Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 maí 2006

Góð kosningaumfjöllun NFS

NFS

Í kvöld fylgdist ég með borgarafundi NFS á Ísafirði. Þar voru kynntar niðurstöður nýrrar könnunar á fylgi framboðanna þriggja fyrir kosningarnar eftir 25 daga. Þar eru í boði Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Í-listinn, sameiginlegt framboð Samfylkingarinnar, Frjálslynda flokksins og VG. Í stuttu máli sagt boðar könnunin þar mikil pólitísk tíðindi. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mælist þar fallinn og Í-listinn mælist með hreinan meirihluta, 5 bæjarfulltrúa af níu. Missa báðir meirihlutaflokkarnir þar mann. Það er vissulega mjög merkileg mæling á Ísafirði sem við blasir þarna. Sjálfstæðismenn hafa enda ráðið þarna för allt frá sameiningunni árið 1996 og áður á Ísafirði frá 1994 og sumpart lengur. Lengi vel var Ísafjörður rautt vígi kratanna en þær línur riðluðust með frægu sérframboði Hannibals Valdimarssonar árið 1971. Stefnir í spennandi kosningar fyrir vestan.

Mér finnst NFS eiga hrós skilið fyrir góða umfjöllun sína um þessar kosningar. Þeir hafa haldið líflega borgarafundi í stærstu sveitarfélögum landsins og kynnt landsmönnum pólitísku stöðuna. Með þessum þáttum hefur fólk getað metið betur stöðu mála víðar en bara í Reykjavík. Vissulega eru þessir þættir þeirra ekki gallalausir en þeir eru þó snörp og málefnaleg umfjöllun um hitamál kosninganna á landsbyggðinni og nauðsynleg kynning á pólitík í stórum sveitarfélögum. Þar kemur fram ekki bara pólitíkin heldur staða sveitarfélagsins svo að kjósandinn hefur stöðuna algjörlega á tæru í miðjum átökum um hitamálin. Svo mega þeir eiga það þeir Sigmundur Ernir og Egill að þeir hika ekki við að spyrja hvasst og það er tekið eftir þeirra spurningastíl. Það sem mér finnst helst að þáttunum er hversu knappir þeir eru en tala mætti mun ítarlegar um pólitíkina en raun ber þar vitni.

Það hefur lengi verið sagt að hlutverk Ríkisútvarpsins sé að tryggja eðlilega umræðu, t.d. um stjórnmál og vera til staðar fyrir landsmenn. Ekki er hægt að segja að RÚV fari vel af stað í umfjöllun um þessar kosningar eftir tæpar þrjár vikur og má frekar fullyrða að þar sé doði í umfjölluninni. Á meðan að RÚV sefur er NFS á fullu og sinnir því hlutverki RÚV að halda uppi góðri þjóðmálaumræðu. Umfjöllun RÚV um sveitarstjórnarkosningar er með daprara móti núna. Því getur enginn neitað. Undrunarefni er að RÚV sé ekki ferskara í umfjöllun og meira áberandi, enda mjög stutt í kjördag.