Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 maí 2006

Kveðjufundir Steinunnar Valdísar

Steinunn Valdís Óskarsdóttir

Það eru 20 dagar til sveitarstjórnarkosninga. Lokaspretturinn er víðast kominn á fullan skrið. Mörgum þykir baráttan hafa verið litlaus en frambjóðendur eru á ferð og flugi eins og vera ber. Mesti fókusinn á kosningabaráttuna er í Reykjavík. Þar sýna kannanir að Sjálfstæðisflokkurinn er á sigurbraut og vinstrimeirihlutinn sé á hverfanda hveli. Það gerist nú í fyrsta skipti í 24 ár að borgarstjórinn í Reykjavík er ekki í baráttu um að halda starfinu sínu eftir kosningar. Egill Skúli Ingibergsson borgarstjóri á vinstritímanum 1978-1982 var ráðinn sem embættismaður og framkvæmdastjóri hjá Reykjavíkurborg og allir vissu í aðdraganda kosninganna að Egill Skúli væri ekki borgarstjóraefni og hyggði ekki á áframhaldandi vist á borgarstjórastóli. Allir vissu að Davíð Oddsson og Árni Sigfússon voru borgarstjóraefni er þeir börðust fyrir því að verja embætti sín í þrem kosningum 1982-1994 og auðvitað var Ingibjörg Sólrún borgarstjóraefni R-listans í þrem kosningum. Annað er upp á teningnum nú.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir á aðeins rétt rúman mánuð eftir í embætti borgarstjóra. Það er öllum ljóst að hún getur ekki haldið embætti sínu í kjölfar þessara kosninga. Það sést vel á öllum kynningarmálum Samfylkingarinnar að Steinunn Valdís heldur sér mjög til hlés og lætur Degi B. Eggertssyni eftir sviðsljósið. Enn frekar má þetta segja um Stefán Jón Hafstein, fráfarandi leiðtoga flokksins innan R-listans, sem varla sést í kosningabaráttunni. Skilin eru skýr og kosningabaráttan er spiluð af Degi og á þeim línum sem hann vill. Samfylkingarfólk í Reykjavík vildi ekki að Steinunn Valdís yrði borgarstjóraefni og leiðtogi flokksins í kosningunum 27. maí nk. Henni og Stefáni Jóni Hafstein var hafnað í prófkjörinu og nýliða innan flokksins var lyft til skýjanna. Það er greinilegt á mörgum innan Samfylkingarinnar að þeir telja nú að vitlaust hafi verið valið í því prófkjöri og ekki hafi réttar áherslur farið í gegn. Þar hafi verið veðjað á rangan hest.

Hefði Samfylkingin í Reykjavík hugsað taktískt fyrir þeim áherslum sem ætti að skila þeim á sigurbraut í þessum kosningum hefðu þeir valið Steinunni Valdísi til forystu. Það vakti mikla athygli að flokksfélagar hennar skyldu hafna henni eftir öll hennar verk, ekki bara fyrir Samfylkinguna heldur R-listann sem heild. Reyndar má segja að það hafi verið formaður flokksins sem hafi hafnað borgarfulltrúum flokksins og sótt inn lækninn myndarlega sem talar tóma steypu - talar svo háfleygt að almenningur skilur ekki. Það sýna kannanir og það sýnir umræðan í þessari kosningabaráttu. Degi hefur mistekist að ná til fólks og Samfylkingin spilar baráttuna að mestu leyti í vörn - sækir ekki fram að neinu ráði og hefur heldur engin mál fram að færa. Ég held að Steinunn Valdís hefði verið betri kostur fyrir þá. Hún var eina manneskjan sem samstaða náðist um í borgarstjórastól þegar að Þórólfur hrökklaðist burt og vann ótrúlega vel úr vondri stöðu R-listans.

Núna í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna fer Steinunn Valdís um hverfi borgarinnar og fundar með borgarbúum. Þeir fundir verða vart túlkaðir öðruvísi en sem kveðjustund borgarstjórans fráfarandi með borgarbúum. Steinunn Valdís er að hætta sem borgarstjóri og verður óbreyttur borgarfulltrúi eftir kosningarnar síðar í mánuðinum. Hvíslað er um að hún stefni á þingframboð að ári og það geri einnig Stefán Jón Hafstein. Það kemur ekki neinum á óvart að heyra þennan orðróm og þau gera ekkert til að slá á hann. Það stefnir allt í skipbrot vinstrimeirihlutans eftir 20 daga í borgarstjórnarkosningum. Það búast fáir við því að borgarstjórinn fráfarandi ætli sér að verða aukapersóna í borgarstjórnarflokki leiddum af Degi B. Eggertssyni. Henni bíða tækifæri í landsmálum og væntanlega stefnir hún á þau mið með haustinu. Hvernig er hægt að túlka fundaferð hennar um borgina nú öðruvísi en sem kveðjufundi borgarstjóra sem á ekki séns á að verja sess sinn?

Það er einmitt þannig sem ber að túlka það. Vissulega er Steinunn Valdís frambjóðandi í þessum kosningum en nefnið mér borgarstjóra í Reykjavík sem hefur sætt sig við það að vera óbreyttur borgarfulltrúi í minnihluta eftir að hafa verið borgarstjóri og stefni á hærri markmið á þeim velli í náinni framtíð? Þeir eru fáir. Við megum enda svo sannarlega búast við því að þeir borgarfulltrúar Samfylkingarinnar sem flokksmenn höfnuðu til leiðtogavistar í borgarmálunum stefni brátt yfir Vonarstrætið í gamla grálitaða húsið við Austurvöll. Steinunn Valdís er allavega mjög líkleg til frama í landsmálum þegar að þau þáttaskil hafa átt sér stað að hún hefur pakkað niður á borgarstjóraskrifstofunni eftir mánuð og yfirgefur forystusæti sitt þar. Hún hlýtur að leita á önnur mið - söguleg dæmi eru engin enda fyrir því að fyrrum borgarstjórar hjakki lengur á þessum vellinum en þarf.

Enda hví ætti sá sem hefur verið borgarstjóri að vera varaskeifa einhvers sem hefur verið í flokknum í örfáa mánuði?