Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 maí 2006

Þáttaskil framundan í Verkamannaflokknum

John SmithTony Blair

Í dag eru 12 ár liðin frá andláti breska stjórnmálamannsins John Smith. Það eru eflaust ekki allir stjórnmálaáhugamenn á Íslandi sem vita til fulls hver John Smith var. Hann var forveri Tony Blair á leiðtogastól breska Verkamannaflokksins. Hann hafði einungis leitt Verkamannaflokkinn í tvö ár er kom að snögglegu andláti hans. Hann hafði af flestum verið talinn við andlátið á hápunkti stjórnmálaferils síns og við blasti að hann myndi leiða Verkamannaflokkinn til sigurs í þingkosningum. Það varð hans hlutskipti að taka við flokknum eftir að Neil Kinnock sagði af sér leiðtogastöðunni í kjölfar tveggja ósigra í þingkosningum. Tap Verkamannaflokksins í kosningunum 1992 varð sögulegt en í öllum skoðanakönnunum var flokkurinn með marktækt forskot en mistókst að vinna sjálfar kosningarnar.

Úrslitin kölluðu á breytingar í flokknum en tryggðu áframhaldandi stjórnarforystu Íhaldsflokksins undir forystu John Major, sem tekið hafði við lyklavöldum að Downingstræti 10 tveim árum áður er Margaret Thatcher missti stjórnina á Íhaldsflokknum eftir 11 ára forsætisráðherraferil. Verkamannaflokkurinn gekk í kjölfar þessa í gegnum allsherjar naflaskoðun. Skipt var um meginlínur, lykilpunkta, stefnuplan og síðast en ekki síst leiðtoga. Það varð skotans John Smith að móta þessa leið. Hann byrjaði þá vinnu sem fólst í því að gera Verkamannaflokkinn að vinstrisinnuðum miðjuflokk - kastað var fyrir borð lykilpunktum gamla Verkamannaflokksins. Segja má því að valdaferill Margaret Thatcher og sterk staða Íhaldsflokksins hafi breytt breskum stjórnmálum umtalsvert.

Er John Smith varð leiðtogi Verkamannaflokksins varð flokkurinn að nýju tákni. Smith hafði reyndar verið lengi einn af forystumönnum hans og hafði setið á þingi allt frá árinu 1970 og verið viðskiptaráðherra 1978-1979 í ríkisstjórn James Callaghan. Verkamannaflokkurinn missti völdin í þingkosningunum 1979 og varð eyðimerkurganga hans löng. Verkefni Smiths varð innan flokksins að binda enda á þá göngu og gerði hann sér grein fyrir því hvert þyrfti að stefna til að leiða til þáttaskila í breskum stjórnmálum. Hann hóf vinnuna að því að koma flokknum til öndvegis og athygli vakti er hann hóf að skera á tengslin við vinstrisinnaðasta hluta flokksins til að minnka áhrif verkalýðsfélaganna innan hans. Smith virtist á sigurbraut og mældist flokkurinn ávallt með ráðandi stöðu í könnunum á þessum tíma.

Mitt í þessum umskiptum kom að snögglegu fráfalli hans. Hann hafði verið hjartveikur til fjölda ára og fengið hjartaslag árið 1988 en samt ekki verið metinn í áhættuhóp. Hann hvarf því snögglega af hinu pólitíska sviði. Fráfall hans varð reiðarslag fyrir Verkamannaflokkinn og bresku þjóðina, en búist hafði verið við því að hann myndi leiða flokk sinn til sigurs í næstu kosningum og talið öruggt að hann yrði næsti forsætisráðherra. Flokkurinn varð sem lamaður eftir fráfall hans. Það kom í hlut Margaret Beckett (núverandi utanríkisráðherra Bretlands) að taka við leiðtogastöðu flokksins tímabundið, enda var hún varaleiðtogi flokksins. Í leiðtogakjöri flokksins í júlí 1994 kom, sá, og sigraði Tony Blair þáv. talsmaður flokksins í innanríkismálum - það varð hans að láta hið nýja upphaf sem markað var af John Smith verða að veruleika.

Allir vita eftirleikinn. Verkamannaflokkurinn vann bresku þingkosningarnar 1997 og Tony Blair varð forsætisráðherra Bretlands. Íhaldsflokkurinn galt afhroð og 18 ára valdatíð flokksins lauk í skugga kosningaósigurs sem varð svo gríðarlegur að John Major sagði af sér leiðtogastöðu flokksins og hvarf úr kastljósi stjórnmálanna. Síðan hafa fjórir leiðtogar leitt flokkinn og eyðimerkurganga hans er að verða ískyggilega lík þeirri sem Verkamannaflokkurinn varð að feta allt þar til að John Smith og Tony Blair leiddu Verkamannaflokkinn til þess stórveldis sem það hefur verið í breskum stjórnmálum í áratug. Á valdatíma Verkamannaflokksins hefur Tony Blair staðið vörð um arfleifð sína og verk á leiðtogastóli. Á móti kemur að persóna og stjórnmálaleg forysta John Smith hafa fallið í skuggann og margir gleymt þeim manni sem markaði upphafið að sigurbraut flokksins - umbreytingarskeiðinu mikla.

Tólf árum eftir fráfall John Smith blasa ný þáttaskil við breska Verkamannaflokknum - ný pólitísk staða er að skapast. Það leikur enginn vafi á því að tekið er að fjara undan Tony Blair í breskum stjórnmálum. Svo virðist vera að slappt gengi Verkamannaflokksins í sveitarstjórnarkosningum hafi veikt stöðu hans verulega. Undanfarna daga hefur komið vel fram vilji órólegu deildarinnar í flokknum að Blair tímasetji brotthvarf sitt úr pólitík. Áður hefur hann sagst hætta á kjörtímabilinu og ekki gefa kost á sér í næstu þingkosningum eftir sigur í þrennum kosningum og níu ára umdeildan en óneitanlega sögulegan forsætisráðherraferil. Nú vill þessi hópur vinstrisinnuðustu þingmanna flokksins að hann taki af skarið og ljúki öllum vangaveltum með yfirlýsingu um málið.

Í vikunni reyndi Blair að snúa vörn í sókn með blaðamannafundi í Downingstræti 10 þar sem hann svaraði andstæðingum sínum innan flokksins fullum hálsi. Hann neitaði þar af krafti að verða við þessari beiðni og storkaði andstæðingum sínum. Annaðhvort ættu þeir að hjóla í hann ef þeir væru ósáttir eða sætta sig við að hann hefði verið kjörinn af þjóðinni til sinna verka fyrir rúmu ári. Umboð sitt væri skýrt þetta kjörtímabilið. Það hefur vakið mikla athygli seinustu daga að nú hefur Blair breytt tali sínum varðandi einn veigamikinn þátt. Í fyrsta skipti segist hann nú láta af embætti vel fyrir lok tímabilsins svo að eftirmaður sinn gæti tekið sinn tíma í að setja sinn svip á flokkinn og ríkisstjórnina. Þetta er í fyrsta skipti sem Blair talar ekki með þeim hætti að hann muni sitja tímabilið á enda.

Þetta er skýr áherslubreyting og gefur til kynna sátt til óánægjuaflanna um að hann muni hætta fyrr en seinna, væntanlega hefur hann í hyggju að hætta eftir tíu ára valdaafmælið í maí 2007 og fela Gordon Brown völdin. Það er þó alls óvíst hvort þessi sátt dugi fyrir Blair til að halda völdum. Hvort skaðinn sé orðinn meiri en lagað verði að óbreyttu. Það er augljóst að hart er sótt að Blair og harkan er meiri en nokkru sinni áður. Hér er greinilega um að ræða einvígi milli hægri- og vinstrilínanna innan flokksins. Þessar átakalínur eru ekki nýjar. Blair hefur alla tíð barist við vinstrihlutann í flokknum. Sá armur hefur aftur á móti eflst til mikilla muna eftir að halla tók undan fæti hjá forsætisráðherranum í kjölfar Íraksstríðsins og ýmissa undangenginna hneykslismála á þessu ári.

Þessi armur sækir nú fast að honum og krefst þess að hann víki, helst sem fyrst. Blair gefur ekki eftir og segist ekki ætla að nefna tímaplan breytinga á forystu flokksins. Athygli hefur vakið að Gordon Brown fjármálaráðherra, og sá sem helst er talinn líklegur næsti leiðtogi breska Verkamannaflokksins hvetur til stillingar og rólegri samskipta milli fylkinganna um stöðu mála. Hann vill reyna að lægja öldur. Það er auðvitað athyglisvert að Brown vilji leyfa Blair að yfirgefa bresk stjórnmál með þeim hætti sem hæfir honum eftir langan valdaferil. Það kemur mér ekki á óvart að Gordon Brown kippist við eins og staðan er orðin og vilji reyna að finna lausn sem hentar báðum aðilum. Ég tel að Gordon Brown vilji ekki verða Michael Heseltine Verkamannaflokksins.

Fyrir einum og hálfum áratug skoraði Michael Heseltine á hólm Margaret Thatcher þáverandi forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins í leiðtogakjöri. Afsögn Geoffrey Howe og trúnaðarbrestur hans og Thatcher veiktu mjög stöðu hennar og greiddu leiðina fyrir mótframboð. Svo fór að Heseltine tókst að safna nægum stuðningi til að koma í veg fyrir sigur Thatcher í fyrstu umferð og hún sagði af sér embætti þann 22. nóvember 1990 og varð undir í innri slag. Hinsvegar varð Heseltine undir í næstu umferð og varð aldrei leiðtogi Íhaldsflokksins. Heseltine varð þekktur sem maðurinn sem lagði Thatcher en mistókst að ná í mark pólitískt. Hann varð aðstoðarforsætisráðherra í ríkisstjórn John Major undir lok valdatíma flokksins en varð aldrei leiðtogi Íhaldsflokksins.

Minnugur þess að Heseltine varð sögulega ekki metinn neins eftir áhættu sína horfir Gordon Brown til þess að betra sé fyrir hann að Tony Blair fái að skilja við bresk stjórnmál sæll og glaður. Hann veit að sinn tími er handan við hornið en það gæti allt breyst komi til harðvítugs uppgjörs milli hans og forsætisráðherrans. Þá gæti arfleifð þeirra beggja og flokksins skaðast verulega. Það er því engin furða að Brown hiki við. Hinsvegar er öllum ljóst að hann vill að Blair hætti sem fyrst, helst innan árs svo að hann fái góðan tíma til að undirbúa sig og flokkinn fyrir kosningarnar næstu - einvígið við David Cameron og Íhaldsflokkinn. Í fyrsta skipti frá leiðtogakjöri John Smith fyrir einum og hálfum áratug er Íhaldsflokkurinn í sókn. Svo virðist vera sem að pólitískt veldi Verkamannaflokksins sé að líða undir lok.

Mitt í átökunum innan Verkamannaflokksins birtist ný könnun YouGov sem sýnir flokkinn með lægsta fylgi sitt í könnunum þeirra í fjórtán ár, frá árinu 1992 eftir kosningaósigur Kinnocks. Íhaldsflokkurinn mælist með 39%, Verkamannaflokkurinn hefur 29% og Frjálslyndir demókratar hafa 20%. Það er því óhætt að segja að landslagið sé breytt. Á sama tíma er svo David Cameron með meira fylgi er spurt er hver eigi að verða forsætisráðherra en Tony Blair og Gordon Brown. Það má búast við að blaðamannafundur Blairs hafi slegið á mestu gagnrýnina en ekki bundið enda á hana. Það er öllum ljóst að Blair er að missa tökin á flokknum og stöðu mála og ekki vitað hvort honum mun takast að yfirgefa bresk stjórnmál með sóma eftir langan valdaferil. Það er greinilegt að flokkurinn logar í óeiningu og samstaðan þar innanborðs á hverfanda hveli.

Það er svo spurningin hvort að hlustað verði á ákall Tony Blair til flokksfélaga um að horfa til verkefnanna framundan en ekki valdabaráttu um áhrif og forystusæti flokksins síðar meir. Það ræðst fljótlega hvort hann hefur stjórn á flokki sínum eður ei. Fipist honum sú stjórn má búast við miklum pólitískum tíðindum í Bretlandi í sumar. Hvort að Tony Blair lætur af embætti sjálfviljugur eða fer frá Downingstræti 10 sneyptur eins og Margaret Thatcher getur orðið ráðandi þáttur í því hvort að það pólitíska veldi sem John Smith lagði grunninn að á skömmum leiðtogaferli sínum líði undir lok eða lifi áfram undir nýrri forystu innan Verkamannaflokksins. Hvað við tekur eftir valdaferil Blairs er stór spurning sem við fáum bráðlega svar við væntanlega.