Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 apríl 2006

Nýtt fjölmiðlafrumvarp kynnt opinberlega

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Um fátt hefur verið deilt meira á vettvangi stjórnmála hérlendis seinustu árin en lagasetningu um eignarhald á fjölmiðlum og ýmsa þætti tengda málinu á árinu 2004. Harkaleg átök áttu sér stað samhliða öllu ferlinu, allt frá því að frumvarp ríkisstjórnarinnar var kynnt í lok aprílmánaðar 2004, í kjölfar þess að Alþingi samþykkti fjölmiðlalögin 24. maí og eftir að forseti Íslands synjaði því staðfestingar 2. júní 2004. Inn í málið blönduðust átök um valdsvið forsetaembættisins og 26. grein stjórnarskrárinnar. Leiddu deilurnar að lokum til þess að Alþingi afturkallaði lögin og var lagafrumvarp um það samþykkt á þingi í júlí 2004. Málið var sett í annan farveg og leitað leiða til þverpólitískra sátta með því að skipa þverpólitíska nefnd til að fara yfir málið. Í apríl 2005 var sameiginleg niðurstaða allra flokka kynnt.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, kynnti á blaðamannafundi í dag nýtt fjölmiðlafrumvarp sem stjórnarflokkarnir hafa nú samþykkt byggða á grunni þessarar skýrslu fjölmiðlanefndar í fyrra. Meginpunktar frumvarpsins eru þeir að fjölmiðlum er gert að setja reglur sem tryggja gagnsæi á eignarhaldi þeirra, einn og sami aðili má ekki eiga meira en 25% hlut í fyrirtæki sem er ráðandi á markaði og að Samkeppnisstofnun geti haft afskipti af samruna fyrirtækja á fjölmiðlamarkaði. Hér birtast því ljóslifandi sú sáttargjörð sem náðist á milli flokkanna. Það sem stefnt var að með því að færa málið í þetta ferli frá þrætupunktunum sumarið 2004 var að landa því sameinað óháð stjórnmálaskoðunum almennt. Er það mjög ánægjulegt og gleðiefni að hægt hafi verið að samtvinna áherslur og skoðanir á þessu mikilvæga málefni þá og lægja hinar gríðarlegu öldur í málinu - byggja nýtt frumvarp á þeim grunni.

Lengst af í hita átakanna sumarið 2004 var staða mála þannig að stjórnarandstaðan skoraðist undan því að gera heyrinkunna efnislega afstöðu sína til lagasetningar um eignarhald á fjölmiðlum. Það eina sem kom frá þeim vorið 2004 og um sumarið er átökin voru sem mest voru pólitísk keiluköst og illmælgi af ótrúlegri sort. Er málið var fært í þennan farveg var fulltrúum ólíkra flokka ekki annað fært en að taka málið efnislega fyrir og ræða það á þeim forsendum. Ég hef ávallt talið það mikilvægt að setja slíkan ramma utan um heildarmynd fjölmiðla á Íslandi og fagna því að nú stefnir allt í að fjölmiðlafrumvarp verði afgreitt á yfirstandandi. Vonandi standa allir aðilar við þá sátt sem áður hefur náðst og bera gæfu til að samþykkja frumvarpið fljótlega. Tekin hefur verið umræða um alla mögulega og ómögulega punkta fjölmiðlalöggjafar og þetta er margrætt.

Athygli vekur að stefnt er að samþykkt þessa máls á yfirstandandi þingi. Það vekur athygli í ljósi þess að rétt rúmur mánuður er til sveitarstjórnarkosninga og stutt í áætluð þinglok. Það er þó ljóst að stjórnarandstöðunni verður að ósk sinni að ræða fjölmiðlafrumvarp saman við frumvarp um Ríkisútvarpið. Það hefur reyndar verið með ólíkindum að hlusta á jagið og blaðrið í stjórnarandstöðunni um það mál og greinilegt að blaður þeirra í þinginu miðast við það eitt að tefja það að meirihluti þingsins samþykki nýtt lagafrumvarp um Ríkisútvarpið. Allir sem muna eftir hitanum í fjölmiðlaumræðunni fyrir tveim árum sakna ekki blaðurs þá um allt og ekki neitt nema efnisleg atriði fjölmiðlalöggjafar. Vonandi höldum við ekki í sama leiðindanagið og illmælgið sem þá einkenndi umræðu um íslensk stjórnmál.

Nú getur reyndar enginn kennt Davíð um nýja löggjöf, enda er hann farinn til annarra starfa og kemur hvergi nærri nú. Það er þó kaldhæðnislegt (og kannski með ráðum gert) að kynna nýtt fjölmiðlafrumvarp nákvæmlega tveim árum eftir að hið fyrra og umdeilda var kynnt fyrst, en það var 26. apríl 2004. Það verður fróðlegt að sjá hvort átök verði um þessi mál af einhverjum hætti eða funinn í kringum það muni með einhverjum hætti minna á sumarhitann í þjóðmálaumræðunni sumarið 2004 - sumarið þegar að stjórnmálaáhugamenn fóru aldrei í frí.