Líf og fjör á lokadegi kosningabaráttunnar
Kosningabaráttunni lauk í dag með miklum krafti. Það var líf og fjör í göngugötunni í Hafnarstræti síðdegis en þá var efndum við sjálfstæðismenn til fjölskylduhátíðar D-listans. Hún var virkilega vel sótt. Ég var á fullu með frambjóðendum að setja á pylsur og gefa fólki gos. Mér telst til að ég hafi sett á vel um 80 pylsur. Þetta var alveg frábær dagur. Sólin skein og það var virkilega jákvæð og góð stemmning í fólki. Mikill fjöldi fólks kom og þáði veitingar - grillaðar pylsur og gos. Jónsi í Svörtum fötum tók lagið við góðar undirtektir og var vel fagnað. Það hefur aldrei vantað stuðið í Jónsa og hann heillaði fjöldann með flottum söng og líflegri framkomu. Bláa bandið lék líka fyrir vegfarendur og félagar í Cirkus Atlantis voru á svæðinu. Þá var börnunum boðið upp á andlitsmálningu, happdrættismiðum var dreift og dregið á staðnum um fjölda góðra vinninga.
Aðalvinningurinn, iPod, gekk ekki út en fólk varð að vera á staðnum og framvísa miða með vinningsnúmeri. Reynt var þrívegis að koma vinningnum út, en eftir tilraunirnar þrjár var ákveðið að færa Barnadeild FSA tækið og verður það væntanlega afhent á morgun, laugardag. Stemmningin var góð, líkt og verið hefur á öðrum þeim viðburðum sem Sjálfstæðismenn hafa efnt til nú í kosningabaráttunni og undirtektir gesta sem komu við í göngugötunni voru jákvæðar. Allir í fínu skapi, enda sólin farin að skína og það eykur mönnum bjartsýni á góðan árangur á morgun, á kjördag.
Í kvöld hittumst við ungliðar svo á Kaffi Akureyri og vorum með gleðskap. Horfðum við fyrst á kappræður leiðtoga framboðanna sex sem voru á sama tíma á Aksjón og skemmtum okkur svo vel á eftir yfir léttum veigum. Það var mikill mannfjöldi á Kaffi Akureyri og lífleg stemmning - það var gaman að gíra sig upp fyrir kosningarnar þar.
<< Heim