Stefnir í spennandi kosningar um allt land
Kosningabaráttunni er að ljúka. Komið er að seinasta deginum í alvöru kosningabaráttu. Það stefnir í spennandi úrslit um allt land á morgun. Skoðanakannanir í Reykjavík benda til þess að ekki sé víst hvort að Sjálfstæðisflokknum takist að ná hreinum meirihluta og ráða einn í borginni næsta kjörtímabilið. Ennfremur hefur nú birst ein könnun frá sem sýnir Björn Inga Hrafnsson inni en alla kosningabaráttuna fram að því hafði hann mælst úti. Skv. könnun í Fréttablaðinu í dag stefnir í svo jafnan slag í borginni að hvert atkvæði gæti í raun skipt máli. Í Kópavogi stefnir í sigur Gunnars Birgissonar og Sjálfstæðisflokksins. Í Hafnarfirði stendur Samfylkingin að því er virðist mjög vel og er baráttan greinilega um það hvort að flokkurinn nái sjöunda bæjarfulltrúanum. Í Reykjanesbæ stefnir í öruggan sigur Sjálfstæðisflokksins undir forystu Árna Sigfússonar fyrrum borgarstjóra.
Framundan eru mikilvægar kosningar á Akureyri. Eins og kannanir hafa verið að þróast á síðustu metrum baráttunnar eru blikur á lofti. Greinilegt er að vinstriöflin hér í bæ hafa eflst að nokkru leyti - sumpart á kostnað Framsóknarflokksins, sem hér á í erfiðleikum rétt eins og víða um land. Staða okkar virðist óljósari en í fyrri tveim kosningunum. Í könnun Gallups á dögunum blasti við okkur það landslag að svo gæti farið að þriggja arma (ósamstíga og valdaþyrst) vinstristjórn gæti tekið við völdum hér að loknum kosningunum. Staða mála er nú skýr. Tveir valkostir blasa við hinum almenna kjósanda í sveitarfélaginu: annaðhvort kýs hann farsæla forystu Kristjáns Þórs Júlíussonar, fagmanns í forystu sveitarfélaga og öflugs bæjarstjóra, í tveggja flokka samstarfi eða þá þriggja framboða vinstrilitaða stjórn. Kjósendur hafa því skýran valkost fyrir framan sig þegar að þeir líta til forystu Sjálfstæðisflokksins hér í tæpan áratug.
Við sjálfstæðismenn ætlum að hittast í göngugötunni í dag kl. 15:30 og skemmta okkur saman. Boðið verður upp á fjölbreytt tónlistar- og skemmtiatriði, m.a. mun Jónsi í Svörtum fötum mæta á svæðið, Bláa bandið og Cirkus Atlantis auk þess sem óvæntar uppákomur verða. Andlitsmálning verður fyrir börnin og fólk fær gefins happdrættismiða, en glæsilegir vinningar verða dregnir út á staðnum, m.a iPod nano og gsm-símar. Þá geta gestir satt hungur sitt með pylsum, gosdrykkjum og vatni. Sjálfstæðisfólk sem og aðrir eru hvattir til að koma við í göngugötunni síðdegis og spjalla við frambjóðendur sem verða á staðnum.
Hittumst hress í dag! :D
<< Heim