Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 maí 2006

Líður að lokum kjörtímabilsins

Ráðhúsið við Geislagötu

Það er komið að lokum kjörtímabilsins í sveitarstjórnarmálum. Í dag var haldinn í Ráðhúsinu við Geislagötu síðasti fundur þeirrar bæjarstjórnar Akureyrar sem kjörin var 25. maí 2002. Í þeim kosningum hlaut Sjálfstæðisflokkurinn fjóra fulltrúa kjörna, Framsóknarflokkurinn hlaut þrjá, Listi fólksins hlaut tvo og VG og Samfylkingin hlaut hvor um sig einn fulltrúa kjörin. Í bæjarstjórn á tímabilinu hafa allir bæjarfulltrúar setið sín fjögur ár, sem er annað en kjörtímabilið á undan þegar að miklar breytingar áttu sér stað innan flestra framboða en tímabilið 1998-2002 sátu t.d. tveir bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins af fimm kjörtímabilið á enda. Kjörnir bæjarfulltrúar á þessu tímabili voru: Kristján Þór Júlíusson, Þóra Ákadóttir, Þórarinn B. Jónsson, Sigrún Björk Jakobsdóttir, Jakob Björnsson, Gerður Jónsdóttir, Jóhannes Bjarnason, Oddur Helgi Halldórsson, Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir, Oktavía Jóhannesdóttir og Valgerður H. Bjarnadóttir.

Myndaður var meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að kosningum loknum. Kristján Þór var bæjarstjóri, Þóra forseti bæjarstjórnar og Jakob varð formaður bæjarráðs. Eins og fyrr segir sátu allir bæjarfulltrúar tímabilið á enda sem hefur ekki gerst hér í bæjarmálunum um langt skeið. Það bar þó auðvitað til í árslok 2005 að Oktavía Jóhannesdóttir sagði skilið við Samfylkinguna og gekk til liðs við okkur í Sjálfstæðisflokknum. Samhliða því missti Samfylkingin sinn eina fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar og hefur því seinasta hálfa ár kjörtímabilsins ekki átt neinn málsvara á bæjarstjórnarfundum. Það er auðvitað mjög sögulegt að jafnaðarmannaflokkur af tagi Samfylkingarinnar eigi ekki nú um stundir neinn bæjarfulltrúa. Síðan að Oktavía fór til okkar hafa fulltrúar Samfylkingarinnar fjölmennt á áhorfendabekki bæjarstjórnar og fylgst með í fjarlægð. En væntanlega mun það breytast í kosningunum eftir 18 daga.

Nokkrir bæjarfulltrúar sátu sinn síðasta bæjarstjórnarfund í dag og sumir segja alfarið skilið við bæjarmálin. Þau þáttaskil verða samhliða kosningunum í lok mánaðarins að þrír af fimm leiðtogum framboðslista í kosningunum 2002 hverfa úr bæjarstjórn að kosningum loknum. Það eru Jakob Björnsson, Oktavía Jóhannesdóttir og Valgerður H. Bjarnadóttir. Jakob er aldursforseti bæjarstjórnar Akureyrar og hefur setið þar samfleytt í sextán ár og verið leiðtogi Framsóknarflokksins í tólf ár af þeim. Hann var bæjarstjóri hér á Akureyri kjörtímabilið 1994-1998 - sem var síðasta gullaldarskeið flokksins í bæjarmálunum en það tímabilið átti flokkurinn fimm menn í bæjarstjórn. Það er af sem áður var segir eflaust einhver núna. Jakob flutti kveðjuræðu undir lok fundarins í dag og minntist þar á að hann hefði setið vel á sjöunda hundrað bæjarráðsfunda og rúmlega 300 bæjarstjórnarfundi að auki þessi 16 ár.

Oktavía Jóhannesdóttir er ennfremur á útleið í bæjarstjórn, allavega að sinni. Á tímabilinu hef ég kynnst Oktavíu bæði sem pólitískum samherja og andstæðingi. Mér hefur alltaf líkað vel við Oktavíu þó ekki höfum við alltaf verið sammála. Ég er þeirrar gerðar að ég vil meta það fólk sem leggur vinnu og áhuga í stjórnmál. Það sést fljótt hvort fólk er í stjórnmálum af áhuga eður ei. Ég hef kynnst því að Oktavía er feykilega vinnusöm og gerir ávallt sitt besta. Það má alltaf treysta því að hún setji sig vel inn í málin og hafi áður en hún fer yfir stöðu málaflokksins sem hún fjallar um kynnt sér hann vel. Ennfremur kveður Valgerður Bjarnadóttir nú bæjarstjórn er þetta kjörtímabil kveður. Hún ákvað að segja skilið við bæjarmálin eftir að hafa orðið undir í leiðtogaslag innan síns flokks. Þó að við höfum oft orðið ósammála met ég að hún er trú sínum hugsjónum. Ennfremur kveður Marsibil Fjóla bæjarmálin nú eftir fjögurra ára setu.

Þóra Ákadóttir sem verið hefur forseti bæjarstjórnar Akureyrar allt kjörtímabilið sat í dag sinn síðasta bæjarstjórnarfund. Þóra hefur verið í forystusveit okkar sjálfstæðismanna í tvö kjörtímabil. Hún tók sæti í bæjarstjórn fyrir fimm árum er Valgerður Hrólfsdóttir lést eftir erfið veikindi. Það var okkur áfall að missa hana, en hún tapaði erfiðri baráttu fyrir ólæknandi sjúkdómi, langt um aldur fram. Þóra hefur síðan verið enn meira áberandi í forystunni og varð svo forseti bæjarstjórnar er Sigurður J. Sigurðsson hætti í bæjarmálum síðla árs 2001 og skipaði hún annað sætið á lista okkar í kosningunum 2002. Þóra hefur sinnt þessum forystuverkum með glæsilegum hætti - hún kom inn í bæjarmálin í sigursveitinni 1998 - þegar við unnum af krafti fyrir forystuskiptum. Hún kom í bæjarstjórn svo á erfiðum tímamótum fyrir flokkinn. Hún hefur stýrt bæjarstjórn með tignarlegum hætti og sett svip á fundi bæjarstjórnar.

Ég vil þakka öllum þeim bæjarfulltrúum sem sátu í dag sinn síðasta fund í bæjarstjórn Akureyrar fyrir góð verk sín í þágu Akureyrarbæjar. Þrátt fyrir ólíkar skoðanir á grunnpunktum stjórnmálanna eigum við öll það sameiginlegt að vilja hag þessa sveitarfélags sem mestan. Það stefnir í miklar breytingar á bæjarstjórn eftir átján daga og verður fróðlegt að sjá hverjir muni taka sæti þeirra sem víkja á braut. Fyrst og fremst vil ég sem formaður sjálfstæðisfélags á Akureyri þakka Þóru Ákadóttur fyrir öll góðu samskiptin á þessum árum sem við höfum átt saman í flokksstarfinu hér nú þegar að hún lætur af trúnaðarstörfum fyrir flokkinn hér á Akureyri. Hún er heiðurskona sem hefur verið forréttindi að vinna með - við njótum krafta hennar áfram en með öðrum hætti.