Vængbrotinn kosningasigur Kadima í Ísrael
Það fór eins og flesta grunaði. Kadima, hinn nýstofnaði flokkur Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, vann sigur í þingkosningunum í Ísrael í gær. Kadima er nú stærsti flokkurinn á Knesset, ísraelska þinginu, og hefur 28 þingsæti. Kadima var stofnaður í nóvember 2005 utan um áherslur og vinsældir Sharons eftir að hann gekk úr Likud-bandalaginu, sem hann hafði verið í allt frá stofnun árið 1973 og hafði leitt allt frá 1999. Það var síðasta verk Sharons í ísraelskum stjórnmálum að kljúfa Likud. Nokkrum vikum síðar var hann úr leik - hafði fengið alvarlegt heilablóðfall og fallið í dá. Þrem mánuðum síðar er Sharon enn í dái á sjöundu hæð Hadassah-sjúkrahússins en er væntanlega að liggja banaleguna. Enginn trúir því að Sharon nái heilsu að nýju, altént er stjórnmálaferli hans lokið. Í skugga fagnaðarláta stuðningsmanna Kadima hlýtur þeim að verða hugsað til Ariels Sharons - mannsins sem tók áhættuna og stofnaði flokkinn alls óafvitandi hvort áhættan um að sópa upp miðjunni og hógværari armi Likud og steypa í eitt stórt afl myndi heppnast.
Sigur Kadima er staðreynd en engu að síður er þessi sigur súrsætur fyrir forystumenn þessa nýstofnaða flokks. Kadima vann engan veginn eins sannfærandi og sterkan sigur og honum var spáð fyrir í upphafi, áður en Sharon veiktist. Lengst af kosningabaráttunnar hafði Kadima afgerandi stöðu og flestir töldu að hann hlyti rúmlega 40 þingsæti. Seinustu vikuna tók fylgið að dala og undir lokin þótti ljóst að Kadima gæti fallið undir 30 þingmanna múrinn. Niðurstaðan er 28 þingsæti - góður sigur en vissulega ekki sá stórsigur sem menn vonuðust eftir og þurftu eiginlega til að drottna yfir ísraelskum stjórnmálum. Stuðningsmenn Kadima óttuðust á kjördag í raun orðið hið versta. Doði og lífleysi hafði einkennt kosningabaráttu Kadima seinustu dagana. Eins og allir vita er það ekki besta veganestið í kosningabaráttu. Doðinn var vegna þess að fólkið innan Kadima taldi sigurinn svo öruggan að ekki þyrfti fyrir honum að hafa. Undir lokin var brugðið á það ráð að senda út fleiri hundruð þúsunda SMS-skeyta til að fá fólk á kjörstað.
Kjörsókn í ísraelsku þingkosningunum að þessu sinni var sú dræmasta sem sögur fara af. Aðeins rétt rúmlega 60% kjósenda komu á kjörstað og greiddu atkvæði. Það er til marks um áhugaleysi og eiginlega umfram allt vegna þess að fólk taldi sigur Kadima öruggan. En sigur flokksins varð ekki eins sterkur og við blasti lengi. Verkamannaflokkurinn hlaut miklu meira fylgi en búist hafði verið við og var eiginlega hinn óvænti sigurvegari og hlaut 20 þingsæti og er kominn vel á veg við að endurheimta virðingu sína í ísraelskum stjórnmálum en flokkurinn galt afhroð bæði í kosningunum 2001 og enn frekar 2003 þegar að sögulegu lágmarki var náð undir forystu Amram Mitzhna. Shas-flokkurinn, flokkur strangtrúaðra gyðinga af austrænum uppruna, náði 13 mönnum, Israel Beiteinu, flokkur öfga-hægrisinnaðra rússneskra innflytjenda, hlaut 12 og Likud bandalagið 11. Sögulegt áfall Likud vekur athygli en hann (sem verið hefur í fararbroddi í ísraelskum stjórnmálum) varð fyrir þungu áfalli og missti 27 þingsæti.
Enginn vafi er á því að niðurstaða þingkosninganna er þungt högg og verulegt pólitískt áfall fyrir Benjamin Netanyahu leiðtoga Likud og fyrrum forsætisráðherra Ísraels. Það er alveg óhætt að fullyrða það að Likud og Netanyahu eru í rusli eftir þessar kosningar og við Likud blasir ekkert annað en allsherjar uppstokkun og uppbygging. Hvort sú uppbygging verður undir forystu Netanyahus skal ósagt látið en flestir ísraelskir spekúlantar telja feril hans á enda, við blasir enda að hann skiptir nú í raun engu máli í stjórnmálum landsins. Hætt er við að lykilmenn sem tókust á við hann um leiðtogastöðuna eftir brotthvarf Sharons, t.d. Silvan Shalom og David Levy muni sækja að honum. Ef einhver tíðindi eru öðrum fremri en sigur Kadima og Verkamannaflokksins er það án nokkurs vafa að framboð ísraelskra eftirlaunaþega náði 7 mönnum inn á Knesset - aðeins fjórum færri en sjálft Likud-bandalagið. Það er víst óhætt að fullyrða það að fáir nema gamlingjarnir bjuggust við þessum stórsigri.
En nú er Ehud Olmert starfandi forsætisráðherra og leiðtogi flokksins, með öll tromp á hendi og fær væntanlega stjórnarmyndunarumboð fyrstur allra frá Moshe Katsav forseta Ísraels, enda leiðtogi stærsta flokksins. Olmert fagnaði sigri með glæsilegri ræðu í höfuðstöðvum flokksins í Tel Aviv í gærkvöldi. Hann talaði til fólksins af sama eldmóði og einkenndi Ariel Sharon og í bakgrunninum var mynd af hinum fjarverandi leiðtoga sem háir nú væntanlega síðustu baráttu lífsins. Greinilegt er að Olmert setur á oddinn mikilvægi þess að ganga frá endanlegum landamærum Ísraels og Palestínu á kjörtímabilinu og opnar á mögulegar friðarviðræður við Palestínumenn. En það blasir við öllum að Hamas er þar þrándur í götu og eru litlar líkur á því að viðræður við þá muni bera árangur nú er þeir hafa í raun tekið við völdum í Palestínu. Athygli vakti í ræðu Olmerts að hann vill innlima nokkrar stórar landtökubyggðir á Vesturbakkanum í Ísrael.
Stjórnarmyndunarviðræður taka nú við í Ísrael. Ljóst er að umboð Kadima er veikbyggt og enginn afgerandi meirihluti við tillögur Ehud Olmert. Hann þarf því að leita samninga við flokka með aðrar lykilskoðanir en hann sjálfur og Kadima. Fréttaskýrendur í Ísrael spá stjórn Kadima og Verkamannaflokksins með minni flokkum en að hún verði væntanlega skammlíf rétt eins og stjórnir Ariels Sharons á síðasta kjörtímabili. Staða mála var mjög stormasöm á því tímabili og gekk oft erfiðlega að ná saman starfhæfri stjórn. Verður fróðlegt að sjá hvernig gengur næstu vikurnar við að koma saman stjórn og hvernig samstarf t.d. Olmerts og Amir Peretz muni ganga ef semst þeirra á milli.
En nú verður það hlutskipti Ehud Olmerts að halda á lofti pólitískri minningu Ariels Sharons og stefnumálum hans eftir þennan súrsæta kosningasigur. Sigurinn er nógu öruggur til að Olmert leiðir ísraelsk stjórnmál næstu árin en umboðið getur veikst komi vandamál upp milli ráðandi flokka. Það verður fróðlegt að fylgjast með ísraelskum stjórnmálum næstu mánuðina.
<< Heim