Varnarviðræður á krossgötum
Varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna hófust í morgun í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Geir H. Haarde, forsætisráðherra og fyrrum utanríkisráðherra, leiðir málin af Íslands hálfu en Albert Jónsson stýrir viðræðunum. Þar er rætt um framtíð varnarsamningsins og hvernig horfa eigi til varna landsins eftir að Varnarliðið fer héðan af landi brott í haust. Óhætt er að segja að varnarviðræður seinustu ára hafi verið eitt af mest áberandi málum í stjórnmálunum á þessu kjörtímabili. Yfirvofandi hefur verið til fjölda ára að Varnarliðið færi af landi brott og er nú aðeins samið um frágang þess máls. Viðræður um varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna vegna breyttra aðstæðna í heimsmálum af því tagi sem við erum að verða vitni að nú enn eina ferðina hófust í raun árið 1993.
Í janúar 1994 var undirrituð bókun til tveggja ára um framkvæmd varnarsamstarfsins. Með henni var ákveðið að orrustuþotum varnarliðsins skyldi fækkað úr tólf í fjórar. Þá var ákveðið að leggja niður starfsemi hlustunarstöðvar og fjarskiptastöðvar. Árið 1996 var samþykkt ný bókun um framkvæmd varnarsamningsins til næstu fimm ára. Þrátt fyrir að bókunin hafi einungis átt að gilda til ársins 2001 höfðu formlegar viðræður um endurnýjun bókunarinnar ekki hafist að neinu ráði þegar að til kom einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar vorið 2003 um að allur varnarviðbúnaður færi af landi brott. Þar höfðu reyndar komið til ýmsar tafir. Fyrst vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember 2000, hryðjuverkanna í New York og Washington 11. september 2001 og svo vegna þingkosninga hér á landi árið 2003.
Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lengi ljóst að umfang varnarliðsins í Keflavík gæti ekki minna verið en það sem samið var um árið 1994. Nú stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að endalok varnarliðsins hérlendis blasa við og því verður ekki breytt. Við stöndum frammi fyrir orðnum hlut og ekkert hægt í því að breyta. Viðræðurnar sem nú standa og hafa gert seinustu mánuði eru því aðeins að semja um orðinn hlut og hvernig búa megi við það. Að mínu mati hefur Bandaríkjastjórn komið fram með ótrúlegri óbilgirni og verið mjög ósveigjanleg í túlkun á tvíhliða varnarsamningi. Að mínu mati er vandinn í stöðunni tvíþættur: annarsvegar einhliða rof Bandaríkjanna á tvíhliða varnarsamningi og hinsvegar sofandagangur stjórnvalda til fjölda ára í málinu, sem er mjög áberandi ef farið er yfir málið.
Til fjölda ára var stólað á að Bandaríkjastjórn myndi standa við loforð sín og varnarsamninginn. Það voru draumórar einir og ekkert eftir sem heitið getur er byggir undir þennan varnarsamning. Í reynd heyrir hann sögunni til þegar að varnarviðbúnaðurinn fer af landi brott. Það má segja sem svo að utanríkisráðherrar landsins á árunum 1993-2003 hafi eytt tímanum í rangar áherslur. Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra á þeim tíma sem samið var um að þoturnar yrðu fjórar í stað tólf áður. Það kom mér mjög spánskt fyrir sjónir er Jón Baldvin sagði á málþingi hér á Akureyri fyrir nokkrum mánuðum að stjórnvöld hefðu alltaf koðnað undir Bandaríkjastjórn í málinu. Sem betur fer var honum þar bent á að hann sem utanríkisráðherra var á fullu í því verkefni og því engu skárri en þeir sem hann þar gagnrýndi.
Á þeim tveim árum tæpum sem Sjálfstæðisflokkurinn sá um utanríkisráðuneytið í fyrsta skipti í tæpa tvo áratugi var betur gert sér grein fyrir því að engu yrði breytt í stöðunni. Varnarliðið myndi fara og aðeins væri um viðræður um frágang þess að ræða. Í reynd má þar með segja að ekkert sé eftir af hinum gamla varnarsamningi nema skuldbindingin ein um varnir. Það er þó öllum ljóst að ekki verða þær tryggðar hérlendis úr því sem komið er. Það eina rétta sem Íslendingar geta nú gert er að horfa í eigin barm og meta með því hvernig við getum sjálf tekið við sem mestum verkefnum í stöðunni. Tek ég undir hugmyndir Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, í nýjasta riti Þjóðmála þar sem hann fjallar um varnarmálin og kemur með gott mat á stöðuna - sem ég tek heilshugar undir. Þar koma fram athyglisverðar vangaveltur.
Ef marka má fréttir í dag gengur ekkert í viðræðunum. Það virðist enginn þungi í þeim og átakamálin virðast ekki með neinum hætti ætla að verða mýkri. Tekist er á um viðbúnað varna eftir að herinn fer og greinilega engin samstaða um hvað taka skuli við. Eins og vel hefur komið fram er ekkert vitað um hver verði framtíð Keflavíkurstöðvarinnar eða varna landsins almennt. Ég var staddur á varnarsvæðinu fyrir hálfum mánuði og gerði mér þá í fyrsta skipti almennilega grein fyrir umfangi þess og þeim verkefnum sem við blasa. Það er ekkert vitað um fjölda þátta málsins: hvort landið eða fasteignum verði skilað til íslenskra stjórnvalda, hvort þær megi nýta er Varnarliðið fer og þá hvernig þær verði notaðar, hvort greiða þurfi fyrir þær og þá hve mikið. Ekkert hefur heldur verið ákveðið um hvort Bandaríkjamenn ætli að hreinsa svæðið.
Spurningarnar eru margar og ef marka má gang viðræðnanna gengur hvorki né rekur í því að ná samkomulagi um framtíðartilhögun mála. Ég tel að nú sé komið að okkur að taka af skarið. Við getum ekki beðið endalaust eftir því að aðrir hjálpi okkur. Það er vissulega leitt að ekki hafi verið samið af viti um varnarmálin fyrr með þeim hætti að semja um viðskilnað Bandaríkjanna við landið. Það er með ólíkindum að við þurfum að "semja" um einhliða óskir Bandaríkjanna og hvernig þeir vilja haga málum. Við áttum að taka af skarið mun fyrr og ljúka málum með okkar hætti en ekki annarra. Við eigum enda að horfa til okkar þarfa á þessum krossgötum en ekki annarra.
<< Heim