Hægrisveifla um allt land í sveitarstjórnarmálum
Um allt land er verið að mynda meirihluta í sveitarstjórnum og mikil vinna uppi við að ná samkomulagi milli ólikra framboða um það hvernig sameiginlega sé hægt að ná samhljómi. Sögulegasta meirihlutamyndunin verður að sjálfsögðu í Reykjavík. Það hefur aldrei gerst fyrr að Sjálfstæðisflokkurinn myndi meirihluta með öðrum flokki í borginni. Ennfremur er þetta fyrsta skiptið sem tveir flokkar taka höndum saman. Ég tel þetta góðan meirihluta sem mun vinna af krafti að því að nýr tími renni upp í höfuðborginni. Það sást vel á blaðamannafundi fulltrúa flokkanna síðdegis í gær fyrir utan heimili Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar verðandi borgarstjóra, að góður hugur er í fólkinu og þau eru sameinuð í því verkefni að boða nýtt upphaf í stað gamla vinstritímans undir merkjum R-listavaldabandalagsins sem heyrir nú sem betur fer sögunni til. Væntanlega mun Hanna Birna Kristjánsdóttir nú verða forseti borgarstjórnar - vel hefur komið fram að Björn Ingi framsóknarleiðtogi verði formaður í borgarráði.
Það eru mikil sárindi meðal minnihlutaflokkanna þriggja: Samfylkingar, VG og Frjálslyndra. Mikil eru sárindi Ólafs F. Magnússonar sem var í óformlegum viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn. Upp úr þeim viðræðum slitnaði. Það var mat sjálfstæðismanna að samhentari meirihlutamynstur væri í samstarfi við Framsóknarflokkinn. Það er frekar kostulegt að hlusta á Ólaf F. tala um viðræðuslitin sem ígildi endaloka hjónabands. Saman gekk ekki og auðvitað hélt Sjálfstæðisflokkurinn áfram að fara yfir kosti. Það er bara þannig þegar mynda þarf starfhæfan meirihluta að þá þarf að skanna stöðuna vel og finna ákjósanlega samstarfsflokka sem geta stýrt af krafti. Frjálslyndir sýndu það og sönnuðu að þeir eru ekki beint hentugir í málamiðlunum í borgarmálunum og því fór sem fór. Það er eðlilegt að þeir séu ekki sáttir með hlutskipti sitt í þriggja flokka minnihluta þar sem hlutur þeirra verður mjög rýr.
Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir munu leiða minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur og væntanlega skipta minnihlutafulltrúum í nefndum og ráðum milli sín á meðan að frjálslyndir sitja hjá aðeins með áheyrnarfulltrúa. Samfylkingin missir með þessari meirihlutamyndun eitt öflugasta vígi sitt í stjórnmálum. Í hádeginu í dag var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir leiðtogi R-listans í þrem kosningum og núverandi formaður Samfylkingarinnar, gestur Kristjáns Más í hádegisviðtalinu á NFS. Þar var Ingibjörg Sólrún að reyna að tala af stillingu um nýja meirihlutann. Mikla athygli hennar vöktu þau ummæli að viðræður Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hefðu aðeins snúist um völd en engin málefni. Þetta eru undarleg orð frá formanni þess flokks sem var mest áberandi í umræðum um áframhaldandi líf valdabandalags R-listans í fyrra sem snerust bara um stólaskiptingar. Berin eru vissulega sýr fyrir ISG. En það er gleðiefni að þessi meirihluti taki brátt við í borginni.
Í Kópavogi hefur verið myndaður meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks undir forystu Gunnars Birgissonar. Mun hann verða bæjarstjóri áfram næstu fjögur árin. Í dag sagði Gunnar formlega af sér þingmennsku en hann hefur ekki verið á þingi frá því að hann varð bæjarstjóri og mun Sigurrós Þorgrímsdóttir nú verða alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í hans stað. Á Akranesi hefur verið myndaður meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Frjálslynda flokksins og mun Gísli S. Einarsson verða bæjarstjóri á Akranesi. Það eru svo sannarlega gleðileg tíðindi. Á Ísafirði hefur meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks verið endurmyndaður undir farsælli forystu Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra. Í Norðurþingi stefnir í meirihluta sömu flokka og blasa við endalok vinstrimeirihlutans á Húsavík sem nú er hluti af stóru sameinuðu sveitarfélagi. Í Fjallabyggð munu sömu flokkar væntanlega vinna saman.
Nú stefnir í meirihlutamyndun Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hér á Akureyri og Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Árborg. Líst mér vel á það ef sú niðurstaða verður raunin. Sérstaklega líst mér vel á að Sjálfstæðisflokkurinn vann hreina meirihluta mjög víða. Á Seyðisfirði er bærinn blár í bak og fyrir og ástæða til að óska góðum félögum í bæ þingflokksformannsins okkar til hamingju með stöðu mála. Í Hveragerði er glæsileg staða og greinilegt að Aldís og fólkið hennar hefur unnið vel og úrslitin góð í samræmi við það. Í Eyjum er staðan eins blá og hún getur orðið og glæsilegur sigur niðurstaðan þar. Sá mæti maður, Elliði Vignisson, verður þar bæjarstjóri. Mér hefur alltaf verið hlýtt til þeirra í Eyjum og vil því senda þeim góðar kveðjur með stöðu mála.
Merkilegast finnst mér þó hversu lítið fjölmiðlar fjalla um glæsilega sigra flokksins víða um land. Þar liggja stór tíðindi þessara kosninga og því skondið að heyra talað um vinstrisveiflu með fjölda hægrimeirihluta (hreinna meirihluta) víða um land. Þar liggja megintíðindin og væri ágætt ef einhver gæti bent fjölmiðlamönnunum á þá hægrisveiflu.
<< Heim