Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 apríl 2006

Kosningaskrifstofa opnuð

Frá opnun kosningaskrifstofunnar

Kosningaskrifstofa okkar sjálfstæðismanna hér á Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar eftir mánuð opnaði í gær kl. 17:00 með pompi og prakt. Fyrr um daginn höfðu efstu sex frambjóðendur lista okkar í kosningunum kynnt helstu stefnumál flokksins í kosningabaráttunni á blaðamannafundi hér í Kaupangi. Var virkilega góð stemmning hér í gær hjá okkur. Mikill fjöldi fólks leit við á skrifstofunni og þáði veitingar. Efstu frambjóðendur og Halldór Blöndal leiðtogi flokksins í Norðausturkjördæmi, fluttu kraftmiklar og góðar ræður ásamt Birni Magnússyni formanni fulltrúaráðs. Við ræddum um málin saman og fórum yfir kosningabaráttuna framundan.

Það var sólríkur og góður dagur í gær og mjög ánægjulegt að hefja lokasprettinn á svo góðum degi. Við finnum mikinn meðbyr með okkur og stefnu okkar og höldum í lokasprettinn hress og glöð. Slagorð okkar er kraftmikið og við erum mjög ánægð með stöðu okkar í skoðanakönnunum. Framundan er lokaspretturinn og hvet ég alla sem vilja vinna með okkur til að mæta til okkar á skrifstofuna og taka þátt.

Á myndinni sem hér fylgir erum við Óli D. Friðbjörnsson að fara yfir stjórnmálin saman. Óli D. var starfsmaður flokksins hér til fjölda ára og gamalreyndur í kosningabransanum. Hann skipar heiðurssætið á framboðslistanum okkar að þessu sinni. Það er alltaf gaman að ræða pólitíkina við Óla.