Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 ágúst 2006

Birkir Jón og Sæunn takast á í ritarakjöri

Sæunn og Birkir Jón

Eftir sex daga mun Sæunn Stefánsdóttir, sem var pólitískur aðstoðarmaður Jóns Kristjánssonar 2003-2006, taka sæti Halldórs Ásgrímssonar, fráfarandi formanns Framsóknarflokksins, á Alþingi Íslendinga. Það er vissulega mjög merkilegt að kona um þrítugt taki sæti í stað Halldórs og er eiginlega mjög til marks um þá uppstokkun sem er að eiga sér stað innan Framsóknarflokksins við þær miklu breytingar sem fylgja því að Halldór hætti í stjórnmálum. Nú hefur Sæunn komið fram í fjölmiðlum í dag og lýst formlega yfir framboði sínu í embætti ritara flokksins á flokksþinginu um helgina. Er hún sú fjórða sem gefur kost á sér til þess embættis, en fyrir í þeim slag eru alþingismennirnir Birkir Jón Jónsson og Kristinn H. Gunnarsson og Haukur Logi Karlsson, fyrrum formaður SUS. Stefnir því auðvitað í mjög spennandi slag um það embætti eins og önnur.

Það vekur mikla athygli að Sæunn sem er auðvitað mjög nýleg í pólitík hafi ákveðið framboð af þessu tagi. Sérstaklega er athyglisvert að Sæunn, sem hefur verið mjög áberandi stuðningsmaður Jóns Sigurðssonar, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í formannskjörinu um helgina fari fram og það gegn Birki Jóni, sem var varaformaður SUF í tíð Sæunnar þar í stjórn. Ennfremur vita allir að Sæunn og Dagný Jónsdóttir, alþingismaður hér í kjördæminu, eru mjög nánar vinkonur og hafa t.d. notað mjög svipaða frasa til að reyna að tala máli Jóns Sigurðssonar í formannskjörinu í spjallþáttum og í skrifum á netinu. Má leiða getum af þessu öllu að Dagný styðji framboð Sæunnar Stefánsdóttur til ritaraembættisins en ekki Birki Jón, sem hefur verið félagi hennar í ungliðastarfinu (hann var varaformaður hennar í SUF á sínum tíma) og í þingstörfunum.

Ég verð að viðurkenna að ég taldi mjög lengi framan af að Birkir Jón Jónsson væri óskoraður fulltrúi Halldórsarmsins, og jafnframt þeirra sem styðja Jón til formennsku, í ritarakjörinu en er farinn að efast nokkuð um það. Það má mun frekar telja Sæunn til náinna samstarfsmanna Jóns innan hans arms í þessu kjöri. Það er allavega ekki samstaða um Birki Jón til verka í þessum armi og reyndar vakti mikla athygli að Birkir Jón, Siv og Guðni héldu sameiginlegan framboðsfund í gærkvöldi með flokksfélögum á Ísafirði. Þau komu saman til fundarins með sömu flugvél og er um fátt meira talað í dag en að Siglfirðingarnir Siv og Birkir Jón séu í samstarfi nú, enda líti Birkir Jón svo á að Sæunn sé ritaraefni Jónsmanna. Það vekur allavega athygli að vinkona Dagnýjar og sem er líka nátengd Jóni Sigurðssyni fari fram gegn Birki til ritarans.

Það virðist erfitt að lesa í fylkingarnar innan Framsóknarflokksins, enda mikill hreyfingur með fólki sem eykst með hverjum frambjóðandanum sem stígur fram á sviðið þessa síðustu daga fyrir flokksþingið. Þó tel ég að það megi fullyrða það að Siv Friðleifsdóttir og Guðni Ágústsson séu í nánu samstarfi um að vinna fyrir flokksþingið. Heyrst hafa enda sögur um það að Guðni sé að smala sínu fólki í Suðurkjördæmi til fylgilags við framboð Sivjar og sú smölun sé víðtækari. Steingrímur Hermannsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er líka stuðningsmaður Sivjar og leggur eitthvað á sig fyrir hana að reyna að ná í stuðning, einkum í kraganum og á sínum gömlu slóðum fyrir vestan. Það er allavega skýr fylkingabarátta um formennskuna og greinilegt að þeir sem hafa gagnrýnt Halldór Ásgrímsson opinberlega styðji Siv.

Það stefnir í spennandi helgi hjá framsóknarmönnum og eldfima kosningu þar sem tekist er á af krafti. Það er mjög nýtt fyrir framsóknarmenn að sjá kosningu um öll embætti sín á flokksþingi og hefur aldrei gerst áður. Sérstaklega stefnir í spennandi kosningu um ritarann. Ungliðar flokksins sameinast greinilega ekki um Birki Jón sem ritara og tekist á mjög víða, enda mjög ólíkir kandidatar komnir þar fram. Fyrst og fremst verður þó spennan um formennsku flokksins og má búast við að úrslitin í því kjöri hafi veruleg áhrif á það hvernig raðast í hin forystuembættin tvö. Svo gæti farið að flokkurinn myndi fara í gegnum mikla uppstokkun um helgina og við blasi gjörólík forysta við stjórnmálaáhugamönnum á laugardaginn.