Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 maí 2006

Í minningu Lilju

Lilja Guðmundsdóttir nemi og frambjóðandi á lista VG hér á Akureyri lést á mánudaginn, þann 1. maí, aðeins tvítug að aldri. Lilja var að mínu mati mikil hetja. Hún barðist lengi við erfiðan sjúkdóm með ótrúlegum krafti. Persónulegur styrkur hennar í baráttunni við krabbann var öllum ljós sem með fylgdust. Mér fannst það glæsilegt hjá Lilju, mitt í veikindum sínum, að gefa kost á sér í prófkjör VG fyrr á árinu - tala fyrir pólitískum skoðunum sínum af krafti og ná góðum árangri. Skipaði hún sjötta sæti listans og hafði komið af krafti inn í kosningabaráttuna og verið áberandi með mörgum hætti. Snögglegt fráfall hennar í skugga veikindanna er mikill harmleikur og okkur öllum sorglegt sem þátt tökum í kosningabaráttunni hér. Það er sjónarsviptir að svo öflugri stelpu á borð við Lilju. Ég vil votta fjölskyldu hennar, vinum og félögum innan VG innilega samúð mína vegna andláts hennar. Minning hennar mun lifa.