Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 apríl 2006

Tony Snow ráðinn til starfa í Hvíta húsinu

George W. Bush og Tony Snow

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag að Tony Snow yrði blaðafulltrúi Hvíta hússins. Snow tekur því við embættinu af Scott McClellan sem verið hefur talsmaður Hvíta hússins frá árinu 2003. Snow verður þriðji maðurinn til að vera talsmaður Bush og ríkisstjórnar hans í forsetatíð hans. Ari Fleischer var talsmaður Hvíta hússins á undan McClellan, á árunum 2001-2003. Tony Snow er þekktur fyrir að vera íhaldsmaður en hefur þó verið gagnrýninn á verk Bush forseta og stjórnar hans. Snow stýrir spjallþætti á einni af útvarpsstöðvum Fox-stöðvarinnar. Sérstaklega hefur Snow óhikað gagnrýnt forsetann í efnahagsmálum og sagt hann vera á villigötum í verkum sínum þar. Hinsvegar hefur Snow oft stutt forsetann í orði og verki og talað máli hans. Snow hefur verið talinn ásamt Rush Limbaugh öflugur hægrimaður í umræðunni þar vestra.

Val forsetans á Snow sem talsmanni sínum kemur mjög á óvart. Bandarískir fjölmiðlar telja valið mikil tímamót. Tek ég undir það. Með þessu er forsetinn að sýna að hann velur ekki bara þá sem styðja öll verk hans til starfa í starfsliði sínu. Engum dylst að það er mikil uppstokkun nú í starfsmannahaldi Hvíta hússins. Nýlega varð Josh Bolten starfsmannastjóri Hvíta hússins í stað Andrew Card og Karl Rove hefur farið í bakvarðasveitina og látið af áhrifamiklu starfi sem yfirmaður stefnumótunar. Óvinsældir forsetans hafa aukist mjög seinustu mánuði og hefur leiðin sífellt legið niður á við. Með uppstokkun í starfsmannaliði forsetaembættisins vill Bush snúa vörn í sókn og telja má öruggt að með valinu á Snow sé Bush að opna á annað andrúmsloft í umræðunni. Þó að Snow hafi oft stutt forsetann fer því fjarri að hann sé gagnrýnislaus á öll embættisverk hans.

Snow vann um skeið í forsetatíð George H. W. Bush, árin 1989-1993, sem einn helsti ræðuritari hans. Framundan eru mikilvægar þingkosningar í nóvember fyrir Repúblikanaflokkinn. Tapist önnur þingdeildin, eða það sem verra er báðar þeirra, skaðast forsetinn verulega og verður sem lamaður leiðtogi lokahluta valdaferilsins, líkt og svo margir fyrri forsetar repúblikana. Þetta vill Bush forðast og sækir fram með uppstokkun í starfsmannaliði forsetaembættisins. Skipun Snow í hið veigamikla embætti talsmanns forsetaembættis markar mjög vel þær áherslur sem Bush stefnir á nú. Þó að talsmaður forsetaembættisins sé auðvitað ekki valdamikill er hann einn mest áberandi fulltrúar stjórnar landsins. Allir sem fylgst hafa með bandarískum stjórnmálum kannast enda við Fleischer og McClellan. Verður reyndar merkilegt að sjá hvernig samstarf fjölmiðlanna sem sitja fundina verða við Snow.

Spurt er: duga þessar uppstokkanir fyrir forsetann? Ef marka má fréttir þessa dagana vilja margir repúblikanaþingmenn að Bush fórni Rumsfeld varnarmálaráðherra og jafnvel Cheney varaforseta. Mikið er talað um það vestanhafs að Condoleezza Rice utanríkisráðherra, sé álitleg sem varaforseti, enda yrði hún fyrst kvenna í embættið og myndi sóma sér vel sem forsetaefni árið 2008 og sé sú eina sem geti stöðvað Hillary Rodham Clinton þá. Allt eru þetta pælingar. Allir vita af óvinsældum Rumsfelds - það blasir enda algjörlega við að tími Rumsfelds er liðinn og hlýtur að vera stutt í að honum verði sparkað. Eins og bent hefur verið á munu hinar minniháttar breytingar í starfsmannahaldi Hvíta hússins litlu breyta fyrir forsetann og ekki ólíklegt að þær raddir verði sífellt háværari að raunhæf uppstokkun verði að eiga sér og haukunum verði að fórna að einhverju leyti.

Það verður fróðlegt að sjá næstu vikurnar hvort það hafi eitthvað að segja fyrir stöðu forsetans og flokk hans er styttist í þingkosningarnar að hafa stokkað svona temmilega eða hvort fara þurfi í harkalegri uppstokkun.