Kjördagur
Ég fór á kjörstað í Oddeyrarskóla á öðrum tímanum í dag til að kjósa í sveitarstjórnarkosningunum 2006. Það var auðvelt og gott verk. Vissulega er áróður bannaður á kjörstað en ég hélt samt sem áður með broskarlinn minn í barminum inn í kjördeildina. Þær Kolbrún og Arna voru í kjördeildinni minni, sem er sú níunda og síðasta enda bý ég í Þórunnarstræti, og átti ég við þær létt og gott spjall. Það gekk auðveldlega að setja kross við D - bókstafinn okkar. Það var lítið sem engin biðröð í kjördeildinni minni en greinilegt er að mikil kjörsókn hefur verið hér á Akureyri í dag og um hádegið höfðu þegar 20% kjósenda mætt í Oddeyrarskóla til að kjósa. Hér er sól og blíða - veður eins og best verður á kosið. Kristján Þór og Lilla mættu á kjörstað snemma og er meðfylgjandi mynd tekin af því tilefni er þau mættu til að greiða atkvæði.
Klukkan 14:00 hófst kosningakaffi okkar á Hótel KEA. Þar var mikill mannfjöldi og sannkallað líf og fjör. Konurnar í Vörn, félagi sjálfstæðiskvenna, héldu utan um kaffið með glæsibrag og svignuðu borð undan ómótstæðilegum krásum. Bendi fólki á að líta á myndir frá kosningakaffinu sem segir allt sem segja þarf um stemmninguna og fólksfjöldann.
Við erum bjartsýn á gott gengi og vonum að dagurinn í dag verði sannkallaður sigurdagur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. :D
<< Heim