkurinn vann sigur í þingkosningunum vorið 2003 og hlaut fjóra þingmenn hér kjörna. Síðan hefur flest farið aflaga fyrir þeim fjórmenningum: Valgerði, Jóni, Dagnýju og Birki Jóni. Vel hefur sést í skoðanakönnunum Gallups að Framsókn hefur dalað verulega hér og mælist sem stendur með tvo þingmenn inni. Það hefur svo opinberast vel að framsóknarmenn hér á Akureyri og í firðinum eru lítt hrifnir af Valgerði og verkum hennar þessa stundina. Hún er komin í nokkrar pólitískar ógöngur greinilega.

Ekki hefur hún slegið í gegn seinustu daga innan Sjálfstæðisflokksins með tali sínu um Evruna. Geir H. Haarde utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var ekkert að skafa af því í viðtali í kvöldfréttum útvarps á fimmtudagskvöldið og talaði af krafti um óraunhæf skrif viðskiptaráðherrans. Geir sem þá var staddur í opinberri heimsókn í Noregi var öflugur í viðtalinu sem heyrðist í þeim fréttatíma og þótti mér gott að sjá hversu sammála við Geir erum í þessum efnum. Tel ég að þetta eigi við um okkur sjálfstæðismenn alla, enda höfum við talað með mjög afgerandi hætti í Evrópumálunum. Reyndar hefði ég vart trúað því að Valgerður myndi stíga svo óvarlegt skref á þessum tímapunkti en hef lengi heyrt hversu hrifin hún er af ESB og Evrunni. Reyndar má varla á milli sjá hvort þeirra er hrifnara af ESB: hún eða forsætisráðherrann Halldór Ásgrímsson. Það er þó merkilegt hversu varlega hún stígur með skrifum sínum og talar ekki fyrir ESB-aðild enn um sinn.

Það er þó ljóst að forysta Framsóknar hefur lengi ætlað sér að keppa við Samfylkinguna í yfirboði í ESB-fræðum í komandi þingkosningum. Það sást vel í ræðu forsætisráðherra nýlega þar sem hann spáði því að Ísland yrði komið í ESB á árinu 2015. Sú framtíðarsýn hans var þó dregin að nokkru til baka þegar að hann sagðist ekki hafa verið að segja þetta öruggt heldur væri bara um spádóm að ræða og ekki öruggt að spádómar yrðu að veruleika. Það er reyndar svo að það er aldrei víst að spádómar verði að veruleika séu menn framsóknarmenn. Er það mjög ánægjulegt að svo sé, varð mér þá að orði. Það er greinilegt að formenn stjórnarflokkanna eru ekki sammála um að dást að ESB. Geir tók strax fram eftir ræðu Halldórs að þetta væri ekki framtíðarsýn sem hann styddi og hann tók fram í viðtalinu í vikunni, er hann kommenteraði á pistilinn hennar Valgerðar, að hann spáði því að Ísland yrði ekki aðili að Evrópusambandinu á þessu kjörtímabili, ekki heldur því næsta, og ekki um fyrirsjáanlega framtíð.

Það er því ljóst að muni Framsóknarflokkurinn sækja fast að fylgja Samfylkingunni eftir í ESB-órunum fyrir komandi þingkosningar að ekki semst á milli manna um þær áherslur í óbreyttu stjórnarsamstarfi. Lengi var afstaða Sjálfstæðisflokksins á landsfundum sínum hvað varðar Evrópusambandið persónugerð við Davíð Oddsson fyrrum formann flokksins og forsætisráðherra. Nú er Davíð horfinn á braut og afstaðan er óbreytt. Það sem meira er að Geir hefur tekið mjög afgerandi til orða hver hans skoðun sé og auðvitað minnt á landsfundarsamþykktir frá landsfundinum haustið 2005. Reyndar varð ég ekki hissa á tali Valgerðar um Evruna en varð hinsvegar hissa á því að hún talaði um leið þá ekki fyrir ESB-aðild. Það er reyndar kostulegast af því öllu að hún tali fyrir Evru en um leið vilji ekki feta skrefið í átt til ESB rétt eins og Halldór gerði svo greinilega um daginn. Það er reyndar svo fyndið við Valgerði að hún er oft ófyrirsjáanleg og getur verið ólíkindatól, en það er eins og það er bara.

Valgerður hefur alla tíð verið í vinstriarmi Framsóknarflokksins og verið lítt um okkur sjálfstæðismenn gefið. Margar frægar sögur eru til héðan af þessum slóðum sem og víðar úr pólitísku starfi sem lýsa hug hennar til Sjálfstæðisflokksins. Sumar eru betur ósagðar á þessum vettvangi sem og öðrum en það er oft gaman af að heyra sögur af Valgerði og skapinu hennar sem er rómað meðal pólitískra samherja hennar og andstæðinga. Reyndar hefur mér lengi þótt vænt um Valgerði af svo mörgu leyti en oft líka verið hissa á tali hennar og snöggu skapi. Hinsvegar er ég viss um að hún væri ekki þar sem hún er í dag og hún hefði aldrei komist í forystusveit Framsóknarflokksins hér á þessum slóðum nema vegna þess að hún hefur skap og er kjarnakona. Hún hefur barist á eigin vegum fyrir sínum frama og verið í stjórnmálum af krafti og verið með mikinn neista í verkum sínum. En hún hefur ekki hikað við að berjast eins og ljón við pólitíska andstæðinga og oft bitið harkalega frá sér. En þannig er hún bara og menn vita hvernig hún er hér.

En ég varð hissa á pólitísku nefi Valgerðar Sverrisdóttur er kom fram í þessum margfræga pistli í vikunni og er eins og margir algjörlega ósammála henni. Hinsvegar er henni auðvitað frjálst að hafa aðrar skoðanir og setja þær fram á sínum ágætu vef og tala þar af krafti af sinni pólitísku hugsjón og sannfæringu fyrir skoðunum sínum. Það geri ég og met í raun alla sem það gera, þó skoðanir og áherslur séu aðrar. En hinsvegar vekur auðvitað athygli þegar að viðskiptaráðherra þjóðarinnar skrifar slíkan pistil og vekur upp margar spurningar. Fyrst og fremst vaknar sú spurning í huga mér hvort að Framsóknarflokkurinn ætli að tala af hálfum hug eða heilum til Evrópusambandsins í næstu kosningum. Ástæða þess að ég tel að Valgerður tali með varúð er ágreiningur innan flokksins um afstöðuna til ESB og kannski hafa ESB-sinnarnir séð að ekki verði afstöðunni um ESB-aðild náð fram innan flokksins fyrir kosningarnar 2007, enda gæti það riðið flokknum að fullu. Má vel vera.

Það vita allir að Framsóknarflokkurinn er sundursprunginn og stendur verulega illa að nær öllu leyti. Krónprins flokksins er farinn af flokksfleyinu og genginn til liðs við banka úti í bæ og eftir stendur flokkurinn með forsætið í ríkisstjórn landsins en verulega óvinsæll. Það er kannski engin furða að ESB-sinnarnir innan flokksins séu farnir að draga í land með ESB-talið og því feti Valgerður ekki í fótspor Samfylkingarinnar og talar með þeim hætti og sást í vefskrifum hennar um Evruna. Það tel ég. Enda er Framsóknarflokkurinn ekki beint líklegur til afreka og fær í kosningavetur í landsmálum ætli hann að sundrast innbyrðis vegna ESB-afstöðunnar á þeim tímapunkti. Þetta blasir við öllum sem fylgjast með pólitík. En fyrst og fremst er ESB- og Evruhjal með öllu óraunhæft og tal seinustu daga eftir skrif ráðherrans staðfesta það. Er það vel.

Saga dagsins
1984 Guðlaugur Friðþórsson synti í land um 5 km þegar bátnum Hellisey frá Eyjum hvolfdi og sökk. Guðlaugur lifði einn sjóslysið af.
1985 Mikhail Gorbachev tekur formlega við völdum í Sovétríkjunum - varð áhrifavaldur á söguna og lykilþátttakandi í endalokum kalda stríðsins og sögulegum samningum við Bandaríkin um eyðingu kjarnorkuvopna og langdrægra vopna. Hann hlaut svo friðarverðlaun Nóbels 1990 fyrir framlag sitt til þessara verkefna. Gorbachev einangraðist heima fyrir og sá ekki fyrir endalok Sovétríkjanna. Hann varð valdalaus við fall Sovét árið 1991 og hefur verið þögull þátttakandi í stjórnmálum alla tíð síðan.
1996 John Howard tekur við embætti forsætisráðherra Ástralíu eftir kosningasigur hægrimanna - þá hafði Verkamannaflokkurinn leitt stjórn landsins samfellt í 13 ár - Howard varð 25. forsætisráðherra landsins og hefur setið í embætti síðan. Howard er einn af sigursælustu leiðtogum hægrimanna í Ástralíu og stefnir á framboð árið 2007.
2004 Hryðjuverkaárás í Madrid á Spáni - fjöldi bakpokasprengja sprungu í lestum í samgöngukerfi borgarinnar. Tæplega 200 manns létust í árásinni. Upphaflega var ETA, aðskilnaðarsamtök Baska, kennt um hryðjuverkin. Síðar kom í ljós að Al-Qaeda stóð þar að baki. Árásin var gerð fáum dögum fyrir þingkosningar í landinu. Stjórnvöld kenndu ETA um hryðjuverkin. Neituðu þau lengi að kanna aðra möguleika, t.d. þátttöku Al-Qaeda. Trúnaðarbrestur varð milli kjósenda og stjórnvalda og fór svo að hryðjuverkaöflunum tókst ætlunarverk sitt: að fella hægristjórn landsins í þingkosningunum nokkrum dögum eftir hryðjuverkið.
2005 Hildur Vala Einarsdóttir kjörin poppstjarna Íslands árið 2005 í æsispennandi úrslitakeppni í Idol-stjörnuleit í Vetrargarðinum í Smáralind. Keppti hún um sigurinn í keppninni við Aðalheiði Ólafsdóttur. Hildur Vala heillaði þjóðina og söng sig inn í hjörtu landsmanna með svipmikilli túlkun og næmu látbragði.

Snjallyrðið
Anyone who stops learning is old, whether at twenty or eighty. Anyone who keeps learning stays young. The greatest thing in life is to keep your mind young.
Henry Ford bílaframleiðandi (1863-1947)