Vangaveltur um fjölskylduhátíð á Akureyri
Eins og flestir vita er framundan nú um næstu helgi verslunarmannahelgin, ein af stærstu ferðahelgum ársins. Er hún óvenjuseint núna en það hljóta þó allir að gleðjast yfir því að þetta lengir sumarið í annan endann að hafa verslunarmannahelgina aðeins seinni en venjulega. Eins og oft áður er haldin hér á Akureyri fjölskylduhátíð þar sem margt er skemmtilegt á dagskrá. Búast má við miklum mannfjölda í bænum og skemmtilegu andrúmslofti eins og fyrri ár. Í fyrra var fjölmennasta útihátíð ársins haldin hér í bænum og var virkilega gaman að fara um bæinn. Þá streymdi fólk í bæinn og voru vel yfir 15.000 gestir hér. Mikið blíðviðri var alla helgina og hátíðin að mestu leyti til fyrirmyndar.
Útihátíð hér um verslunarmannahelgi er að mínu mati hið besta mál. Það var hinsvegar ólíðandi að meginfrétt helgarinnar æ ofan í æ seinustu árin var óregla á tjaldsvæðinu hér við Þórunnarstræti og ómenningin sem þar var. Á því stóra vandamáli var tekið með breytingum á tjaldstæðinu í fyrra og er það gleðiefni að það var gert. Styð ég heilshugar allar þær breytingar sem gerðar voru þar. Þar bar hæst að nú mega þar aðeins vera fjölskyldufólk með fellihýsi, tjaldvagna og húsbíla. Var gott að tekið var á þeim málum og vonandi mun þessi ágalli, annars góðrar útihátíðar, heyra sögunni til nú og vonandi ganga eins vel og í fyrra. Góð breyting og ég fagna því t.d. sérstaklega að tjaldsvæðið sé lokað um 17. júní helgina og það sé til góða.
Enginn vafi er að Ein með öllu er mikil lyftistöng fyrir verslunar- og þjónustuaðila í bænum og mun hátíðin styrkja bæinn og stöðu hans til muna, eins og jafnan áður. Deilt hefur lengi verið um það hvort að bærinn eigi að standa að hátíðinni. Á fundi bæjarráðs sl. fimmtudag bókaði Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi, að hún væri andvíg þeirri tillögu að bærinn styrkti hátíðina um 1,3 milljónir króna. Ella Magga hefur tjáð óhikað þær skoðanir sínar að ekki sé rétt að bærinn standi að slíkri hátíð og efasemdir séu uppi um hvort rétt sé að hana skuli halda með þeim hætti sem verið hefur í ljósi þess að mikil óregla sé á slíkri hátíð. Hún mun greinilega verða virkur talsmaður þeirra skoðana í bæjarstjórn og bæjarráði.
Það er svosem ekkert óeðlilegt að uppi séu skiptar skoðanir um hátíð af þessu tagi og sjálfsagt rétt að ræða hvort rétt sé að sveitarfélagið sem slíkt standi að henni með beinum hætti. Sem dæmi má nefna að bærinn greiðir allan aðkeyptan lögreglukostnað á tjaldsvæðin. Það er alveg ljóst að staða mála á þessari hátíð hefur farið batnandi ár frá ári og menn hafa með hverri hátíðinni færst nær því að hafa stjórn á drykkju og skemmtun fólks á öllum aldri, enda er það alkunn staðreynd að ekki eru það bara ungt fólk sem fær sér í glas á svona hátíð. Yfir allar hliðar hátíðarinnar er sjálfsagt og rétt að ræða og ég skil vel athugasemdir Ellu.
Ég vona að við öll Akureyringar eigum framundan góða og skemmtilega helgi og við fáum marga góða gesti hingað til okkar. Þetta er hátíð allra og hún á að vera fjölskylduhátíð fyrst og fremst - hátíð þar sem fólk kemur saman til að skemmta sér með þeim hætti sem hver og einn telur heppilegast. Við höfum sýnt það og sannað seinustu ár að hingað vill koma þessa helgi, njóta alls þess besta sem bærinn býður og hafa það gott í norðlenskri bongóblíðu. Það stefnir einmitt í besta veðrið hér og sannkallaða hitabylgju, sem er mikið gleðiefni
<< Heim