Guðni reynir að verja varaformennskuna
Mörgum að óvörum tilkynnti Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, í dag um þá ákvörðun sína að sækjast eftir áframhaldandi varaformennsku í flokknum á flokksþingi í næsta mánuði. Allt frá því að Halldór Ásgrímsson, fráfarandi formaður flokksins, tilkynnti um þá ákvörðun að víkja úr forystu stjórnmála hefur verið talað um hvort að Guðni sem varaformaður í nokkur ár og forystumaður innan flokksins myndi sækjast eftir formennskunni. Sú ákvörðun Guðna að leggja ekki í formannsslaginn hljóta að teljast mikil pólitísk tíðindi. Guðni hefur verið þingmaður frá 1987, leitt Suðrið í flokknum frá 1995, verið ráðherra frá 1999 og varaformaður frá 2001. Það eru því stórfréttir að maður með hans bakgrunn í flokknum leggi ekki í formannskjör við þær aðstæður sem uppi eru.
Ég taldi aðeins fyrir nokkrum dögum útilokað að Guðni myndi sætta sig við áframhaldandi varaformennsku og myndi leggja ótrauður í formannsslag. Það hefði verið eina leið hans til að sverfa til stáls í þeirri vondu stöðu sem hann er í. Greinilegt er að Halldór Ásgrímsson ætlaði sér að láta Guðna hætta með sér í stjórnmálum. Það átti að slá hann niður og láta hann verða brottrækan frá sinni stjórnmálaforystu. Guðni snerist til varnar sinni stöðu og hafði betur en aðeins framan af. Með þeirri ákvörðun að kalla á Jón Sigurðsson til ráðherrastarfa valdi Halldór sér eftirmann með mjög greinilegum hætti og svo fór að hann lagði í formannskjörið fyrr en mörgum óraði fyrir og hefur nú þegar öðlast sterka stöðu innan flokksins og virðist njóta mikils fylgis. Guðni var sleginn niður með mikilli fléttu formannsins fráfarandi eins og ég hef áður bent á.
Guðni hefur væntanlega metið stöðuna þannig að hann gæti aldrei orðið formaður Framsóknarflokksins með þeim glans og virðingu sem hann hefði kosið. Hann hefði í besta falli unnið nauman sigur og í versta falli fengið útreið og farið sneyptur frá þeirri för. Hann hefur séð það fyrir að hann gæti væntanlega ekki unnið Jón og því aldrei leitt Framsóknarflokkinn af miklum krafti. Það er því skiljanlegt að hann reyni að taka næstbesta kostinn í stöðunni. Ég verð þó að viðurkenna að ég taldi að Guðni myndi frekar stíga af sínum stalli innan flokksins en að velja það að reyna við varaformennskuna áfram í þeirri stöðu sem uppi var. Greinilegt var að hópur formannsins fráfarandi hafði reynt að loka hann inni með ráðherrafléttunni í síðasta mánuði og gera hann í senn veikbyggðan og lítt sterkan til mikilla átaka.
Sú ákvörðun Jónínu Bjartmarz að gefa kost á sér til varaformennsku í flokknum áður en vitað var um hvað Guðni ætlaðist fyrir var kjaftshögg framan í Guðna. Hún hrærði verulega upp í forystukapli flokksins Það var reitt til höggs af hópi fráfarandi formanns með mjög augljósum hætti og Jónína lítillækkaði Guðna með ákvörðun sinni. Ákvörðun Guðna að leggja til atlögu við hana er þó enn merkilegri í ljósi þess að nú lítur Jónína allt í einu út sem manneskja í baráttu gegn sitjandi varaformanni. Aðstæður Jónínu hefðu verið allt aðrar hefði varaformennskan losnað með formannsframboði Guðna. Það veikir þó að mínu mati líka Guðna að leggja áfram í varaformannskjör. Eftir öll hans verk í forystu flokksins á landsvísu hlýtur það að vera Guðna áfall að verða að hætta við formannsframboð í skugga þess að geta ekki gengið að stuðningi vísum.
Guðni hefur mikið hugsað seinustu daga. Væntanlega hefur hann er á hólminn kom tekið þá yfirveguðu ákvörðun að reyna að verja varaformannsembættið í þeirri atlögu sem Halldórsarmurinn er augljóslega að sýna honum þessa dagana. Með þessari ákvörðun sendir Guðni líka almennum flokksmönnum þau skýru skilaboð að vilji þau hann ekki áfram sé hann hættur í stjórnmálum. Mér fannst líka áberandi af öllu tali hans í kvöld að hann vilji að flokkurinn sameinist sem mest um nýja forystu flokksins. Ég gat ekki séð að nein átök væri að sjá á honum almennt séð, nema þá hvað varðar það að hann ætlar að verja sitt embætti og sinn sess í forystu flokksins. Þó fannst mér enn merkilegra að hann lýsti ekki yfir beinum stuðningi við Jón Sigurðsson og fór mjög í kringum þau mál öll með yfirlýsingu um að flokksþingsins væri að velja formann.
Það er mitt mat að Guðni standi veikar eftir þessa ákvörðun. Það er þó mjög skiljanlegt mat hjá honum að leggja ekki í formannsframboð telji hann sig ekki geta orðið sterkan formann eða hafi ekki líkur á sigri í kosningunni. Það að hann ætli að verja varaformennskuna er tvíeggjað sverð fyrir hann. Guðni gæti fengið þann stimpil að hafa ekki þorað að leggja á klárinn og halda í átök á raunastundu - gefist upp í slagnum. Ennfremur gætu menn stimplað hann þannig að hann hafi ekki kraft til forystu í þeirri stöðu sem uppi sé og betra sé að skipta um varaformann vegna þess. Hann tekur allavega mikla áhættu þrátt fyrir allt og heldur í mikla óvissu. Greinilegt er enda að hópur fráfarandi formanns vill hann algjörlega burt nú.
Það má vissulega segja að hafi Guðni talið formannsframboð vonlaust hefði verið hreinlegra og stórmannlegra að ganga á dyr og halda í önnur verkefni. Það er þó ekki val hans. Hann ætlar að berjast af krafti fyrir sínu og mun eflaust leggja allt í sölurnar fyrir það. Sá slagur verður harður og fyrirséð að Jónína sé kandidat Jóns Sigurðssonar til verka. Má búast við átökum í þeirri kosningu. Þau Guðni og Jónína hafa tekist á um varaformennskuna áður. Þá fékk Jónína þriðjung atkvæða. Hennar staða er mun sterkari nú og má búast við að hún nái að veikja stöðu Guðna mjög. Það er eflaust það sem armur Halldórs stefnir að, en Halldór hefur aldrei unað Guðna forystu í flokknum og múraði hann inni til að slá á forystudrauma hans.
Það blasir við öllum að falli Guðni Ágústsson í kosningu til varaformanns á flokksþingi er hans langa ferli í stjórnmálum í raun lokið. Það sagði hann enda milli línanna sjálfur í kvöld. Hann leggur allt undir. Fái hann reisupassann yfirgefur hann sviðið. Hann verður enda aldrei sterkur forystumaður með brostinn skjöld eða bogið sverð. Það blasir við öllum sem þekkja stjórnmálin. Reyndar má nú spyrja sig hvort annað formannsefni sé í bígerð hjá Guðna og það sé úr sömu átt og hann en með ólíkan bakgrunn. Þar eigi að telja fram konunni sem bloggar og er að sönnu ímynd nútímakonunnar í stjórnmálum - þar sé kominn kandídatinn sem geti sigrað Jón Sigurðsson eða altént velgt honum verulega undir uggum.
Nú horfa allir til heilbrigðisráðherrans Sivjar Friðleifsdóttur og spyrja sig hvort hún sé formannsefni í þessari stöðu og muni skora viðskiptaráðherrann Jón á hólm. Allir bíða eftir hennar ákvörðun - hvert hún stefni. Í raun má segja að hún sé nú eina manneskjan í forystu flokksins sem geti átt möguleika í formannsslag á móti Jóni Sigurðssyni - sem sérvalinn var af Halldóri sem eftirmaður sinn. Spurningin er hvort að Siv þorir í slag við þennan augljósa krónprins Halldórsarmsins.
<< Heim