Fundur G8-ríkjanna haldinn í Rússlandi
Leiðtogafundur átta helstu iðnríkjanna hófst í St. Pétursborg í Rússlandi í dag og er hann sá 32. í röðinni. Þetta er í fyrsta skipti sem fundur af slíku tagi er haldinn í Rússlandi. Hópur leiðtoga valdamestu iðnríkja heims var stofnaður árið 1975. Fyrst í stað voru sex lönd í samstarfinu: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan og V-Þýskaland. Það var í nóvember 1975 sem þáverandi leiðtogar landanna hittust í fyrsta skipti saman í Rambouillet í Frakklandi í boði Valéry Giscard d'Estaing, þáv. forseta Frakklands, og ákveðið var að funda framvegis árlega í miðjum júlímánuði. Alla tíð síðan hafa þjóðirnar skipst á að halda fundinn og leiða starfið á fundinum. Ári síðar, 1976, bættist Kanada í hóp þjóðanna sex. Frá árinu 1991, við lok kalda stríðsins, varð Rússland hluti fundarins og varð svo fullgildur aðili í hópnum árið 1998. Fundurinn hófst svo formlega í St. Pétursborg í morgun. Fyrirfram ákveðin dagskrá riðlaðist strax er kom að byrjun fundarins. Átök fyrir botni Miðjarðarhafs settu svip sinn á fundinn og var það meginumræðuefni leiðtoganna fyrir hádegishlé. Var það bæði það málefni sem brann mest á blaðamönnum sem eru staddir í borginni og ekki síður leiðtogunum sjálfum sem telja stöðu mála í Beirút mjög slæma. Greinilegt hefur verið á yfirbragði fundarins að Pútín forseti, hefur lagt mikla rækt við að vel tækist til og fundurinn yrði ógleymanlegur, enda í fyrsta skipti sem Rússar eru gestgjafar á leiðtogi helstu iðnríkjanna. Óvænt átök í M-Austurlöndum og hryðjuverkin í Indlandi virðast þó frekar ætla að verða aðalmál fundarins en öryggismál sem forsetinn hafði fyrirfram lagt upp með sem meginmál og það sem helst ætti að ræða.
Í gær komu George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, til St. Pétursborgar ásamt eiginkonu sinni, Lauru Welch Bush. Bush kom fyrstur allra leiðtoganna til fundar við gestgjafa fundarins að þessu sinni, Vladimir Putin, forseta Rússlands. Ræddust þeir við langa stund og héldu saman að því loknu blaðamannafund. Voru þeir mjög sammála um marga þætti, t.d. hvað varðar kjarnorku- og hryðjuverkamál. Fyrir fundinn hafði Bush opinberlega sagst efast um hvort lýðræði væri eðlilegt í Rússlandi og hann myndi ræða þau málefni við Pútín á fundinum. Fyrirfram var búist við átökum milli leiðtoganna um þetta mál. Óhætt er að segja að mesta athygli á blaðamannafundinum hafi vakið áberandi ummæli Pútíns um að Rússar kærðu sig ekki um lýðræði eins og það sem Írakar hafi. Þetta var klárt skot á Bush vegna fyrri opinberra ummæla hans.
Þessi ummæli forsetans komu rakleitt í kjölfar orða Bush forseta um að vilji Bandaríkjastjórnar væri bundinn við það að stuðla að lýðræðisþróun um allan heim en hann nefndi sérstaklega sem dæmi í því efni frelsi fjölmiðla og trúarhópa í Írak. Greinilegt var að stuðandi umræður höfðu orðið á prívatfundum leiðtoganna um þetta mál og fundu fjölmiðlamenn mikinn hita á milli leiðtoganna vegna þessara mála. Sagði Bush forseti að Pútín hefði verið ákveðinn á fundinum, sagst vera tilbúinn til að hlusta á skoðanir hans en jafnframt komið því skýrt til skila að hann ætlaði ekki að láta neinn segja honum hvernig hann ætti að stjórna landi sínu. Greinilegt var á öllu að viðræður leiðtoganna hefðu verið með ákveðnum hætti og hvorugur viljað láta undan. Það mátti finna á öllu andrúmslofti að þvingandi bros voru á andlitum leiðtoganna í kjölfar viðræðnanna.
Fundinn að þessu sinni sitja, auk Bush og Pútíns, þau Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, Jacques Chirac, forseti Frakklands, Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans. Fyrirsjáanlegt er að Chirac og Koizumi sitji nú sinn síðasta leiðtogafund. Koizumi mun láta af embætti í september eftir að hafa setið lengst allra forsætisráðherra í Japan. Kjörtímabili Chiracs lýkur í maí á næsta ári og er talið ólíklegt að hann gefi kost á sér til endurkjörs til annars fimm ára kjörtímabils, enda er hann orðinn 74 ára gamall og heilsu hans virðist tekið að hraka. Af þeim leiðtogum sem sitja fundinn hefur Chirac setið flesta, enda hefur hann verið forseti Frakklands í ellefu ár, allt frá því í maímánuði 1995.
Að ári verður leiðtogafundur átta helstu iðnríkja heims haldinn í Heiligendamm í Þýskalandi. Gestgjafi fundarins þá verður dr. Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Með því verður hún önnur konan sem er gestgjafi slíks fundar, en Margaret Thatcher var gestgjafi leiðtogafundarins í London í júlí 1984. Fyrir þá sem vilja kynna sér dagskrá fundarins og meginatriði um hann er eindregið bent á að líta á heimasíðu hans.
<< Heim