Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 maí 2006

Baráttukveðjur sendar austur

Frambjóðendur í Fjarðabyggð og forysta flokksins

Ég er eins og flestir vita með taugar austur á land. Ég fylgist því auðvitað spenntur með því hvernig félögum mínum í Fjarðabyggð muni ganga í kosningunum á laugardag. Þar er öflugur og góður framboðslisti og mikið líf og fjör í baráttunni. Ég hef fylgst með baráttunni þeirra úr fjarska og litist vel á. Þar eru flokksmenn að berjast fyrir því að þriðji maður á lista, Jens Garðar, nái inn. Skv. könnunum er það góður möguleiki og sumar kannanir sýnt reyndar jafna stöðu Sjálfstæðisflokksins og Fjarðalistans. Aðalkosningamálið er án nokkurs vafa mikilvægi betri samgangna milli Eskifjarðar og Norðfjarðar - íbúar vilja ný göng - og öll framboð vilja þau sem fyrst. Það er auðvitað mikilvægt að tryggja að þau komi til sögunnar þegar að göng um Héðinsfjörð hafa orðið að veruleika.

Halldór Blöndal leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, ritar góða grein um málið í Moggann í gær og fer yfir það frá sinni hlið. Þar segir hann orðrétt: "Fyrir síðustu kosningar lýsti ég því yfir, að ég mundi berjast fyrir því af alefli að í Norðfjarðargöng yrði ráðist. Niðurstaða er ekki komin í þau mál, en ég tel þau brýnust þeirra ganga, sem nú eru í
undirbúningi. Til skýringar hef ég stundum tekið dæmi af Súgandafirði og þær breytingar sem urðu vestra við jarðgangagerðina þangað. Ætli Súgfirðingar gætu hugsað sér í dag, að 630 metra fjallvegur skildi á milli þeirra og Ísafjarðar? Ætli það.
"

Ég tek undir þessi orð Halldórs og vona að þessi göng verði að veruleika sem fyrst til hagsbóta fyrir íbúana í hinni nýju Fjarðabyggð, enda eru gömlu Oddskarðsgöngin löngu orðin barn síns tíma. Þegar að foreldrar mínir bjuggu á Eskifirði voru deilur um legu ganganna og margir töldu þá að lega þeirra myndi verða átakamál síðar. Faðir minn vann við framkvæmdina og alltaf er gaman að ræða við hann um málið. Hann hefur reyndar sagt, sem er auðvitað rétt, að göngin hafi orðið úreld um leið og þau urðu til, enda voru þau aldrei viðunandi. Ég endurtek baráttukveðjur austur og vona að þau vinni góðan sigur á laugardag.