Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 maí 2006

Sleifarlag Ríkisútvarpsins í kosningaumfjöllun

RÚV

Í upphafi vikunnar tókust leiðtogar framboðslistanna sex í kosningunum hér á Akureyri á um málefni kosningabaráttunnar í Kastljósi Sjónvarpsins. Mikla athygli vakti að leiðtogarnir þurftu í miðjum klíðum seinustu viku kosningabaráttunnar að gera sér ferð suður á land til að takast á um kosningamálin. Fundurinn var enda tekinn upp í myndveri Sjónvarpsins í Efstaleiti en ekki hér á Akureyri eins og í kosningunum 1998 og 2002 þegar að fréttamenn Sjónvarpsins hér nyrðra ræddu kosningamálin hér fyrir norðan á heimavelli. Nú var Eyrún Magnúsdóttir spyrill í þættinum - manneskja sem enga sérstaka þekkingu hefur á bæjarmálum hér eða hefur sett sig af alvöru inn í málin. Það verður að segjast alveg eins og er að Eyrún stóð sig ekki vel og þátturinn var í raun hvorki fugl né fiskur. Þar var rætt um málin með nokkuð undarlegum hætti og Eyrún hafði enga alvöru yfirsýn yfir umræðuna og var þátturinn frekar slappur fannst mér.

Það er mjög undarlegt að ekki sé hægt að taka þennan þátt upp hér fyrir norðan og láta þá fréttamenn sem fjalla dags daglega um bæjarmálin í fréttum stjórna þætti af þessu tagi eins og ávallt hefur verið gert. Það vekur mikla athygli í aðdraganda þessara kosninga hvernig að NFS hefur gjörsamlega valtað yfir Ríkisútvarpið í öllu umfangi og heldur mun betur um pakkann. Það er tákn nýrra tíma að NFS fari út á land og ræði sveitarstjórnarpólitík við leiðtoga framboðslistanna á heimavelli. Ríkisútvarpið hefur gjörsamlega brugðist í þessu nú og fer ekki út á land til að ræða pólitíkina á stöðunum. Það er óneitanlega tekið eftir þessu verklagi RÚV.

Á hátíðarstundum er oft talað um menningarhlutverk RÚV og að það sé svo mikilvægt til að standa vörð um landsbyggðina. Það er því skondið að sjá að RÚV leggur sig ekki eftir því að ræða sveitarstjórnarpólitíkina á heimavelli með þeim hætti sem best hentar. Það er frekar slæmt fyrir RÚV að geta ekki staðið sig betur og auðvitað vekur þetta þá spurningu hvort að svæðisfréttamönnunum sé ekki treyst fyrir því að stjórna svona umræðu í Kastljósi.