Helga Jónsdóttir sækir um í Fjarðabyggð
Enn á eftir að ganga frá bæjarstjóraráðningum í nokkrum sveitarfélögum. Eftir því sem mér telst til á eftir að ráða enn bæjarstjóra í Fjallabyggð (sameinuðu sveitarfélagi Ólafsfjarðar og Siglufjarðar), Norðurþingi (sameinuðu sveitarfélagi Húsavíkur og nágrannasveitarfélaga í Þingeyjarsýslu) og Fjarðabyggð (sameinuðu sveitarfélagi gömlu Fjarðabyggðar, Mjóafjarðar og Austurbyggðar). Framundan er því að ganga frá ráðningu á bæjarstjórum í þessum sveitarfélögum nú á sumarmánuðum. Í Fjallabyggð gegnir nú Þorsteinn Ásgeirsson, forseti bæjarstjórnar og reyndur sveitarstjórnarmaður, embætti bæjarstjóra og í Norðurþingi er Jón Helgi Björnsson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, starfandi bæjarstjóri. Í Fjarðabyggð gegnir Guðmundur Bjarnason, fráfarandi bæjarstjóri, sínum störfum þar til eftirmaður er valinn.
Í öllum sveitarfélögum var auglýst eftir bæjarstjóra. Í Fjallabyggð er að búast við ákvörðun um bæjarstjóra fljótlega eftir helgina og í Norðurþingi er stutt í ákvörðun. Í dag var birtur listi 20 umsækjenda um bæjarstjóraembættið í Fjarðabyggð. Er það mjög merkilegur listi umsækjenda. Er litið er yfir hópinn má sjá nöfn á borð við: Berg Elías Ágústsson fyrrum bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, Björn S. Lárusson framkvæmdastjóra hjá Bechtel, Bryndís Bjarnarson fyrrum bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ, Einar Vilhjálmsson fyrrum spjótkastara með meiru, Guðmund Helga Sigfússon forstöðumann Umhverfismálasviðs Fjarðabyggðar, Pál Björgvin Guðmundsson fjármálastjóri Fjarðabyggðar, Róbert Trausta Árnason fyrrum forsetaritara og sendiherra og Sigríði Stefánsdóttur forstöðukonu félagsþjónustusviðs Fjarðabyggðar.
En eitt nafn vekur meiri athygli en önnur í þessum 20 manna hópi. Það vekur undrun svo ekki sé meira sagt að sjá nafn Helgu Jónsdóttur, borgarritara og sviðsstjóra stjórnsýslu- og starfsmannasviðs Reykjavíkurborgar, í þessum hópi. Það er greinilegt að Helga er á útleið úr æðstu stjórn Reykjavíkurborgar í kjölfar valdaskipta þar. Í hádeginu heyrði ég utan af mér á kaffihúsi að ein af valdamestu konunum úr borgarkerfinu væri meðal umsækjenda í Fjarðabyggð. Heyrði ég nafn Helgu nefnt en taldi það hlyti að vera vitleysa og sagði ég mun líklegra að Kristín A. Árnadóttir, náfrænka mín, sem til fjölda ára var aðstoðarkona Ingibjargar Sólrúnar og síðar skrifstofustjóri borgarinnar væri meðal umsækjenda. Kristín er enda frá Eskifirði, en afar okkar þeir Halldór og Friðrik Árnason voru bræður. Taldi ég ekki ósennilegt að hún vildi fara austur.
En ég fékk svo staðfest skömmu síðar að hér væri svo sannarlega ekki um Kristínu að ræða heldur Helgu sjálfa. Það vekur vissulega mikla athygli að hún sæki um þarna. Hún er fædd og uppalin í pólitísku starfi innan Framsóknarflokksins og var lengi í stjórn SUF og síðar til fjölda ára einn nánasti pólitíski samstarfsmaður Steingríms Hermannssonar sem aðstoðarmaður hans árin 1987-1991 sem utanríkis- og forsætisráðherra. Hún varð borgarritari í Reykjavík haustið 1994, skömmu eftir valdatöku R-listans, og hefur gegnt því embætti alla tíð síðan. Hún var stjórnarformaður Landsvirkjunar árin 1995-1997, fyrst kvenna. Hún var einn nánasti pólitíski samstarfsmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í borgarstjóratíð hennar árin 1994-2003 og hefur verið henni trú og trygg alla tíð síðan í mörgum verkefnum.
Sérstaklega var í umræðunni í formannsbaráttu Össurar og Ingibjargar Sólrúnar á síðasta ári að fyrrnefnd Helga Jónsdóttir, virk framsóknarkona alla tíð og náin pólitískur samstarfsmaður fyrrum formanns flokksins, skyldi ganga í flokkinn sérstaklega til að styðja Ingibjörgu Sólrúnu og var mikil umræða innan flokksins um það. Helga sótti um embætti ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu sumarið 2004 en fékk ekki. Var Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðin af Árna Magnússyni, þáverandi félagsmálaráðherra, til verka. Í mars 2006 komst umboðsmaður Alþingis fram með það álit sitt að ekki hefðu legið faglegar ástæður á bakvið ákvörðun ráðherrans um að velja Ragnhildi umfram Helgu Jónsdóttur.
Í álitinu kom fram það mat að verulegir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð ráðherrans og illa unnið. Þetta var eftir að ráðherrann hafði vikið en Helga hafði kvartað til umboðsmannsins vegna málsins. Benti umboðsmaður á það að Helga hefði um fimmtán ára starfsreynslu á vegum opinberra aðila en Ragnhildur aðeins þrjú og hálft ár. Var málið umdeilt og mikið um það rætt. Augljóst var er ráðuneytisstjórinn var valinn sumarið 2004 að fullkomin slit hefðu orðið á milli Helgu og forystu flokksins. Segja má reyndar að hún sé ekki lengur virk í starfinu innan hans og tilheyri mun frekar Samfylkingunni.
Sú ákvörðun hennar að sækja um í Fjarðabyggð sannfærir fólk vel um að Helga vill komast burt úr borgarkerfinu nú við meirihlutaskipti og telji það ekki fýsilegt að vinna undir forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og hún telji rétt að halda á braut. Nú verður fróðlegt að sjá hvað þeir gera í Fjarðabyggð. Verði Helga Jónsdóttir, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, hljóta það að teljast mikil pólitísk tíðindi og um leið myndi slíkt opna á skemmtilegar umræður um það hver yrði borgarritari í Reykjavík myndi staðan losna vegna þessa.
<< Heim